<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d-3586845363492521829', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

sunnudagur, nóvember 27, 2005

02:26 -


Jólaljósin eru komin upp í bænum. Watt er hugsi yfir rafmagnsreikningnum...

|

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

14:43 -


Tókst að ná mér í flensu, glatað! Þetta gerðist í kjölfar yfirlýsingar minnar um að fyrir einhverjar merkilegar sakir hafi ég ekki fengið vott af kvefi síðan ég kom til Skotlands. Hvað gerist, auðvitað fékk ég kvef um hæl og allt bólgnar út þangað til maður er eins og drusla í dag. En án gríns þá er kvefleysið hingað til stórmerkilegt. E.t.v. er skýringin sú að það er svo mikill klór í vatninu hér í Glasgow að það er eins og maður drekki munnskol alla daga. Það eru ekki nema viljasterkustu flensur sem lifa það af. Annars er ég strax orðinn heilmikið hressari en í morgun, tók gott sessjón á dollunni og er ekki frá því að það hafi bjargað ýmsu. Af fenginni reynslu verða tilburðir til heilsusamlegs matarræðis aflagðir um sinn til að geta háð ótakmarkað stríð við sýklana. Þannig ætla ég að dúða mig upp fyrir haus og laumast út í búð eftir einhverju kröftugu stöffi. Það hefur oft gefist vel í svona tilvikum að sjokkera líkamann almennilega með kaloríum. Var orðinn slappur í gærkvöldi en gerði þau reginmistök að borða falafel og hummus í kvöldmat. Það var linkindarlegt. Líkaminn hefur misst alla virðingu fyrir mér að reyna að mæta kvefi með grænmetisfæði, uff!

Set með mynd af Argylle Street. Þangað laumast ég á eftir til að fara í búðina.

|

mánudagur, nóvember 21, 2005

03:56 -


Söngurinn gekk ágætlega. Ég hélt við myndum koma fram fyrir tvær gamlar konur en kirkjan var fullsetin. Ótrúlegt en satt þá virðast ennþá vera til söfnuðir sem nenna að mæta í messu. Og n.b. þá var þetta engin Kross-klikkun heldur bara kaþólska kirkjan í hverfinu. Rauðbirknir Skotar úr hinum vinnandi stéttum sem fara á pöbbinn eftir vinnu, reykja og hafa að meðaltali hvað minnstar lífslíkur Evrópumanna. Stundum fær maður á tilfinninguna að margir Glasgowbúar séu stoltir af því að vera ekki að eltast við eitthvað heilsubull og deyja ungir úr heiðarlegri "working-class" kransæðastíflu. Það er nú eitthvað annað en grænmetisæturnar í Edinborg.

Maður sér fullt af forvitnilegu fólki á götunum. Krumpugallagengi og vatnsgreidda, grásprengda karla í leðurjökkum, sem eru örugglega ekki að herma eftir stílnum í Sopranos. Ég þori engan veginn að greina þetta, manni skilst að stéttastrúktúrinn í Bretlandi sé svo flókinn.

Annars eru allir strákarnir í bekknum mínum mótmælendur og Rangers aðdáendur. Samkvæmt staðalmyndinni eiga þeir að vera mýkri menn og menntaðri meðan kaþólikkarnir í Celtics eru harðari naglar með meiri skít undir nöglunum. En n.b. þá eru blæbrigðin víst margfalt flóknari og ég er viss um að það eru til bunkar lærðra ritgerða um stéttamynstur í Glasgow og mörgum öðrum breskum borgum.

Dýrðlingurinn sem söfnuðurinn sem við sungum fyrir er nefndur eftir heitir Columbas og því var hvíslað að mér að á 10. öld hafi hann kveðið niður skrímsli. Þar er víst á ferðinni eitt púslið í mítunni um Loch ness skrímslið. Ég var spenntur að sjá hvaða brögðum fulltrúar páfa beittu til að heilla lýðinn en fyrir utan reykelsismökkinn var ekki mikill munur á þessari guðsþjónustu og venjulegri íslenskri messu. Bara lengri, örugglega tvöfalt lengri, sem mér finnst ótrúlegt að sé vel fallið til lýðhylli.

