Fór vestur um helgina og hafði það afskaplega náðugt. Gerði ekki neitt nema hanga með fjölskyldunni, borða og spjalla. Ætlaði að koma meiru í verk en datt svo bara alveg í slökunargírinn. Elduðum hreindýr og næs.
Við Hilmar fórum á Bond í kvöld, alger snilld!
Kiddý og Tóti, til hamingju með litla kút sem fæddist 25. nóvember. Nú er einum bogamanninum betra. Og koma svo með alveg dúndrandi þjóðlegt nafn, Egil Skallagrím eða álíka..
Og Eiríkur, til hamingju með nýju bókina. Síðasta var fín svo ég ætla að lesa þessa.
Hlóð niður Sufjan Stevens samkvæmt meðmælum Kristjáns Freys. Snilldarmúsík, ferskari en spínat.
Hitti Þórarinn Ólafsson í ríkinu fyrir vestan. Við tókum ekki fyrir umræðuna um innflytjendamálin en vorum staðráðnir í að gera það í góðu tómi.
Eiríkur var líka búinn að afgreiða þetta, í bili a.m.k, af sinni alkunnu snilld.
Eiki pantaði líka álit á frétt á bb.is um að Halldór Halldórsson hefði verið að opna skrifstofu Landssambands sveitarfélaga í Brussel.
Auðvitað er það þannig með hvers kyns utanríkisþjónustu að það orkar mjög tvímælis hvenær hún skilar einhverjum ávinningi og hvenær hún er bara spjall. Þannig verður það líka með þennan kontór, vafalítið mjög erfitt að festa hendur á því hvort þetta er að skila einhverju. Ég ímynda mér að þess eini starfsmaður eigi fyrst og fremst að safna upplýsingum og þekkingu á Evrópumálum. Og menn hafi fyrst og fremst áhuga ýmsum styrkjasjóðum sem við getum nýtt í dag og stuðningskerfinu sem við gætum fengið aðgang að. Svo er það líka sígilt bragð lobbíista er að segja að hitt og þetta sé á leiðinni í Evró-reglum og þess vegna þurfi að huga að upptöku þess. Þannig er þetta e.t.v. leikjafræðileg hugsun hjá sambandinu að auka trúverðugleika slíkra áróðursbrellna.
Þekkingin á kerfinu getur verið mjög gagnleg. T.d. ef sambandið getur útlistað hvernig er staðið á bakvið dreifbýlissveitarfélög í Evrópusambandinu meðan öll nema Akureyri og nokkrir smáhreppar eru í fjárþröng. Ef sá samanburður upplýsir fáránleika okkar kerfis þá getur hann gagnast við að afla breytingum fylgi.
Sjálfsagt mætti byggja þekkinguna upp í gegnum tölvu hvaðan sem er úr heiminum. En ég held það sé mikið öflugra að hanga í Brussel upp á að geta tekið lönsa með öðru Evrópuliði og farið á pöbbinn eftir vinnu til að fá fréttir frá öðrum Evrópukontóristum. Þannig fylgja því Marshallísk ytri áhrif að starfa að Evrópumálum í Brussel.
Hvað það varðar að Haddi sé þarna úti að vesenast í þessu en ekki stemma af viðskiptamannareikninga Ísafjarðarbæjar eða reka á eftir köllunum í áhaldahúsinu þá held ég að hann geri mikið meira gagn að afla tengsla og lobbía fyrir málstað bæjarins og sveitarfélaga á landsbyggðinni. Nýja djobbið sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir náttúrlega að verkum að það þarf að dreifa ábyrgð og völdum vegna daglegs reksturs á fleiri bæjarfulltrúa og starfsmenn en stóra málið fyrir Ísafjarðarbæ og önnur sveitarfélög utan vaxtarsvæða (landsbyggðin að frátöldu nágrenni höfuðborgar, Akureyri og mið-Austurlandi), er að fá í gegn nýskipan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Einhverjar krónur í rekstri til og frá eru minna málið. Ég held að reynslan úr sjálfstæðisbaráttunni hafi sýnt hversu miklu máli það skiptir að hafa á að skipa góðum málfylgjumönnum sem hafa aðgang að hjarta kerfisins. Þannig vil ég láta reka Hadda ef hann hættir að nenna að fara til Reykjavíkur og hangir bara á kontórnum á Ísafirði allt árið.
