<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d1201978586094407619', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

miðvikudagur, apríl 27, 2005

20:50 -


Með nokkuð (mjög) mikilli vissu er hægt að fullyrða að ég er ekki sérstaklega fyrirhyggjusamur. Til marks um þetta má nefna ýmis dæmi en til að dælda ekki mannorðið meira en orðið er ætla ég að sleppa því og eftirláta lesendum sem þekkja til að rifja þau upp. Þetta er þó allt að breytast í seinni tíð og með hverju árinu sé ég lengra fram í tíman og fylli út í fleiri reiti á dagatölum og í dagbókum. Þar sem fyrirhyggja er áunninn eiginleiki hjá mér en ekki náttúrulegur vilja niðurstöðurnar stundum verða svolítið kekkjóttar. Þetta er jafn vandasamur samruni og rauðvín í rjómasósu. Þannig hefur maður t.d. spælt sig yfir flugferðum sem hafa verið keyptar á spottprís langt fram í tímann, en svo á endanum hefur þurft að breyta dagsetningum fyrir morð fjár.

Nú síðast í dag veiti fyrirhyggjusemin mér harkalegan löðrung en þannig er hátturinn hér á heimilinu að til þess að eiga örugglega alltaf mjólk í kaffið keypti ég í haust forláta kaffirjóma í eins bolla einingum, eins og er boðið upp á í flugvélunum. Þessi ráðstöfun hefur komið sér vel því ef svo illa fer að maður eigi ekki mjólk á morgnana þá getur maður alltaf fengið rjóma í kaffið. Þannig var það einnig í morgun en ekki eftirkastalaust, því undir hádegið var ég orðinn frekar gufulegur og kominn upp í rúm síðdegis með krampakennda magaverki.

Við nánari eftirgrennslan hefur athyglin beinst að kaffirjómanum, sem var örlítið kekkjóttur í morgun en þó varla þannig að það gæfi tilefni til áhyggna, og reyndist útrunnin síðan í byrjun mars. Samt finnst mér það frekar léttvæg skýring, í eina tíð borðaði fólk úldinn mat mánuðum saman og hafði a.m.k. nóga orku til að tóra fram á vor, þetta voru varla nema 2-3 ml af kaffirjóma - nema maður sé orðinn svo gerilsneyddur að innan að það sé nóg til að setja mann út af laginu.

Ef einhver lumar á húsráði til efla innviðina þá er það vel þegið.

Skelli með þessum raunarekstri mynd af kirsuberjatrjám (Prunus eitthvað á latínu;-), en þau blómstra á vorin áður en þau laugfast. Mjög falleg tré og minna mig alltaf á landkynningarbók sem Siggi Gunnars lumar á um Pyongyang höfuðborg Norður Kóreu. Þar eru eintóm kirsuberjatré sem standa í blóma allt árið!!! Posted by Hello

|

sunnudagur, apríl 24, 2005

20:40 -


Dallas er komið á dagskrá hjá einni af hollensku sjónvarpsstöðvunum. Þættirnir eru sýndir á besta tíma á fimmtudagskvöldum og var meira að segja hleypt af stokkunum með töluverðu tilstandi. Þannig hefur J.R. heimsótt landið af þessu tilefni og komið fram í dægurmálaþáttum. Aðspurður sagði hann að Dallas-menn hefðu notað te í viskí senunum en ég hef kosið að trúa því ekki.

Dallas er hvalreki í sjónvarpsdagskránni - þvílíkt klassaefni! Fyrsta Dallas minningin mín er frá því þegar Jock dó og það gerðis örugglega ekki fyrr en undir 1990. Síðan fóru endursýningarnar á SkjáEinum á sínum tíma algerlega framhjá mér. Þannig er atburðarrásin fersk og verður að segjast eins og er að sjónvarpsþáttagerðarmenn hafa greinilegt gleymt ýmsu síðan 1978. Þetta er sko alvöru drama! T.d. verður Pamela ólétt og missir fóstrið allt í sama þættinum - svona aksjón tæki heila seríu í dag.

