<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/4016206?origin\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

mánudagur, mars 28, 2005

15:11 -


åØåHef ekkert fram að færa og er auk þess í prófum. Þannig verða einungis birtar blómamyndir að sinni. Þetta er á við norður kóreska sjónvarpsútsendingu á góðum degi. Posted by Hello

|

föstudagur, mars 25, 2005

18:09 -


Eins og sést á myndinni rigndi aðeins í dag. Posted by Hello

|

mánudagur, mars 21, 2005

18:29 -


Vorið kom í síðustu viku og af því tilefni kveiktu húsfélagarnir varðeld úti í garði og síðan var setið við bjór og stuð fram eftir kvöldi. Veðrið er semsagt búið að vera gott sem gerir öll mál að smámálum. Þannig er allt búið að vera á haus af því það eru próf í næstu viku og ritgerðar að komast á eindaga, en svo undarlega sem það hljómar er mikið skemmtilegra að sitja yfir bókunum þegar maður veit af góðu veðri úti en þegar er rigning og kuldi. Posted by Hello

|


18:27 -


Það segir nú ýmislegt um fréttamatið á þessari síðu að ég er himinlifandi því að hafa fundið tvo nýja stórmarkaði í vikunni, í einungis um fimm mínútna hjólafæri frá mér. Þetta eru semsagt Aldi lágvörumarkaður og GB (næstum BG) markaður sem er vörumerki í eigu Carrefour og er u.þ.b. á Hagkaupsmælikvarða. Þessar búðir eru semsagt í nágrannabæ hér í Belgíu sem er í öfuga átt við Maastricht og því hef ég ekki átt neitt erindi þá leiðina. Skemmtilegast við þetta er að þrátt fyrir að maður verði ekki á físískan hátt var við landamæri Belgíu og Hollands að þá virðast þau samt marka nokkur skil í matarmenningunni. Þannig er t.d. hægt að kaupa gourmet spörfugla í kjötborðinu.

Mikilvægast af öllu er samt sjálfsalinn fyrir utan GB sem mér finnst algjört undratæki. Þetta er semsagt stór útstillingargluggi með ýmsum nauðsynjavörum, túrtöppum, brauði, nokkrum tegundum af bjór, 1944 réttum, snakki, og fleiri vörutegundum sem getur verið gott að geta nálgast með stuttum fyrirvara. Þetta þykir mér frelsi sem vit er í - að geta skellt sér á hjólinu og náð í kaldann öllara allan sólarhringinn. Það sem gerir þetta svo öllu póstmódernískara er að á leiðinni til baka gæti maður stoppað og snúið hænu í vegkantinum til að taka með í ofninn - t.d. ef gesti bæri að garði. Posted by Hello

|

laugardagur, mars 12, 2005

17:51 -


Annars finnst mér Brussel sniðug borg, skipulagt kaos þar sem ægir saman alls kyns arkitektúr. Maastricht er á mörkum aðhaldssemi hollenskra mótmælenda og hedónisma frönskumælandi nágrannanna en í Brussel er maður kominn örugglega yfir línuna. Fullt af börum og veitingahúsum og húsvínið á sjoppulegustu kaffihúsum er stórfínt. En á móti kemur að verðlagið þar fellur ekki vel að námslánunum, enda svo mikið af risnuliði sem vinnur þar að það er lítil pressa á mönnum að halda verðlaginu í skefjum.

Að öðru leyti er allt með rólegasta móti. Tvö próf framundan á þriðja og fimmta í páskum. Maður fylgist þá bara með Aldrei fór ég suður á netinu. Veðrið mætti samt vera betra. Hér hefur verið mjög stöðugt vetrarveður síðasta mánuðinn með frosti og þurru veðri en nú hefur skellt á suðlægum áttum með tilfallandi rigningu og roki.

