<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d-3586845363492521829', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

fimmtudagur, janúar 27, 2005

14:03 -


Berlínarbúgí!

Um næstu helgi ætla ég að skella mér til Berlínar með þeim Kati og Claudiu. Stefan kærasti Claudia býr þar og við ætlum að krassa hjá honum. Þetta verður örugglega athyglisvert, Stefan er m.a. einn af þessum Þjóðverjum sem hafa klikkaðar hugmyndir um allt norrænt og kann Nóa Albínóa næstum því utan af. Síðan á hann örugglega svipað áhugasama vini sem fara að rekja úr manni garnirnar um Snorra Eddu og allt hitt sem maður veit ekki. Nú væri vel þegið að fá krass kúrs í norrænum fornbókmenntum og goðafræði - Elín þú kannski lumar til mín einhverjum traustum frösum á tölvupóstinum.

Í ákvarðanatökuferlinu fyrir ferðina kom fram skýr menningarmunur á Íslendingum og Þjóðverjum. Eins og flestar góðar hugmyndir kom hún upp yfir glasi og náttúrlega sagði ég bara já já og ekkert mál, ég myndi skella mér með þeim til Moskvu þess vegna. Að sjálfsögðu reiknaði ég aldrei með að þurfa að standa við þetta frekar en aðrar góðar hugmyndir sem maður tekur þátt í að fá heima í sófastólnum. Þjóðverjar virðast hinsvegar ekki fyrna svona hugmyndir í þynnkunni sem getur verið ókostur. Kosturinn er hins vegar sá að þjóðin er svo ástríðufullt sparsöm að stelpunum tókst eftir krókaleiðum sem einungis innfæddir þekkja að redda okkur miðum með Deutsche Bahn, fram og til baka, fyrir 30 evrur.

Ég hef aldrei komið til Berlínar og er ferlega spenntur. Bruno Gmunder ferlaag er með bækistöðvar þar svo e.t.v. kynnir maður sér ævistarf Johans Paulik eða Lúkasar. Nema maður lendi á góðri leddaraútsölu og geri reyfarakaup.

Eins og alþjóð(heimur) veit eru Íslendingar mjög krítískir í borgarsnobbi og þar þykir Berlín mjög fín. New York er náttúrlega úniversalt númer eitt og London rankar hátt en síðan er það soldið spurning um hvaða kreðs þú spyrð hvar í röðinni Berlín endar. Þýskum vinum mínum finnst t.d. alls ekki sérstaklega mikið til hennar koma, líta á hana frekar sem sögusafn kryddað með flottum nútímaarkitektúr og stórri bóhemahreyfingu. Vestur-Þjóðverjar með sjálfsvirðingu skammast sín niður í tær fyrir það efnahagslega flopp sem borgin er - en hvaða vit hafa þeir svosem á alþjóðlegu borgarsnobbi?

Annars er farið að lykta af því að London sé að missa flugið. Borgin er að verða svo kommon, annar hver Íslendingur hefur búið þar lengri og skemmri tíma, og endalaust mikið af liði hangir þar í helgarferðum. Bráðum verður London orðin Kaupmannahöfn 2. Ef maður vill vera á undan í tískunni hlýtur því að vera málið að flytja til New York.

Eins og sjá má er ennþá snjór hérna, fólkinu hérna finnst mjög skrýtið að á sama tíma sé 7 stiga hiti á Íslandi. Posted by Hello

