<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d1201978586094407619', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

fimmtudagur, apríl 19, 2007

01:39 -


Í dag birtist á heimasíðu Framtíðarlandsins og á bb.is grein eftir mig um háskóladrifna byggðastefnu. Vona að fólk hafi gagn og gaman af. Þetta efni var tekið fyrir í meistararitgerðinni minni frá Strathclyde þó þar hafi verið um heldur meira abstrakt pælingar að ræða. Er að hugsa um að skrifa fræðigrein á íslensku upp úr ritgerðinni. Sjálfsagt væri maður ekki svo lengi að því þegar maður færi af stað en það hefur ekki ennþá komist á dagskrá. Siggi Gunnars tók hina mjög svo framboðslegu mynd af mér og kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Mæli svo með greinargerð s.k. atvinnulífshóps Framtíðarlandsins um efnahagslega skynsemi Kárahnjúkavirkjunar. Þar er dregið saman mikið af efni sem þegar er komið út og t.d. vitnað í tillögur OECD um hvernig eigi að standa að ÚTBOÐUM á virkjanaréttindum. Niðurstaða hópsins er að 35-55 ma. kr. tap sé innbyggt í verkefnið!

Hvet fólk til að renna yfir greinargerðina. Held það sé leit að hreinni hægri pólitík á Íslandi í dag. Megininntakið í skýrslu hópsins er andstaða við að ríkið skekki samkeppnisstöðu atvinnuveganna með afskiptum sínum af einstaka greinum – m.a.s. þegar eiga í hlut opinber fyrirtæki sem fyrrum formaður SUS stýrir.

|


01:39 -

Þegar kemur vor og sól fyrirgefur maður allt. Maður fyrirgefur háa matvöruverðið, rándýru vínin í Ríkinu, olíusamráð, grænmetissamráð, verðtryggingu, háa vexti, vont borgarskipulag, einkabílismann, þjóðlegan dónaskap, skort á samhygð, skort á félagsþroska og þunglyndislegt skemmtanalíf. Þetta er allt gleymt og grafið. Núna er allt sumarið framundan. Tími grillveislna og brúðkaupa. Árni Þór skólabróðir minn úr HR kvænist Guðbjörgu sinni í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði á laugardag. Það verður Eurovision þema svo ég hlakka extra mikið til! Svo verður náttúrlega mikill fögnuður í september þegar Kiddý og Tóti bjóða til brúðkaups. Leyfi mér að spá að þau taki Priscillu og Elvis sér til fyrirmyndar.

|


01:39 -

Að selja auðlindir landsins undir markaðsvirði er annað hvort heimska eða meðvituð niðurgreiðsla. Þannig er tilvonandi álver sem Hitaveita Suðurnesja skaffar orku niðurgreidd atvinnustarfsemi og mér finnst það heimskulegt. Að öll þess nýlega uppbygging á niðurgreiddri atvinnustarfsemi (ríkisvæðing) sé útöð í fingraförum félaga minna á hægri vængnum er náttúrlega fáránlegt!

Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að fara með þessi mál í útboðsfarveg eins og OECD hefur marg bent á? Er kannski enginn í stjórnsýslunni og stjórnmálum sem kynnir sér álit fagmanna? T.d. nokkura ára gamla grein Más Guðmundssonar hagfræðings um að frekari aukning álframleiðslu myndi auka óstöðugleika í hagkerfinu þar sem greinin yrði svo ríkjandi í hagkerfinu.

Haldið þið að Norðmenn séu fljúgandi út um allar trissur að bjóða 40 ára bindandi olíusölusamninga með rabbati eða Sádí-Arabar séu með 2 fyrir 1 tilboð. Þessi orkugeiri á að vera bissness, ekki eitthvað feitukallafélag sem hittist einu sinni í viku yfir kökum til að deila út gæðum umbjóðenda sinna. Það verður að hámarka afrakstur auðlindanna! Hversu erfitt er að skilja þetta!