Á þingpöllunum í Brussel. Í þessum sal er víst kosið 6-7 sinnum á ári, en í hverjum mánuði flykkist allt þingliðið til Strassborgar í Frakklandi til að afgreiða mál. Posted by Hello

|


17:49 -


Á miðvikudaginn tók ég þátt í hópferð hagfræðinema til Brussel - kannski ekki rosa stuð en ágætis túr. Heimsóttum semsagt eina af fjölmörgum byggingum framkvæmdastjórnarinnar þar sem við fengum smá innsýn í hvernig er að vinna fyrir EU og síðan heimsóttum við Evrópuþingið eftir hádegi. Ég átti nú von á einhverju meira grand en það sem við sáum voru voða venjulegar skrifstofubyggingar - allt frekar praktískt og hefðbundið. Einhvernvegin bjóst maður við meiri geðveiki - anddyri með átta metra háum styttum í klassískum stíl, gosbrunnum og þannig.

Niðurstaðan úr kynningunni var sú að EU starfsmenn búa við betri kjör en gengur og gerist hjá hinu opinbera í aðildarlöndunum en vinna jafnan lengri vinnudag.

Annað sem er mjög athyglisvert og ástæða til að rýna betur í er að okkur var tjáð að sérfræðingar frá gömlu EU löndunum 15 myndu eiga á brattann að sækja í ráðningum næstu árin meðan væri verið að koma fólki frá nýju löndunum inn í kerfið. Evrópusambandið viðurkennir semsagt að starfsmenn stjórnsýslunnar hafa heilmikil áhrif og því þurfi mönnunin að endurspegla aðildarríkin. Þetta er nú eitthvað sem þyrfti að taka til góðrar umræðu á Íslandi þar sem enginn getur talað um já ráðherra leikinn af því allir eiga svo mikið undir einhverjum embættismannakerfinu.

Hér sjást nokkrir hressir þjóðverjar fyrir utan byggingu Evrópuþingsins í Brussel. Posted by Hello

|

þriðjudagur, mars 08, 2005

20:35 -


Eiður Smári var að skora gegn Barcelona í Meistaradeildinni. Leikurinn rétt byrjaður og okkar maður búinn að skora. Maður var náttúrlega hæstánægður með þetta en sambýlingarnir voru ekki eins hressir því þjálfari Barsa er Hollendingur. Ég kom frekar illa út þegar ég sagði þeim sigri hrósandi að það væri munur að vera með svona pure-bred glókoll í liðinu - rétt í þann mund datt myndavélin á hollenska þjálfarann sem er svertingi. Svona er maður nú á hálum ís þegar kemur að fótbolta.

Stórskemmtilegur siður hjá Hollendingum að þeir tala oft saman í búðum. Svosem gerir maður það heima líka þegar maður hittir einhvern sem maður þekkir en nú hef ég lent í því með stuttu millibili að fólk fer að spjalla við mig yfir matarhillunum. ”Ferlega eru orðnir dýrir kjúklingarnir.” ”Já ég er bara orðinn svo leiður á svínakjöti.” ”En hefurðu prufað sojabuff?“ Maður þarf að demba sér í hollenskuna til að verða almennilega samræðuhæfur í búðinni.

Í fyrramálið heldur hagstúdentafélagið til Brussel til að skoða Evróstofnanir. Förum m.a. í heimsókn í Evrópuþingið sem er skralltómt þessa dagana þar sem þingmennirnir eru allir í Strassborg að kjósa. Það væri nú fyndið ef Alþingi íslendingar þyrfti að fara til Egilsstaða viku í hverjum mánuði til að kjósa - nú eða Ísafjarðar.

Talandi um Egilsstaði og Ísafjörð þá er ég að ganga af göflunum yfir umræðum um flugvallarmálið. Upp úr þessu er sennilega best að reyna að birgja pirringinn inni - þetta er orðið allt of mikið til að fara á prent. Til að bæta gráu ofan á svart er farið að örla á því að umræðan er á köflum að orðin frekar yfirveguð, sem setur mann endanlega úr jafnvægi.