|

mánudagur, janúar 24, 2005

22:36 -


Fór í gönguferð seinnipartinn í gær til hressingar yfir lestrinum. Labbaði bara um nágrennið og komst að ýmsu sniðugu. Fyrir vissi ég að dýrahald væri nokkuð útbreitt í hverfinu, enda hafði ég séð strúta og hesta í sumar. Nú sá ég fleiri hesta og hæns, en einhver vanstilltur hani hefur verið að góla kl. 4 hverja nótt að undanförnu. Síðast en ekki síst sá ég nokkur dádýr í húsgarði skammt frá húsinu mínum - ég hélt ég yrði ekki eldri, Bambi og félagar bara hérna í götunni. Þessi bæjarkjarni hérna er alveg þrælskondinn, einskonar samblanda af úthverfi og sveit en býður samt upp á ekta tyrkneska kebab-búllu, vínbúð, bensínstöð, kjörbúð, skóbúð og nokkra pöbba svo reynt sé að gefa hugmynd um menningarstigið. Það er einfaldlega búið að blanda öllu saman, gömlum býlum, nútímalegum einbýlishúsum og náttúrlega dæmigerðum múrsteinahúsum.

Bambi og félagar. Posted by Hello

|


22:34 -


Einhverra hluta vegna virðist svona mósaík hafa meira næringargildi fyrir sálina en reglustikuhverfin þar sem allt er fullkomið. Þegar maður sér að þetta er ekki bara viðurkennt hér í hjarta Evrópu, heldur þykir bara ákjósanlegasta byggingarstæði fyrir pjattleg einbýlishús með verðlaunagörðum þá þykir manni úrbaníseringarraddirnar sem heyrast stundum heima á Ísafirði algjörlega fáránlegar. Öll dýr langt út fyrir bæjarmörkin, helst að fjarlægja innsetningarnar hans Einars Halldórs o.sv.frv. Það er frábært að búa í lifandi umhverfi en sjálfsagt að taka frá nokkrar götur og hafa dauðhreinsaðar fyrir þá sem vilja.

Hérna fer vafalítið eitthvað kreatíft fram. Posted by Hello

|


22:08 -


Má til með að benda á þessa eitursnöllu færslu Eiríks Norðdahl um fáránleika dægurtilverunnar. Svei mér þá, ég veit ekki hvort maður á að fara fram og æla eða lifa sig inn í samtíðarlýsinguna sem hefði einhverntíman þótt vísindaskáldskapur.

Posted by Hello

|

laugardagur, janúar 22, 2005

23:20 -


Áframhaldandi samtíðarpirringur

Fyrstu vikum nýja ársins vill fylgja frekar innhverf stemmning, verið að planleggja árið, grúska í lífsstílsmarkmiðum og skoða hvaða tækifæri eru í boði. Veðrið hvort eð er frekar leiðinlegt og allir vel birgir af mannlegu samneyti eftir jólin svo það er ekki mikill pressa á manni að æða út á meðal fólks. Reyndar fór ég í bíó með Kati þýsku í gær en hef haldið mig heimavið í dag. Eftir stórmarkaðsferð var kveikt á eldavélinni og hafist handa við spaghettí Bolognese, sem eins og allir vita, verður hvorki fugl né fiskur nema sósan fái a.m.k. 1-2 dl. af rauðvíni. Fyrir valinu varð spænskt tveggja evru vín, alveg snilldarlegt, og þar sem ég var að sulla í víninu og saxa hvítlauk helltist yfir mig þessi líka frábæra nostalgíustemmning. Þannig er að maður komst fyrst upp á lagið með rauðvínsdrykkju í þriðja bekkjar ferðalaginu á Benidorm fyrir tæpum níu árum, þar sem einmitt svona spænsk stórmarkaðarauðvín var brúkað sem oftast.

Í þessu eins og öðru virðist sígilt markaðsfræðiprinsipp þeirra Al Ries og Jack Trout, ?It?s better to be first than better?, eiga svo vel. Einhvernvegin er fyrsta reynsla manna af alls kyns atburðum og upplifunum oft ákaflega minnisstæð. Þannig mynda t.d. spænsk hversdagsvín algeran núllpunkt í mínum vínsmekk (sem ég hef því miður ekki lagt mikla rækt við enda þrekvirki í neyslustýringaralræðinu á Íslandi) og að drekka þau með Miðjarðarhafsmáltíð er í mínum huga einn af hápunktum matarástarlífsins. Sólarlandastemmarinn stendur hjarta mínu t.d. mikið nær en hörpudiskur í lakkrísseyði sem ég smakkaði einu sinni með einhverju ægilega spennandi nýtísku víni með moldarbragði sem vínþjónninn mælti með.