Hvaða gröfudella er þetta sem grípur fullorðna menn slíku heljartaki að rökhugsun og skynsemi er kastað út í veður og vind? Hverjir munu svo bera hitann og þungann af ruðningsáhrifunum? Nú auðvitað landsfjórðungar þar sem menn stunda heiðarlegar og óniðurgreiddar útflutningsgreinar eins og sjávarútveg, ferðaþjónustu og tækniiðnað.

|


01:39 -

Kíkti betur á Vestfjarðaskýrsluna og er ánægður með áherslurnar. Þær aðgerðir sem mælt er með er styrking innviðanna (samgöngur, fjarskipti, orkuveita), aukin þátttaka í samneyslunni og fjárfesting í menntun og rannsóknum. Í grófum dráttum eru þetta þær stóraðgerðir sem standa til boða í byggðamálum og eitthvað vit er í. Einnig er gagnlegt að í skýrslunni er tekin til skoðunar hugmynd um flutningsjöfnunarsjóð sem hefur verið til umræðu. Í sem stystu máli kemst nefndin að því að opinberu fé megi verja til byggðamála á mun skynsamlegri hátt. Því er ég hjartanlega sammála.

Færa má rök fyrir því að starf svona nefndar hafi visst gagn í sjálfu sér. Þó ekki sé nema það að fólk í stjórnsýslunni hefur þurft að skoða áhrif opinberrar stefnumótunar með hliðsjón af hagsmunum fleiri svæða en höfuðborgarinnar. Vandamálið hefur hins vegar ekki verið skortur á hugmyndum heldur aðgerðum. Sem fyrr er ekki hægt að trúa neinu um framkvæmdina fyrr en á því er tekið. Og þar sem kjörtímabilið er svo gott sem búið skoðast þetta varla öðru vísi en nokkurskonar stefnuskrá.

Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða í byggðamálum víða um heim og því hægt að nýta fræði og reynslu til að velja bestu lausnirnar. Hér á landi hafa m.a.s. verið samþykktar áætlanir um byggðamál og byggðakjarna á landsbyggðinni en gengið erfiðar að fá þeim framfylgt. Ég fullyrði að í stjórnsýslunni séu víða neikvæð viðhorf gagnvart landsbyggðinni sem geri þessi mál enn snúnari. Þess vegna fannst mér sérstaklega gott að í skýrslunni er bent á þá staðreynd að Vestfirðir hafa getu til að hýsa um 1.500 - 2.000 íbúa til viðbótar án mikilla opinberra fjárfestinga. Þarna er tækifæri til að krækja í þjóðhagslegan ávinning. Þetta eru ein rökin fyrir byggðastefnu sem á að halda á lofti.

***

Vestfirðir eru eins og Björk Guðmundsdóttir. Þurfa að meika það í útlöndum áður en meginstraumur íslenskra úthverfabúa tekur þá í sátt. Besta er að þetta virðist vera að gerast.

Þannig var æðislegt að lesa umfjöllun bresku stórblaðanna Times og Guardian um Rokkhátíð alþýðunnar. Hrifnæmi ég var hálf klökkur af gleði. Ekki nóg með að hátíðin sé að ala upp kynslóð trendsettera sem hafa skilning á að það býr fólk af holdi og blóði á Vestfjörðum heldur er hún súper landkynning.

Muggi og félagar hafa leyst úr læðingi gríðarlega krafta sem verka í þágu málstaðar svæðisins. Sá áróðursmáttur er ómetanlegur. Hátíðin er orðin mikið meira en sniðug og skemmtileg. Hún er algjört kraftaverk! Eftir því maður heyrir lenti framkvæmdin mikið á fárra höndum. Ég er hins vegar ekki í nokkrum vafa um að þorri bæjarbúa er fús að leggja af mörkum í þágu þessa merkilega verkefnis. En auðvitað er það þannig að sjálfboðaliðastarf krefst mikillar skipulagningar og utanumhalds. Það þarf að leggja niður hvað þarf að gera og hvernig og hafa eftirlit með öllu saman. Þannnig finnst mér líklegra að stjórnunargetan sé flöskuháls í framkvæmdinni heldur en mögulegir sjálfboðaliðar. Því blasir við að launuðum vinnustudum við hátíðina þarf að fjölga þó þær verði ekki nema lítið brot af heildarfjölda vinnustunda sem liggja í hátíðinni.