Skil ekki ennþá af hverju menn gáfu fjölgyðistrú upp á bátinn. Þar eru margfaldir möguleikar. Um daginn var þáttur um trúleysi á BBC undir stjórn gamals og gráhærðs séntilmennis sem lærði við Cambridge fyrir áratugum síðan. Hann lá ekki á skýringum sínum og sagði einfaldlega hafa vantað geðveikraspítala í miðausturlöndum fyrir 2.000 árum. Það er margt í mörgu! Múslimarnir halda að þeir séu með betri útgáfu af orði Guðs en gyðingarnir og kristna fólkið, þeirra útgáfa sé nýrri og réttari. Hver kaupir það ekki að Orð Guðs 7 sé betra en Orð Guðs 0? En sem tiltrúarmaður á valfrelsið mæli ég einfaldlega með góðri fjölgyðistrú, hafi menn trúarþörf á annað borð. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

|

föstudagur, nóvember 18, 2005

01:04 -


Nú er mikið um að vera. Kammerkórinn heldur tónleika annað kvöld og svo erum við að fara að frumflytja mótettu eftir skoska tónskáldið James McMillan í messu á sunnudagsmorgun - skilst að hann sé stórt númer. Reyndar er þetta kaþólsk messa svo maður verður illa settur gagnvart páfavillunni - veit ekki hvað Siggi Gunnars segir við þessu, hann ráðlagði mér að forðast svona aðstæður. Til öryggis vil ég óska eftir því að einhver komi að sækja mig til Rómar ef kórinn verður tekinn í pant fyrir aflátsbréfaskuldir.

Tók eftir því á BB, að það á að stofna Austfirðingafélagið á Vestfjörðum. Mér finnst þetta stórgott mál enda á þeirri skoðun að Austfirðingar séu sérstakt öndvegisfólk. Mér finnst þá líka tímabært að Hálfdán Bjarki hrindi hugmyndum sínum um Reykvíkingafélagið á Ísafirði í framkvæmd.

Um daginn fórum við nokkrir skólafélagar í golf. Almennt spila ég ekki golf, en í anda samvinnu og samstöðu ákvað ég að fara með, enda málið kynnt þannig fyrir mér að um sérstaklega léttann níu holu túr á minniháttar golfvelli yrði að ræða. Hér í fæðingarlandi golfsins náði þetta að þróast yfir í hópferð á massívan 18 holu golfvöll sem var erfiðari yfirferðar en meðal gönguleið á Hornströndum. Þarna voru hólar og hæðir, og brautirnar lágu yfirleitt til skiptis niður á móti og upp á móti. Þannig var ekki nóg að maður gerði sig að fífli innan um sjentilmennin á þessum fína velli heldur var erfitt að setjast fyrir harðsperrum tvo daga á eftir. Málsbætur voru að nokkrir aðrir í hópnum voru frekar slakir svo ég var ekki langverstur.

Á meðfylgjandi mynd sjáumst við Neil Cowan bekkjarbróðir pósa fyrir myndavélina fyrir teighögg. Glöggir lesendur sjá grínið í baksýn. Nota bene þá er á þarna fyrir neðan, sem sést ekki á myndinni, og mér tókst að skjóta yfir hana, nánast inn á grín - ég geri mér samt engar grillur, þetta er bara ekki mitt sport.

Smart samt.

|

sunnudagur, nóvember 13, 2005

14:35 -

Þetta er ansi gott. Núna þegar tveir viðskiptafræðingar, þar af annar með garðyrkjupróf að auki, textílhönnuður, vélstjóri, dýralæknanemi og viðskiptanemi eru búnir að tjá sig um málið sé ég ekki betur en að það séu komnir nokkuð sterkir drættir að niðurstöðu. Svei mér þá ef þessi samsetning hópsins er bara ekki eftir formúlunni hjá McKinsey & Co! E.t.v. ætti maður að senda menntamálaráðherra link á síðuna og reikning fyrir ráðgjafarþjónustu.

Í sem stystu máli sýnist mér fólk á því að hvernig sem flækjan þarna á kennarastofunni varð til þá bjóði rammi ríkisstofnunar engan vegin upp á lausn, með einum eða öðrum hætti. Þá er minnt á að vinnustaðir eru alls ekki alltaf (og kannski sjaldnast) mjög sanngjarn vettvangur þar sem ágreiningur fólks er leystur í kristilegu bróðerni. Heldur ræður séffinn ríkjum og hinir fá skófar á rassinn séu þeir ekki sammála. Síðan er það þá stjórnarinnar að hirta séffann sé hann að búa til innræktaðan og duglausan hóp já-manna. Þá má segja að illmögulegt sé fyrir utanaðkomandi aðila að setja sig inn í blæbrigði einstakra mála, eða einstaka atburði, eins og hér um ræðir, heldur verði þeir að skoða málin mun almennar.