Þriðja bekkjar ferðirnar hafa náttúrlega verið stórkostlegar lífsreynsluferðir og margir hafa í kjölfarið sest sáttir í dannað fjölskyldulíf og yljað sér við ljúfar minningar liðinna gjálífisdaga.

En jafn hratt og siðgæðispostular og móðursýkisúthróparar hafa brennt sig í gegnum menningarlíf okkar síðustu árin, stendur víglínan nú við þriðjabekkjar ferðirnar og sé ég ekki annað fyrir mér en þær verði aflagðar innan fárra ára, verði ekki breyting á viðhorfsþróun síðustu ára. Mér finnst eins og þegar við vorum í menntó hafi verið viðurkennt að fólk yrði fullorðið smám saman í skrykkjóttum stökkum og það væri eðlilegur gangur lífsins að fólk myndi tileinka sér að ríða og drekka, og ekkert sérstakt felu- eða feimnismál, þó að sjálfsögðu væri ekki óskað eftir sérstaklega miklum expressjónisma í þessum efnum. Að sjálfsögðu átti þetta hefðbundna æðrulausa viðhorf undir högg að sækja þá, t.d. voru víst ýmsir á Ísafirði (sem ég hef ekki ennþá komist að hverjir voru) sem ötuðust mikið í skólameistara vegna Skrallsins sem síðar þurfti að láta undan. Þá hafði ríkt sátt um fyrirkomulag unglingsáranna meira og minna síðan við sigldum frá Noregi svo ég ætla að þorri almennings hafi ekki stressað sig mikið á því.

Síðan kom það í ljós að keðjan rofnaði og við reyndumst vera síðasta kynslóð Íslendinga sem stundaði viðurkennda unglingadrykkju. Hún skal höfð í felum héðan af, Skrallið er bannað og skólameistari tók æðiskast yfir bjórdósum sem fóru í óvissuferð í haust eins og frægt er orðið. Þó skólameistari MÍ sé hér nefndur sem dæmi þá hefur hann í sjálfu sér enga þýðingu í þessu samhengi, því hér er um heimshreyfingu að ræða. Við erum einfaldlega að láta hræða okkur til ný-íhaldssemi (afturhaldssemi væri nær fyrir þetta pakk) eins og aðrir vesturlandabúar, það eru mismunandi hræðslupyttir eftir löndum og mismunandi ?duck and cover? æfingar til að takast á við hræðsluna. Í Bandaríkjunum eru það m.a. hryðjuverkamenn, í Evrópu útlendingar og á Íslandi eru það fíkniefni, því eins og við vitum öll þá geta minnstu frávik frá ráðleggingum sjálfskipaðra sérfræðinga í uppeldismálum leitt börn beinustu leið í eiturlyfjaneyslu. Frjálslyndi er að sjálfsögðu algjört tabú og ráðlagt að fólk láti opinbera starfsmenn höndla börnin sín sem allra mest til að forðast hugsanlegan sálarháska.

E.t.v. er þetta hysteríukast löngu gengið í öðrum löndum og allir orðnir samdauna því, en fyrir okkur er þetta frekar nýstárlegt því ég held að Vestfirðirnir hafi verið síðast hornið á landinu þar sem hefðbundinn íslenskur rationalismi var kveðinn niður og við tók úthverfasiðfræði. Allt í einu hættu félagsmiðstöðvar og íþróttafélög að vera vettvangur tómstunda og tóku að sér það lykilhlutverk að forða börnum frá glötun.