Hálf gleðin er náttúrlega stíllinn á liðinu sem er algerlega óviðjafnanlegur. Dömurnar í glæsikjólum og herrarnir í jakkafötum og kúrekastígvélum. Svo virðast þau eiga Benz í stíl við hverja flík.

Steini og Sunna gáfu tóninn í fyrra með því að dansa við Derrick stefið í brúðkaupinu sínu. Hvernig væri nú að einhver tæki Dallas stefið upp á sína arma nú þegar sumar ástarinnar er gengið í garð. Síðan bendi ég brúðkaupsskipuleggjendum á að South Fork þema væri algerlega tilvalið. Það má t.d. fá innblástur úr grillveislu Ewinganna í sjötta þætti allra fyrstu seríunnar. Áhugasömum er bent á www.ultimatedallas.com , þaðan sem þessi fallega mynd var fengin að láni. Posted by Hello

|

föstudagur, apríl 22, 2005

22:44 -


Í gær var gluggaveður, sól og frekar svalt til loftsins. Í dag var alvöru góðviðri, sól og hlýindi, sem var góð tilbreyting eftir tvær rakar vikur. Af því tilefni hefur kúnum hér í Veldwezelt verið hleypt út. Þannig rak mig í rogastans í dag þegar ég hjólaði venjulegu leiðina í skólann og rakst á kúastóð steinsnar frá húsinu mínu. Ég hafði aldrei veitt þessum grasbala athygli en allt í einu var búið að setja upp senu sem gæti átt við auglýsingu fyrir Milka súkkulaði - þvílíkur stuðvaki í góða veðrinu. Nú þarf maður að fara að kíkja á strútana!

Hér hefur áður verið minnst á ýmsa ferfætlinga og fugla sem íbúar hverfisins halda, og því meira sem ég sé því magnaðara finnst mér þetta. Mjög töff að mixa saman sveit og úthverfi. Almennt þykja mér sveitir ljótar og úthverfi óspennandi en blandan er góð. Hvað segir Sigríður í Ósló um þetta - gæti þetta verið framtíðarmúsík fyrir landbúnaðinn?

***

Núna eru tvö heit mál í gangi á Ísafirði, stóra menntaskólamálið og stóra snjóflóðavarnamálið. Mér finnst stóra menntaskólamálið mikið áhyggjuefni en það bendir allt til þess að það sé rétt að byrja. A.m.k. bendir ekkert til þess að lausn sé í sjónmáli. Það eru allir búnir að vera voða passífir og hafa vonað að þetta myndi ganga yfir en annað á eftir að koma á daginn. Næsta stig í málinu er að það verða allir dregnir ofan í skotgrafir og síðan á málið eftir að festast í farinu og verða þar árum saman. Ef einhver von á að vera til þess að svo fari ekki og málið verði leyst, verða menn að halda haukfráum fókus á að lausnin er stjórnunarlegt viðfangsefni enda varð vandinn til innan MÍ en ekki í DV. Vona bara að fólk fari ekki hlaupa upp til handa og fót og kenna þeim um.

Hitt málið er svo stóra snjóflóðavarnargarðamálið. Ég las grein Jóns Fanndal á bb.is og finnst vera helst til mikið fát á garðyrkjumanninum skarpa og staðarhaldara flugvallarbarsins, en kannski má segja að nógu stór orð til að vera úr hlutföllum við varnargarðinn séu vandfundin.