Þannig er ég frekar jákvæður gagnvart þessum sveitarfélagakontór sérstaklega og sé marga möguleika í stöðunni. En tortryggi náttúrlega utanríkisþjónustur, sem aðrar stofnanir, almennt.
Eiríkur Örn Norðdahl said...
Sælinú, Kristinn, og takk fyrir þetta.
Það er í mér einhver meinloka gagnvart utanríkisþjónustunni eftir samskipti mín við sendiráðið í Berlín um árið. Mér finnst eins og þetta sé allt gert til að bjúrókratar komist í kokteilveislur. En svo er það auðvitað ekki bara þannig.
Sagan af sendiráðinu er s.s. svona: Þegar ég var í Berlín '99, orðinn peningalaus og alveg í ruglinu, fór ég niður í sendiráð og spurði hvort það væri séns að fá sig sendan heim - jafnvel gegn reikningi síðar - eða hvort ég ætti einhver úrræði til að komast til föðurlandsins. Mér var gert að ræða við tvo þýska dyraverði um málið, Íslendingar voru víst ekki við. Dyraverðirnir báðu mig að koma með skriflega umsókn, sem ég og gerði. Líður og bíður og ekkert gerist og loks viðurkenni ég fyrir móður minni hvernig er ástatt fyrir syninum, og skömmu fyrir jól kaupir hún miða fyrir mig heim.
Í mars, nokkrum dögum áður en ég flyst til Færeyja, fæ ég bréf frá sendiráðinu (til Ísafjarðar, nota bene, á lögheimili mitt en ekki heimilisfangið sem ég gaf upp í Berlín). Þar er mér tjáð að eftir mikið japl, jaml og fuður hafi starfsmenn sendiráðsins fundið lausn á bagalegri krísu minni. Ég skuli hringja heim í foreldra mína, eða aðra mér nákomna, fá þá til að taka út pening (sic) fara með seðlana upp í utanríkisráðuneyti (sic! sic!) þar sem starfsmenn taka við þeim og fara með þá á ferðaskrifstofu, kaupa flugmiða, setja flugmiðann í umslag, senda umslagið til Berlínar þar sem ég geti sótt það upp í sendiráð (sic!!!!)
Nú er ég almennt hlynntur ríkisrekstri, en svona lýð á náttúrulega bara að stilla upp við vegg og skjóta.
Þegar ég svo flutti til Berlínar 2002 var ég tíður gestur í sendiráðinu í ýmsum veislum (og laug því jafnan til að ég væri Egill Sæbjörnsson - sem var staddur í Skotlandi, en var boðið í allar veislur). Í þessum veislum var alltaf hálft utanríkisráðuneytið.
Biðst velvirðingar á löngu kommenti.
Bestu,
Eiríkur
Kristinn said...
Þakka fyrir skemmtilegt komment. Það eru einmitt svona sögur sem valda því að maður er yfir meðallagi vænisjúkur yfir útgjöldum utanríkisþjónustunnar.
Maður vonar náttúrlega að starfsmenn sambands sveitarfélaga séu merkilegri pappírar en framsóknarbleðlarnir í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar finnst mér að enginn eigi að móðgast þó menn telji töluverðar líkur á, svona í ljósi sögunnar, að starfsemin verði bara bull.
Fór einmitt í svona sendiráðspartí í Kaupmannahöfn í vetur og það var ömurleg lífsreynsla. Lái engum sem hefur séð svoleiðis uppskafningaskemmtun að vilja loka utanríkisráðuneytinu í heild sinni. Þar var sko ekki verið að mynda nein tengsl við áhrifamikla Dani eins og Jón Sigurðsson og fleiri gerðu á sínum bestu túrum. Þetta voru bara sjálfumglaðir Íslendingar æstir yfir því að vera að drekka á kostnað almennings í útlöndum.
Sigga said...
Sendiráðin geta verið góð búbót fyrir drykkjusjúka stúdenta. Við í íslenska stúdentafélaginu höfum oft fengið "útrunnið" áfengi frá sendiherranum hér í borg og ég drekk það án þess að svelgjast á, enda námslánin skammarleg og allt það kerfi!
kær kveðja,
Sigga
said...
Er einmitt að fara í sendiráðsveislu í vikunni. Myndi drekka mig blindfulla ef ég gæti.
said...
Blessaður Kristinn , gaman að sjá þig þarna um daginn:D Hlakka til að sjá þig um jólin;)
Hilsen,Sólveig Sigurjóna
Hafdis Sunna said...
Lax lax lax og aftur lax....
Sjáumst á morgun!!!!