Keypti Habanero-chili á tilboði í dag og prufaði í kvöldmatartímanum. Eftir á að hyggja rámar mig í hrakfallasögur sem Kiddý sagði af chili-innkaupum í Mexíkó. Þessir eru semsagt eins og litlar krumpaðar paprikur og mann svíður í nefið bara við að standa yfir pönnunni, þvílíkar eiturgufur sem þetta gefur frá sér. En samkvæmt traustum lífsstílsritum er chili allra meina bót. Þræl grennandi. Maður verður saddur fyrr og svo hraðar hann efnaskiptunum. Hafið þið einhverntíman séð feitan Tælending?

Fyrir u.þ.b. þremur vikum ákváðu kaffihúsaeigendur í bænum að draga fram útiborðin. Síðan hefur verið stanslaus snjókoma. Núna sér þó fyrir endann á þeim kafla. Mér finnst fólk hérna sýna ótrúlega víkingslund þegar það hangir þrældúðað úti undir gaslampa til að drekka bjórinn sinn utandyra - spurning hvort menn eru að reyna venja sig á þetta ef ske kynni að reykingabannið yrði tekið upp í Hollandi? Posted by Hello

|

fimmtudagur, mars 03, 2005

19:11 -


Má til með að benda á þrælgóðan pistil Eiríks Norðdahl um tilvistarkrísu höfuðborgarsvæðisins. Ég get engu við þetta bætt en finnst pælingin stórsnjöll.

***

Af annarri menningu, þá finnst mér magnað hvað tilveran hérna í hollensku Limburgh er tímalaus. Stundum er erfitt að merkja hvort maður er núna eða fyrir tuttugu árum. Hérna virðist enginn sérstaklega smeykur við að missa af nútímanum. T.d. birtist þetta í klæðnaði fólks sem einkennist af afskaplega miklu tískulegu frelsi. Þannig sér maður stundum hópa fólks sem minna einna helst á leikara í períóduverki um lífið þegar við vorum í gaggó. Lituðum gallabuxum og támjóum svörtum leðurskóm bregður fyrir. Og þið getið þá rétt ímyndað ykkur hvort Dressmann frá Noregi sé ekki fyllilega viðurkenndur klæðaburður.

Landsins lýð virðist ekki sérstakur akkur í því að vera með allt það nýjasta á hreinu. Þessa verður greinilega vart hjá sambýlingunum sem allir eru háskólastúdentar (held m.a.s. að ég sé sá elsti í húsinu), t.d. í matartímum. Ég tel mig nú ekki sérstaklega snobbaðan gagnvart nýjustu straumum í matargerð og heldur hallann undir retrófæði (sbr. snitselið og rúllutertubrauðin) en maður er að sulla í pönnusteiktu grænmeti og hraðlöguðum kjúklingi meðan hollensku krakkarnir eru að útbúa besta togarafæði. Alls kyns bras, ýmis kjötfarstilbrigði, bjúgu, fullt af djúpsteiktu stöffi með úrvali af majónessósum og margt fleira sem var á hröðu undanhaldi heima á Íslandi fyrir 10-15 árum og flestir eru löngu búnir að gleyma í dag.

Þessu átti maður ekki von á. Þannig rak mig í rogastans fyrir stuttu þegar ljóshærð mjóna (algjör pía) sem býr hérna og er í hjúkrunarfræðinámi var að bralla steikt slátur! Þetta var semsagt alveg eins og íslensk blóðmör nema örlítið stærri pylsa og mörinn var heldur reglulegar skorinn en maður á að venjast - lyktin stemmdi 100%. Hún sagðist borða blóðpylsu annað slagið en kvartaði yfir því að hana væri ekki að fá í öllum búðum.