Verður ekki alltaf erfitt að deila um fagurfræði? Skutulsfjörðurinn er ekki náttúra í sama skilningi og hálendi Íslands, Hornstrandir eða jafnvel hinir firðirnir í Djúpinu. Fyrir löngu var ákveðið að hann yrði vettvangur menningar sem hefur sett varanlegt mark sitt á ásýnd hans. Þannig finnst mér kjarrið í Tungudalnum ekki mikilvægari hluti af heildarmyndinni en húsin í Hafnarstrætinu eða Kubbinn merkilegri en Ásgeirsbakkinn. En það er á okkar ábyrgð að skipuleggja svæðið vel og passa upp á að því verði ekki klúðrað. Þess vegna er fagnaðarefni að menn séu tilbúnir að setja kraftana í að skrútínera fyrirhuguð varnarmannvirki. Það er líka ábyrg pólitík að vilja ekki seilast dýpra í ríkisvasann en þörf er á - það eykur trúverðugleika okkar Vestfirðinga.

Þegar snjóflóðagarðarnir voru byggðir í Seljalandsmúlanum voru margir á nálum, ég meðtalinn, því inngripið í umhverfið yrði ekki aftur tekið. Eftirá er ég sáttur við garðinn og finnst hann ekki lýti á umhverfinu. Kannski er of snemmt að kveða upp úrskurði, verður jafnvel að bíða nokkur ár til að sjá hvernig hann grær upp - vonandi fær hann ekki sinuásýnd eins og vegkantur þegar fram líða stundir.

Hvað sem því líður verður að hafa í huga að spurningin um snjóflóðavarnargarða í Skutulsfirði snýst ekki um umhverfisleg prinsipp eins og Kárahnjúkar eða Eyjabakkar, heldur smekk - rétt eins og það hvort manni finnst kirkjan eða Neisti hafa bætt bæjarmyndina.

Ég er spenntur fyrir vörnum í Kubbanum. Stálstrípurnar í fjallinu munu gefa firðinum módernískt yfirbragð og harmónera vel við Fokkerinn þegar hann flýgur yfir Hafrafellshálsinn. E.t.v. verður maður ekki eins spenntur þegar jarðýturnar verða mættar í Stórurðina, eins og liggur fyrir að gerist innan fárra ára, enda er um smekksatriði að ræða, ekki prinsipp. Posted by Hello

|

þriðjudagur, apríl 19, 2005

13:51 -


Áðan leit ég inn á Vísisvefinn og las pistil Egils Helgasonar um Íslendinga í Danmörku þar sem hann lagði m.a. út af síðasta Laugardagskvöldi hjá Gísla Marteini. Eftir að hafa lesið pistillinn gat ég ekki stillt mig um að kíkja á þáttinn, sem var fínn ef maður hraðspólaði hæfilega mikið, en ég gat ekki varist því að finnast unga fólkið sem Gísli Marteinn spjallaði við óhóflega leiðinlegt. Síðan ætlaði allt um koll að keyra í leiðindunum þegar pönkpolkahljómsveit Íslendinga í Kaupmannahöfn steig á stokk.

Næst spjallaði hann við Tryggva Ólafsson listmálara og Ólaf Hauk Símonarson. Þarna voru semsagt komnir tveir gráleitir kallar um sextugt sem reyndust svona ljómandi skemmtilegir viðmælendur. Gátu spjallað um menn og málefni og sett umræðuefnið í frumlegt samhengi.

Eftir nokkrar pælingar er ég kominn að vangaveltum sem ég er alls ekki að standa mig að verki við í fyrsta skiptið. Getur hreinlega verið að fólk u.þ.b. á mínum aldri og aðeins eldra sé hreinlega leiðinlegra en áður gengnar kynslóðir Íslendinga? Mér finnst það oft á tíðum beinlínis vandræðalegt þegar ungum viðmælendum er hleypt að í sjónvarpinu. Það eru alltaf gerðar tilraunir með það annað slagið að hleypa fersku blóði inn í þjóðmálaumræðuna og mér finnst unga fólkið oftast skora sjálfsmark með hjólhestaspyrnu - ekki af því það sé vitlaust heldur beinlínis vegna þess að það er svo leiðinlegt áheyrnar.