***

Rosalega hef ég líka haft gaman af að fylgjast með Óbeislaðri fegurð. 14 keppendur um 18 titla – bara snilld!. Keppnin hefur víst fengið gríðarlega mikla fjölmiðlaathygli á Bretlandseyjum. Það er náttúrlega alveg magnað en kemur e.t.v. ekki á óvart að þessi húmor gangi vel í keltneska frændur okkar. Þetta er hárfínt háð akkúrat í þeirra anda. Fjölmiðlar annars staðar á landinu virðast hins vegar ekki kveikja eins vel á þessu gríni.

***

Jón og Gummi buðu mér ásamt Bóasi Hallgrímssyni og Dalí syni hans upp í Borgarfjörð í sumarbústað þar sem við gistum aðfararnótt laugardags. Í sem stystu máli var þetta rosalega næs. Var vanstilltur eftir vinnuvikuna svo þetta boð kom á besta tíma. Grill, pottur og góður félagsskapur. Segi bara takk kærlega fyrir mig strákar!

Hins vegar tók ég með vont rauðvín sem ég vil vara vínunnendur við. Braut reglu nr. 1 og keypti ástralskt vín, ullabjakk!!! Það geri ég ekki aftur nema ný og firnasterk rök komi fram. Ástæða þessa brots á grundvallarreglu var að ég hafði lesið í tímariti um nýja röð vína eftir einn helsta víngerðarmann Ástrala. Þar stóð að hann hefði hingað til þurft að þjóna stórum vínfyrirtækjum en væri nú kominn af stað með sjálfstæða framleiðslu sem væri framúrskarandi góð. Það er lygi. Við vorum sammála um það strákarnir að Rolling Shiraz væri vont (fallegur miði með konu á hjóli). Flaskan var ekki einu sinni kláruð. Vínið er sætt og yfirgengilegt eins og áströlsk vín ein gerast og þar að auki með pirrandi vanillukeim sem virðist mjög í tísku í vínum nýja heimsins en mér fyrirmunað að skilja við hvaða mat hann á að passa. Brenndi mig á þessu sama á Kalíforníu Shiraz sem heitir Delicato. Sú flaska var opnuð um jólin og tókst ekki að klára hana.

Í sárabætur keypti ég spánskt vín í ríkinu í Mosfellsbæ á leiðinni heim. Gamli heimurinn svíkur mann ekki og mér er ljúft að mæla með Sangre de Toro frá Torres framleiðandanum. Kjarakaup (á íslenskan mælikvarða) á 1.090 kr. Vínið er frá Katalóníu og sver sig frekar í ætt við vín frá S-Frakklandi en algeng vín frá Spáni.

|


01:39 -

Olíuhreinsunarstöðvarmálinu er gaman að velta fyrir sér, skoða ólíka vinkla og geta í eyðurnar. Ennþá er þetta ekki nema brött hugmynd og því ekkert að taka afstöðu til. Ef þetta fer að hafa mikil smjörklípuáhrif er það mjög miður. Brýn þörf er að ræða byggðamál. Á þeim eru ekki til neinar skammtímalausnir. Bara langtímaaðgerðir sem þarf að byrja á sem fyrst. Olíumálið gæti hugsanlega komið inn í þá umræðu seinna, ef eitthvað konkret fer að gerast. En að spandera kosningaumræðunni í þetta er algjör sóun.

Vestfjarðanefndin lagði áherslu á nokkrar tillögur sem eru flestar góðra gjalda verðar og engin slæm. Mér var stórum létt að hin arfavitlausa flutningsjöfnunarsjóðshugmynd skildi ekki rata þangað inn. En hvað er málið með svona málsmeðferð? Persónulega finnst mér þetta niðurlægjandi. Því er blásið upp í fjölmiðlum að úr tillögunum fáist 80 störf á Vestfirði fyrir 500 milljónir af skattfé á ári hverju. Fólkið í úthverfunum hugsar að enn einu sinni sé verið að mylja undir Vestfirðingana. Af því auðvitað lýtur málatilbúnaðurinn þannig út að þetta sé við það að detta í framkvæmd. Og eftir mörg ár af alls kyns ályktunum um málefni Vestfjarða standa borgarbúar í þeirri meiningu að ítrekað hafi verið gripið til aðgerða í þágu fjórðungsins og þar sé hver einasti kjaftur á opinberu framfæri. Þeir sem þekkja til vita betur.