Að sama skapi kom á óvart þegar ég fann lykt af soðnum fiski liðast inn um skráargatið nú seinnipartinn. Þegar ég kom fram voru þeir Brahm og Henry að gæða sér á soðnum þorski með kartöflum og gulrótum og grænum baunum úr dós. Ég skellti mér á hakkabuff þeim til samlætis. Posted by Hello

|

miðvikudagur, mars 02, 2005

22:11 -


Sótti hjólið úr yfirhalningu í dag. Þetta er svo mikill bissness hérna að mér finnst eins og ég eigi bíl - maður fær sektir og fer á verkstæði. En plottið er semsagt það að innifalið í að kaupa hjólið er þessi þjónusta. Nú fúnkerar það líka sem aldrei fyrr, líklega hef ég sett persónulegt tímamet á leiðinni heim í dag.

Í gærkvöldi fór ég á fyrirlestur hjá prófessor Muysken en hann hefur unnið að ritgerðum í samstarfi við ástralskan kollega sinn sem eru vægast krítískar á evrópska efnahagsstefnu og það fá allir sína sneið. Seðlabanki Evrópu og ”one size fits all” peningastefna sem fylgir Evrunni eru þar ofarlega á blaði en ekki síst gagnrýna þeir svokallaðan stöðugleika- og vaxtarsáttmála sem ríkisstjórnir Evrulandanna þurfa að undirgangast og takmarkar sveigjanleika þeirra í ríkisfjármálum. Þannig er búið að binda báðar hendur þessara ríkja sem hafa gefið frá sér bæði sjálfstæða peningastefnu og ríkisfjármál.

Þannig er niðurstaða þeirra að ofuráhersla Evruríkjanna á lága verðbólgu og stöðug ríkisfjármal (skv. Frankfurt-Brussel consensus) sé fáránleg þegar atvinnuleysi er mikið, viðvarandi og vaxandi. Að halda verðbólgu lágri og ríkisfjármálum stöðugum sé í raun svarið við vitlausri spurningu.

Þetta voru ansi skemmtilegar pælingar hjá honum en mér finnst samt sem áður eins og menn skauti í kringum að ræða huggulegan strúktúr og stífni vinnumarkaðarins. Þannig eru mörg þýsk fyrirtæki nánast hætt að ráða launamenn af því skyldurnar sem fylgja þeim eru svo miklar og nánast ómögulegt að fækka starfsfólki aftur. Þeir sem komu sér ekki inn í hlýjuna meðan allt lék í lyndi mega sætta sig við að vinna sem verktakar og síðan þegar þeir missa djobbið þá bíður enginn atvinnuleysisbótatékki. Þannig hefur þýskum verkalýðsfélögum tekist aldeilis vel að hugsa um innherjana á kostnað þeirra sem fá ekki vinnu eða eru utan við huggulegheit launamennskunnar. Í praxís þýðir þetta að starfsöryggi eldri kynslóðarinnar er greitt af þeim yngri sem oft fá enga vinnu.

Í morgun kom svo í fréttunum að atvinnuleysi í Þýskalandi mældist 12,6% sem er met í samtímanum og hefur ástandið ekki verið eins slæmt síðan á dögum Weimar-lýðveldisins í heimskreppunni. Á móti kemur að Evrópumenn spara 11% tekna sinna meðan sparnaður Bandaríkjamanna er 1%. Þetta er vítahringur ef fólki væri ekki svona hrætt um efnahagsástandið myndi það eyða meiru og atvinnuástandið myndi snarbatna, en það liggja allir á peningunum því ef þú missir vinnuna er vissara að hafa borð fyrir báru. Það getur tekið ansi lengi að komast í vinnu aftur þegar atvinnuleysið er 12,6% en laus störf á vinnumarkaðinum telja aðeins 2%.

Mér finnst ágætt að skella með mynd af þessu fallega torgi hér í Maastricht þar sem hver stjarna táknar eitt hinna 25 ríkja Evrópusambandsins. Maður hlýtur að binda vonir við að nýju ríkin, sem hafa gengið í gegnum umbreytingar á sínum efnahag sem hafa verið allt annað en þægilegar, segi nú gömlu Evrópu til syndanna svo menn drattist til að taka á óþægilegu málunum. Posted by Hello

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.