Þannig birtist það t.d. í Laugardagskvöldinu að unga fólkið var að missa það úr sjálfumgleði, svo minnti á Grétar Örvars í Stjórninni á góðum degi. Síðan sér maður oft gáfað og greint fólk koma í þjóðmálaþættina t.d. Silfrið og Kastljós og þá minnir það oftar en ekki á besserwissesara í skólastofu sem svara með öllum réttu stykkorðunum - eða þá að menn þylja upp formúlur og frasa eins og þeir séu á ársþingi steríógræjuáhugamanna.

Getur það virkilega verið að það sé til heil kynslóð Íslendinga sem eigi erfitt með að halda uppi spjalli öðruvísi en að tala um sjálft sig eða sítera í kennslubækur? E.t.v. er þetta óþarfa dómsdagsótti en það virðist sem hæfileikinn til að spjalla um menn og málefni, segja frá og hlusta þannig að gaman sé af, sé á undanhaldi.

Kannski hefur þetta alltaf verið svona, fólk er einfaldlega mislipurt í mannlegum samskiptum, sumir geta reitt af sér sögur og laða að sér hugfangna áheyrendur, meðan öðrum fer betur að hlusta. Getur þá verið að nú þegar heil kynslóð er vaxin úr grasi sem hefur fengið stofnanauppeldi frá fyrsta degi, sótt sjálfsstyrkingarnámskeið og stundað félagsmiðstöðvar, séu menn almennt orðnir svo birgir af sjálfstrausti að þeir blaðri allir út í eitt, líka þegar þeir hafa ekkert fram að færa? Það getur verið að daglaunamennirnir á stofnununum hafi ekki fundið það hjá sér að segja þessum púkum að þegja þegar við átti, en mér finnst kominn tími til.


Set með mynd af björtum himni til að vega upp á móti rigningunni úti. Posted by Hello

|

sunnudagur, apríl 17, 2005

23:05 -


Um síðustu helgi fór ég í heimsókn til Elínar í Dyflinni, þar sem hún stundar meistaranám í leikhúsfræðum. Eins og Lella Gella hefur útlistað á sínum vef skemmtum við okkur alveg konunglega. Við erum nefnilega sammála um að drykkjusiðir útlendinga séu hálf skrýtnir, fólk vill dreifa drykkjunni yfir alla vikuna og svo er alltaf hætt þegar eitthvað stuð er að komast í hlutina. Við bættum svo sannarlega upp fyrir vankanta evrópskrar samkvæmismenningar og tókum á því báða dagana! Posted by Hello

|


23:05 -


Síðan vorum við gallhörð í að drífa okkur af stað í skoðunarferðir og þrömmuðum um miðbæinn og kíktum þar að auki á skemmtibátahöfnina í Dunn Leary (það er borið fram þannig en skrifað Dun Laoghaire á írsku). Eiginlega fannst mér ég kominn hálfa leið til Íslands, áfengið var orðið dýrara, veðrið kalsalegra og maður hafði útsýni fyrir augunum - sjó og fjöru í stað manngerðra akra og trjálunda. Posted by Hello

|


23:04 -


Guinnessinn reyndist mjög góður og síðan bauð Elín mér upp á frábæran síder sem heitir Bulmers. Hingað til hef ég ekki verið mjög spenntur fyrir síder og fundist hann helst til sætur en þessi var alveg magnaður, ferskur og minnti jafnvel á vín. Þarna erum við hress í göngutúr á sunnudag. Posted by Hello

|


23:02 -


Reyklausu barirnir voru líka alveg magnaðir. Á laugardaginn bjó ég mig undir að fötin önguðu af skemmtistaðalykt en þau voru bara góð til að fara í aftur. Þó ég sé á móti reykingabanni finnst mér það bara nokkuð þægilegt í praxís.