Andsvar mitt við þessu kann að þykja undarlegt í ljósi þess að ég hef að ýmsa mati getið mér gott orð í helvíti með hommalíferni en óðagotið helgast af því að vesturlandabúar hafa tapað kristninni. Þar er kennt æðruleysi og trú á manninn, allt á sér stund og stað, og ástæðulaust að hlaupa upp til handa og fóta út af sjálfskipuðum spámönnum. Kristin trú var siðfræðilegur grundvöllur vestrænna samfélaga um árhundruð en þegar almenningur varð bjargálna gaf hann þetta veganesti síðustu þúsund ára upp á bátinn og heimilaði ofstækismönnum að skáka í skjóli heimspekilegs grundvallar samfélagsins.

Það er löngu búið að tækla þetta með dópið, og þarf ekki Opruh, Þorgrím Þráinsson, Dr. Phil eða Vávest hópinn til að leiðbeina okkur. Heimurinn hefur alltaf verið stútfullur af hættum og freistingum og á endanum berum við ein ábyrgð á því að reka okkar líf skynsamlega. Kristi var freistað í eyðimörkinni, hann stóðst freistingarnar og varð meiri maður á eftir. Það datt engum í hug að banna honum að fara, eða senda hann í fylgd með fullorðnum eða með forvarnarfulltrúa með sér. Hann bara óð í þetta. Og þó svo hann hefði misstigið sig þá hefði honum örugglega verið eftirlátið að læra af mistökunum. Ég efast um að það hefði verið kallað til fundar með forráðamönnum og félagsvísindalesnum sérfræðingum.

Blessuðu fólkinu er auðvitað vorkun, þegar mannlegir harmleikir eru annars vegar þá reynir maður náttúrlega að teygja sig eftir öllum haldreipum sem bjóðast. Og mín vegna er fólki frjálst að tapa sér í móðursýki, rétt eins og spíritisma, Herbalife eða hverju öðru. Ég óttast bara að við séum rétt að byrja og ofstækismennirnir eigi eftir að stökkva á óttann, nærast á honum og kynda undir. Hvar verðum við eftir tíu ár? Verður afhommun normið, verður Krossinn viðurkennd stofnun í meginstraumi þjóðmálaumræðunnar (Frammararnir eru víst þegar farnir að sækja fylgi í þessa söfnuði), verður farið að bjóða ungmennum upp á skírlífishringa eins og í Bandaríkjum Bush (þar er farið að kenna fyrir reikning ríkisins að skírlífi sé eina getnaðarvörnin sem eigi að nota), verða opinberir starfsmenn með próf í félagsvísindum farnir að ryðjast inn á íslensk heimili í fyrirvaralausar uppeldiskannanir, verður farið að líta á börn sem nenna ekki að starfa í íþróttafélögum eða félagsmiðstöðvum sem alvarleg frávik og gefa þeim lyf til að stuðla að félagslegri samvirkni? Hvenær verður farið að taka fyrir að miðaldra viðmælendur í BB-viðtölum segir roggnir frá mannraunum bernskunnar í Dokkunni af ótta við að það spilli komandi kynslóðum?

Kannski finnst einhverjum þetta öfgakennt en með svo bremsulausa taugaveiklun og fullkominn skort á jarðtengingu eins og einkennir umræðuna í samfélaginu í dag, þá er ástæða til að óttast framtíðina ef þjóðleg skynsemi, æðruleysi og yfirvegun verða ekki hafin til vegs og virðingar á ný.


Á meðfylgjandi mynd er horft ölvuðum augum á Túngötuna á Ísafirði sem er prýdd sínu fegursta jólaskarti. Posted by Hello

|

föstudagur, janúar 21, 2005

15:45 -


Janúarslen

Hér er allt með frekar kyrrum kjörum og hálfgert janúarslen á fólki. Þannig hefur heimilislífið verið með rólegra móti, Henri er t.d. búinn að vera á náttsloppnum tvo daga í röð. Það hefur þó ekki aftrað honum frá því að taka veðrið, eins og hann gerir jafnan samviskusamlega, og er niðurstaðan sú að það gæti snjóað um helgina. Núna er einhver veðurleysa, hálfskýjað 5-6 gráður og gjóla. Veðurlega séð var síðast vika frekar leiðinleg, hitastigið hefur sveiflast hratt og gengið illa að finna rétta klæðaburðinn. Í byrjun vikunnar kólnaði snögglega og loksins þegar maður kominn í þykka ullarpeysu skellti á suðvestan roki með hlýindum í gær svo ég hélt ég myndi soðna á hjólinu á leiðinni heim á móti vindi.