Núorðið hljóta Vestfirðingar að hafa áttað sig á fyrsta lögmáli götugreindar: „talk is cheap“. Ég stend ekki í neinni þakkarskuld fyrir Geir H. Haarde fyrir þennan blaðamannafund. Ef ég mæti honum á götu ætla ég að segja: „Show me the money nigger!“

P.s. má til með að nefna að ég fékk SMS frá Sigga Gunnars í dag þar sem hann óskaði mér til hamingju með að Lækjargötuhúsin væri orðin að ösku. Ég hafði nefnilega lýst því við hann að mér þættu þau ljót og vildi fá reisulegar steinbyggingar í staðinn. Svo las ég pistil Egils Helgasonar um málið og hringsnérist á punktinum. Núna er ég endurbyggingarsinni og krefst þess að Fröken Reykjavík verði endurgerð í sinni upprunalegu mynd.

|

mánudagur, apríl 02, 2007

19:26 -

Iðratilfinningin segir mér að viðsjárverðir tímar séu framundan í umræðunni um Háskóla á Vestfjörðum. Margir gallar eru á íslenska háskólakerfinu í dag sem á eftir að ræða. Þeir eru dýrir og óvíst hverju þeir skila. Frá því þrönga sjónarhorni að ætla einungis að fá sem besta kennslu fyrir sem minnstan peninga er ekki spurning að það myndi margborga sig að senda alla utan, þar sem skólarnir eru ódýrari í rekstri sökum stærðarhagkvæmni og oft mikið betri, auk þess sem uppihaldið er þeim mun ódýrara. Þegar þessi umræða dettur í gírinn eiga vesturbæjarkverúlantar eftir að grípa hana fegins hendi og úrskurða, í eitt skipti fyrir öll, að fyrst háskólar gangi varla í Reykjavík og á Akureyri gangi þeir örugglega ekki á Ísafirði!

Þess vegna held ég að Vestfirðingar þurfi að taka höndum saman um að skilgreina hvernig sú æðri menntastofnun sem við viljum byggja upp sem hornsteininn í nýrri (fyrstu) alvöru byggðastefnu. Það módel sem verður fyrir valinu þarf að geta komist fyrir þá galla sem hrjá fjórða stigs menntunarstarfsemi á Íslandi, að hún sé óframleiðin og hugsanlega af slökum gæðum.

Þegar best lætur hefur rannsóknarstarfsemi þau ytri áhrif að stuðla að aukinni framleiðni atvinnulífsins í nágrenninu . Sú þróun tekur langan tíma. Kennslustarfsemi er talin hafa minni (ef nokkur) áhrif á staðbundna framleiðni. Aftur á móti hafa bein framlög til kennslu meiri margföldunaráhrif, í formi aukinnar eftirspurnar í samfélaginu, sökum þess að hún dregur nemendur inn á svæðið (og heldur í þá sem fyrir eru) og þannig leggst eyðsla nemendanna við eyðslu stofnunarinnar. Eftirspurnaráhrifanna gætir strax.

Þannig er ljóst að frá hagrænum sjónarmiðum er mjög eftirsóknarvert að setja upp byggðaháskóla sem hýsa bæði rannsóknir og kennslu. Áhrifa kennslu og rannsókna gætir strax í aukinni veltu í samfélaginu. Ef vel er að verki staðið fara framleiðniáhrif rannsóknanna að verka yfir lengri tíma. Þar fyrir utan er það náttúrlega rótgróið sjónarmið að öflun og miðlun þekkingar séu ferli sem styðji hvort við annað. Í seinni tíð er svo farið að tala um að æðri menntastofnanir hafi samfélagslegt hlutverk til viðbótar við rannsóknirnar og kennsluna.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að mörgum rannsóknarviðfangsefnum getur verið ákaflega hentugt að sinna á Vestfjörðum. Þverfaglegur og þverlandfræðilegur starfshópur hefur fært fyrir því ítarleg rök að heppilegt sé að stunda jarðkerfisfræðirannsóknir á Ísafirði, m.a. vegna þess að þar fara saman tiltölulega þróaðir innviðir og mikil nálægð við merkilega hafstrauma. Þá er einhver hvika í samfélaginu sem veldur því að þar hafa þróast tækninýjungar í sjávarútvegi og greinin hefur alla tíð verið snögg upp á lagið að tileinka sér nýjungar, hvort sem þær hafa verið fengnar utan frá eða innan svæðis. Það er rétt hjá sjávarútvegsráðherra að útvegurinn krefst sífellt meiri þekkingar og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Ef að grunnfjárveitingarnar fást verður þetta ekki vandamálið. Þar sem er öflug rannsóknarstarfsemi þangað sækja rannsóknarnemar.