Mér fannst líka rosa gaman að sjá skólann hennar Elínar. Þetta svona campus-skóli eins og í bíómyndunum, maður byrjaði að flauta stefið úr Beverly Hills 90210 um leið og maður kom þarna inn. Rosa flottur garður (landareign) og fullt af byggingum sem hýsa skólann og svo stúdentagarðar. Gleymdi samt að taka mynd campusnum, hmm:/ Posted by Hello

|


23:00 -


Það er náttúrlega hneyksli að hafa ekki gert þessari stórgóðu ferð skil fyrr en, líklega af lífstílslegum ástæðum, lagðist ég í flensu eftir að ég kom heim og er búinn að vera eins og drusla síðan. Þannig hefur orkan farið í bráðnauðsynlegustu verkefni og samskiptin verið í lágmarki. Posted by Hello

|

fimmtudagur, apríl 07, 2005

00:18 -


Þessa dagana er maður að ná áttum aftur eftir prófatörnina í síðustu viku og tilheyrandi eftirprófafagnaðarlæti. Nú er málið að reyna að koma sér aftur í rútínu og saxa á listann sem safnaðist upp í aðdraganda prófanna. Posted by Hello

|


00:16 -


Til að fagna prófalokunum skellti ég mér til Amsterdam en þangað hef ég ekki farið þrátt fyrir að ferðin sé einungis tveir og hálfur tími og það gangi lest beint frá Maastricht. Hollenskir samferðarmenn mínir höfðu hvatt mig óspart til að fara sem fyrst því ég yrði vafalaust heillaður af borginni og vildi því ekki lenda í því rétt áður en ég færi heim. Menn virðast þó ekki 100% sammála um ágæti Amsterdam því einn húsfélaga minna sagði borgina fyrir smekklaust fólk. En mér fannst rosa skemmtileg stemmning og gekk eins og óður maður um borgina í tvo daga og tók helling af síkjamyndum - sem eru reyndar æðislegar túristaklisjur en það var mjög gaman að taka þær. Posted by Hello

|


00:15 -


Veðrið var rosalega gott og undir þeim kringumstæðum er götulífið og umhverfið svo skemmtilegt að maður þarf ekkert að skoða meira. Og fólkið er náttúrlega afskaplega almennilegt, enda eru líka allir með hendurnar hálfa leið ofan í veskinu hjá þér - þvílíkt okurbæli. Fyrir vikið eru nær engir þýskir ferðamenn í Amsterdam, aðallega Bretar sem búa almennt við hærra verðlag en íbúar meginlandsins og Ameríkanarnir sem láta ekkert slá sig út af laginu í þessum efnum. Næst ætla ég að reyna að slást í för með Hollendingum og fá innherjaupplýsingar um hvar eigi að kaupa í matinn og þannig. Posted by Hello

|


00:15 -


Annars kíkti ég á grasagarðinn sem var heldur dauflegur - maður hefur náttúrlega gríðarlegar væntingar til Hollendinga á þessu sviði. Gunna og Bjössi kíktu frá Brussel. Þau voru í sunnudagsbíltúr og litu við í Amsterdam og tóku kvöldmat með mér - það var gaman að hitta þau og fá fréttir enda nóg að gerast á þeim bænum. Posted by Hello

|


00:14 -


Ég dvaldi á indversku gistiheimili í Rauða hverfinu svo það fór ekki framhjá mér, en hafði tvöfalt afþreyingargildi því sögurnar frá Gunna Jóns og Steina snarlifnuðu við á rölti um göturnar - mér fannst ég hafa séð þetta oft áður. Síðan var kíkt á bari og baðhús og m.a.s. leðurverslanir þó ekkert hafi verið keypt í þetta sinn þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar. Það þýðir heldur ekkert að flana að svoleiðis ákvörðunum, og auðvitað verður maður af hafa eitthvað fólk með sér sem getur gefið second opinion. Reyndar hefur draumurinn alltaf verið að eignast rauðar Paul Stanley buxur en búðirnar sem ég skoðaði einblíndu á harðari tísku. Posted by Hello

|


00:13 -


Það væri nú stuð að búa á húsbáti! Posted by Hello

|


00:09 -


Flott blokk. Posted by Hello

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.