Annars er skólaárið svo sálfræðilega bestað hjá Hollendingunum að það er frekar rólegt yfir öllum prógrömmum þessa dagana svo fólk geti jafnað sig á jólunum í rólegheitum. Þeir trúa því hins vegar staðfastlega að hálfnað verk sé þá hafið er og því er verið að nota þessa viku og næsta til að finna ritgerðarefni fyrir vorið. Við þurfum semsagt að finna ritgerðarleiðbeinanda í næstu viku og fá tillögu að efni samþykkta fyrir lok vikunnar. Eins og venjulega er mainstreamið ekkert spennandi og grúskið hefur leitt mann út á jaðarinn, hérna er vestfirska elementið á fullu. Núna er ég soldið spenntur fyrir endurtaka rannsókn sem breskir og kanadískir fjármálaspekúlantar gerðu á lengd dagsins og ávöxtun á hlutabréfamörkuðum. Á mörkuðunum er að finna mörk frávik frá hugmyndinni um Random walk og m.a. árstíðasveiflur. Hagfræðingar og sálfræðingar hafa leitt saman hesta sína og sýnt fram á að því geðlægra sem fólk sé því áhættufælnara verði það. Síðan hefur með tölfræðilegum aðferðum verið sýnt fram á tengsl milli lengdar dagsins og ávöxtunar markaða. Þessu hefur svo verið smellt saman í svokallaðan SAD (seasonal affective disorder) effect eða skammdegisþunglyndis effekt.

Það lá reyndar við að Dr. van Veen sem fer fyrir prógramminu okkar afkrullaðist þegar ég minntist á þetta við hann, en ég á eftir að skoða málið og ræða það betur við hann. Málið er að menn eru soldið viðkvæmir því að í kjölfara framfara í tölvutækni og tölfræði á áttunda og níunda áratuginum sýndu menn fram á allskonar vensl óskyldra fyrirbæra sem síðar reyndust ekki halda vatni. Þannig var t.d. marktækt tölfræðilegt samband milli ávöxtunar hlutabréfa í Bandaríkjunum og hvaða lið vann Super Bowl.

Hugmyndin er allaveg að taka einhvern markaðsbrest fyrir og skoða, það er fullt af áhugaverðum kenningum sem hafa verið að líta dagsins ljós síðustu ár því margir hafa sætt sig við að markaðirnir eru ekki yfirmannleg (eða ofurmannleg) fyrirbæri eins og klassíkerarnir gengu út frá heldur summa ákvarðana manna af holdi og blóði.

Á meðfylgjandi mynd er horft yfir hið forna verslunarstæði í Hæstakaupstað á Ísafirði. Posted by Hello

|

miðvikudagur, janúar 19, 2005

22:41 -


Sem betur fer rúllar skólinn fremur hægt af stað að þessu sinni enda er ég ennþá ferlega jólaslappur og kem litlu í verk. Núna er semsagt svona tveggja vikna stuttönn þar sem við eigum að þróa ritgerðarhugmynd til að vinna að. Síðan ég kom hefur ekki mikið gerst hvorki í einka- né skólalífi, sem hlýtur nú bara að vera eðlilegt m.v. árstíma, a.m.k. er ég með lærða grein fyrir framan mig þar sem lengd dagsins er sögð skýra árstíðasveiflur í ávöxtun hlutabréfa - er m.a.s. að spá í að taka þetta fyrir í mastersritgerðinni. Efnið er óneitanlega ?hæfilega væld en samt þannig að snyrtimennskan sé ennþá í fyrirrúmi?.