Kennsla stórra hópa á grunnstigi getur verið snúnara mál. Á margan hátt er sjarmerandi sú hugmynd að setja upp breitt almennt grunnnám, einskonar liberal arts college, sem útskrifar nemendur með B.A. próf. Gallinn er sá að upptakasvæði skólans er það lítið að erfitt yrði að ná nauðsynlegri stærðarhagkvæmni. Þá er hætt við vissri einsleitni í nemendahópnum (einhverra hluta vegna minnist enginn á þennan stóra veikleika háskóla landsins). Slíkt mætti þó e.t.v. leysa með nemendaskiptum við erlenda skóla, en sem fyrr er fámennið vandinn, erfitt að halda uppi kúrsum á ensku fyrir svo lítinn hóp og svo framvegis.

Af þessu sökum, og raunar mörgum öðrum, er ég kominn á þá skoðun að mesta vitið sé að setja upp nokkra byggðaháskóla sem geti hver markað sér sitt rannsóknarsvið í tengslum við svæðisbundna styrkleika. En staðið saman að grunnámi þar sem hver skóli miðlar kúrsum í fjarkennslu. Þannig yrði boðið upp á sambland fjarkennslu og staðkennslu á hverjum stað. Byggðaháskólarnir gætu lagt saman aðföng, náð fram stærðarhagkvæmni í kennslu og stoðstarfsemi, komið sameiginlega fram út á við, gætt sameiginlegra hagsmuna og fleira í þeim dúr. Nemendahópurinn yrði fjölbreyttari og eftir því sem fjöldinn ykist yrði hægara að koma á (nauðsynlegum) nemendaskiptum.

Því til viðbótar er það mikið vænlegra til árangurs að leggja fram módel sem geti virkað fyrir helstu byggðakjarna landsins en einungis að bjóða landsmönnum upp á eins svæðis lausn. Hagfræðin kennir að heildin er stærri en summa einstaklinganna. Það á við í þessu máli líka.

Væri ekki tilvalið að gera landsmönnum tilboð um að setja á stofn byggðaháskóla á Vestfjörðum og e.t.v. Austfjörðum, Vestmannaeyjum og Suðurnesjum sem hefðu hver um sig sjálfstæðan fjárhag (til að efla stuðning og þátttöku heimamanna) en stæðu sameiginlega að veitingu prófgráða. Hefðu eitt háskólaleyfi ef svo mætti að orði komast. Þannig væri tekið stórt skref í þá átt að þróa efnahagslíf í nokkrum öflugum byggðakjörnum. Til viðbótar eru svo starfandi Háskólinn á Akureyri, Bifröst, Hólar og Landbúnaðarháskóli Íslands sem ættu að geta þjónað sama hlutverki á Norðurlandi og Vesturlandi ef rétt er að málum staðið.

Háskólinn á Akureyri fær rúmar 1.200 milljónir á fjárlögum 2007. Ef við gæfum okkur að byggðaháskólarnir fengju hver 600 milljónir í ríkisframlag (til viðbótar við sókn í sjóði og tilstyrk atvinnulífs) þá næmi útlagður kostnaður ríkisins 2,4 milljörðum á ári. Nú er bara að fara í fjárlögin og finna niðurskurðartillögur á móti. Margri vitleysunni má fórna til að slá tvær flugur í einu höggi, stórefla háskólastigið og byrja að snúa við öfugu byggðastefnunni sem komst á koppinn án þess að Alþingi ályktaði nokkuð þar um.
Set með frábæra mynd sem þessi evrópski samborgari minn setti inn á vefinn: http://forum.iceland.pl/profile.php?mode=viewprofile&u=283

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.