Janúarslen
Hér er allt með frekar kyrrum kjörum og hálfgert janúarslen á fólki. Þannig hefur heimilislífið verið með rólegra móti, Henri er t.d. búinn að vera á náttsloppnum tvo daga í röð. Það hefur þó ekki aftrað honum frá því að taka veðrið, eins og hann gerir jafnan samviskusamlega, og er niðurstaðan sú að það gæti snjóað um helgina. Núna er einhver veðurleysa, hálfskýjað 5-6 gráður og gjóla. Veðurlega séð var síðast vika frekar leiðinleg, hitastigið hefur sveiflast hratt og gengið illa að finna rétta klæðaburðinn. Í byrjun vikunnar kólnaði snögglega og loksins þegar maður kominn í þykka ullarpeysu skellti á suðvestan roki með hlýindum í gær svo ég hélt ég myndi soðna á hjólinu á leiðinni heim á móti vindi.
Annars er skólaárið svo sálfræðilega bestað hjá Hollendingunum að það er frekar rólegt yfir öllum prógrömmum þessa dagana svo fólk geti jafnað sig á jólunum í rólegheitum. Þeir trúa því hins vegar staðfastlega að hálfnað verk sé þá hafið er og því er verið að nota þessa viku og næsta til að finna ritgerðarefni fyrir vorið. Við þurfum semsagt að finna ritgerðarleiðbeinanda í næstu viku og fá tillögu að efni samþykkta fyrir lok vikunnar. Eins og venjulega er mainstreamið ekkert spennandi og grúskið hefur leitt mann út á jaðarinn, hérna er vestfirska elementið á fullu. Núna er ég soldið spenntur fyrir endurtaka rannsókn sem breskir og kanadískir fjármálaspekúlantar gerðu á lengd dagsins og ávöxtun á hlutabréfamörkuðum. Á mörkuðunum er að finna mörk frávik frá hugmyndinni um Random walk og m.a. árstíðasveiflur. Hagfræðingar og sálfræðingar hafa leitt saman hesta sína og sýnt fram á að því geðlægra sem fólk sé því áhættufælnara verði það. Síðan hefur með tölfræðilegum aðferðum verið sýnt fram á tengsl milli lengdar dagsins og ávöxtunar markaða. Þessu hefur svo verið smellt saman í svokallaðan SAD (seasonal affective disorder) effect eða skammdegisþunglyndis effekt.
Það lá reyndar við að Dr. van Veen sem fer fyrir prógramminu okkar afkrullaðist þegar ég minntist á þetta við hann, en ég á eftir að skoða málið og ræða það betur við hann. Málið er að menn eru soldið viðkvæmir því að í kjölfara framfara í tölvutækni og tölfræði á áttunda og níunda áratuginum sýndu menn fram á allskonar vensl óskyldra fyrirbæra sem síðar reyndust ekki halda vatni. Þannig var t.d. marktækt tölfræðilegt samband milli ávöxtunar hlutabréfa í Bandaríkjunum og hvaða lið vann Super Bowl.
Hugmyndin er allaveg að taka einhvern markaðsbrest fyrir og skoða, það er fullt af áhugaverðum kenningum sem hafa verið að líta dagsins ljós síðustu ár því margir hafa sætt sig við að markaðirnir eru ekki yfirmannleg (eða ofurmannleg) fyrirbæri eins og klassíkerarnir gengu út frá heldur summa ákvarðana manna af holdi og blóði.
Á meðfylgjandi mynd er horft yfir hið forna verslunarstæði í Hæstakaupstað á Ísafirði.
said...
Ætli þú getir þá tengt fjörið í hlutabréfamarkaðnum heima á Fróni við mikla notkun geðdeyfðarlyfja Íslendinga?
Hilsen
Sigga
Kristinn said...
Þú ert snillingur Sigga, það væri náttúrlega snilld að útvíkka þessa stúdíu m.t.t. Prozak áts. Kannski fær maður bara Actavis til að sponsa þetta, mér skilst að frumkvöðlavirkni sé með minnsta móti í Finnlandi, e.t.v. þurfa þeir að taka lyfjabevísunakerfið hjá sér til endurskoðunar...
Kristjan said...
Er ekki hægt að troða Hayek inn í þetta?