Skrýtið samt að mér fannst meiri kraftur í manni á Íslandi, það er eins og maður hafi allur linast við að koma á meginlandið þó dagurinn sé lengri hér og ekkert vetrarveður að heitið geti. Maður saknar náttúrlega nálægðarinnar við fjöllin og að finna ekki kraftbirtingarhljóm guðdómsins. ?Ég stend á skýi, í algleymi.?


Á meðfylgjandi mynd sést hundslappadrífa í útlöndum. Posted by Hello

|


22:38 -


Á leiðinni út gisti ég nokkrar nætur hjá Sigga Gunnars á Njarðargötunni og fékk stöðuna á menningarsambandi Íslands og Albaníu. Eins og allir vita er hann prímus mótor samtakanna Sagnfræðingar á landamæra, en hann er einmitt væntanlegur á meginlandið í byrjun febrúar og þá verður tekið gott tjútt.


Á meðfylgjandi mynd sjást Kiddý og Siggi í góðum gír í túristabúðinni Bankastræti þar sem Kiddý ræður nú ríkjum. Posted by Hello

|


22:37 -


Ferðin út gekk bara nokkuð vel, óvenju margir Íslendingar í flugvélinni sem gerði barsöluna óvenju góða hjá flugfreyjunum. M.a. voru þrjár systur á miðjum aldri sem sátu fyrir framan mig alveg að fara á kostum. Sú í miðjusætinu var svo full að hinar tvær þurftu að styðja hana út þegar við komum til London. Góðar! Mér fannst þetta frábær flugferð, í þessum teprulega samtíma er gott að vita að gamaldags íslensk léttúðugheit eru ennþá til. Það er algjör nostalgía að fara í flugvél og vera samferða feitum köllum í leður og tweedjökkum sem drekka viskí á leiðinni. Verst að á síðustu árum eru flugvélar orðnar svo hljóðlátar að fyllerísröflið skilst hæglega í nærliggjandi sætaröðum. Ég vil fá flugfélag sem rekur B-727 eða álíka gamla jálka og leyfir reykingar um borð. Svona retróflug.

Þrátt fyrir að hafa hlaupið út úr flugvélinni á Stanstead dugði tíminn ekki til að ná Ryanair til Eindhoven, svo það er fullreynt 90 mínútur duga ekki til vélaskipta, a.m.k. ekki þegar fyrra fluginu seinkar um korter. Hafi einhverjir heyrt raunarekstur minn um kerfiskallana á Schiphool í Amsterdam fyrir jólin þá var allt önnur og liprari stemmning hjá fólkinu á Stanstead - Tjallinn er fínn sko! Þannig fannst snarlega sæti fyrir mig með hollenska flugfélaginu Transavia til Rotterdam, sem fór í loftið einum og hálfum tíma síðar.

Dæmisaga segir að þegar ESB boðar til fundar kl. 9 þá mæti Þjóðverjarnir á slaginu en Hollendingarnir kl. 8:40. Þetta er ekki fjarri lagi því þegar ég mætti um borð korter fyrir brottför, leit öll flugvélin upp og horfði á mig eins og félagslegt viðundur, eins og ég hefð mætt í óperuna korteri of seint í kanínubúningi. Fimm mínútum seinna vorum við lögð af stað og síðan sýndu þær hollensku snilldartakta þegar þær hlupu með barvagninn eftir vélinni og náðu afgreiða 150 manns í 35 mínútna löngu flugi. Enda voru allir með á nótunum, tilbúnir með rétta skiptimynt. En einkennisbúningarnir, dísús kræst, sægræn hörmungarhönnun sem var hafnað í eightísinu, svona flugfélag fengi aldrei flugrekstrarleifi á Íslandi.


Meðfylgjandi mynd var tekin út um gluggann á flugstöð Leifs Eiríkssonar. Reykjanesið skartaði sínu fegursta að vanda. Ég er viss um að Múrmenskingar tárast við að líta á þessa mynd. Posted by Hello

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.