Þannig leggjum við til að sjálfstæði stofnunarinnar verði aukið og vald skólastjórnenda til að haga sínum rekstri eins og þeim þykir henta verði aukið. Jafnframt verði ábyrgð lykilstjórnenda skýr gagnvart stjórn sem hafi fulla heimild til að segja skólameistara upp störfum eða endurnýja ekki ráðningu þyki þeim stjórnunin ófullnægjandi. Þá verði lögmæti stjórnar aukið með því að gefa almenningi kost á að hafa áhrif á kjör hennar. T.d. með beinni kosningu á starfssvæði skólans eins og finna má dæmi um í Bandaríkjunum. Færa má rök fyrir því að stofnanir eins og framhaldsskólar séu afar þýðingarmiklar fyrir svæðið sem þær starfa á og því líklegt að áhugi samfélagsins á vegsemd þeirra sé mikill.

Núverandi fyrirkomulag er meingallað þar sem skólameistari hefur ekki heimild til að manna skólann eftir hentugleika, heldur er bundinn af einkaleyfi kennarastéttarinnar á kennslu og reglum um opinbera starfsmenn. Ef skólameistarinn reynist svo klikkaður, eða bara lélegur, þá er bölvaður höfuðverkur að reka hann. Stjórnin virðist í reynd aðallega upp á punt og er ólíkleg til að gera nokkuð. Ef menntamálaráðherra fer að skipta sér af málinu þá er hrópað "pólitísk afskipti" og allt verður brjálað. Enda svosem fáránlegt ef ráðherra þarf að víla og díla með örlög einstakra embættismanna. Nær væri að auka dreifistýringu opinbera geirans á Íslandi, líkt og gert hefur verið t.d. í Bretlandi. Miðstýringaráráttan sem er alltumlykjandi í íslenska stjórnkerfinu er í einu orði sagt sjúkleg, en það er nú annað mál og meira.

Þess má geta að innan skamms er væntanleg fyrir almenningssjónir skýrsla Félagsvísindastofnunar um stjórnunarhætti í MÍ og verður forvitnilegt að sjá hvaða niðurstöðu þeir komast að.

Vegna spurningar Þorsteins Yngva er rétt að taka fram að ég er með öllu óvenslaður málsaðilum.

|

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

09:12 -



Nú ætla ég að leggja fyrir áhugasama bloggfélaga smá heimaverkefni, nánar tiltekið í stjórnun. Hér er um að ræða svokallað "case study" úr raunveruleikanum. Keisið er frekar stutt en eins og tíðkast með svona verkefni er fólki vitaskuld frjálst að nýta aðrar upplýsingar um málið vísi það til þeirra í svörum.

Eftirfarandi frétt birtist í vikunni á vef Svæðisútvarps Vestfjarða:

Tveir kennarar við Menntaskólann á Ísafirði, hjónin Hermann Níelsson og Ingibjörg Ingadóttir, voru bæði kvödd á fund skólastjórnenda Menntaskólans í dag, í sitt hvoru lagi, til þess að svara fyrir alvarlegar ávirðingar í starfi. Ingibjörgu er meðal annars gert að greina frá veikindaforföllum við Menntaskólann á meðan hún starfaði fyrir annan vinnuveitanda á sama tíma. Fyrir opinber ummæli um einstaka starfsmenn og málefni skólans og verður sérstaklega leitað skýringa á ummælum sem Ingibjörg hafi látið falla í fjölmiðlum, ekki síst í Svæðisútvarpi Vestfjarða þann 26. maí í vor. Fundinum í dag er m.a. annað ætlað að leiða í ljós, hvort ástæða sé til þess að veita þeim áminningu fyrir háttarlag sitt. Hermann Níelsson, íþróttakennari var til viðtals með stjórnendum skólans fyrr í dag og svaraði spurningum skólastjórnenda meðal annars um útburð á bréfum. Hann hlaut ekki áminningu að svo stöddu en það var haft til hliðsjónar við viðtalsboðun.Þetta væri kannski í frásögur færandi, nema fyrir það, að formaður Félags framhaldsskólakennara og lögmaður félagsins, Ragnar Hall, komu vestur til að sitja fundina. Björn Jóhannesson, lögfræðingur á Ísafirði, er stjórnendum skólans til halds og trausts á fundunum.

Þá koma úrlausnarefnin:

Er vanalegt að starfsmenn séu kvaddir á fundi stjórnenda að viðstöddum lögfræðingum? Er það vísbending um eðlilega eða óeðlilega stjórnunarhætti að þínu mati?

Miðað við íslenska vinnumarkaðshefð, hverskonar brot í starfi kalla á formlegar áminningar eða hótun um áminningu? Ef allt er með felldu á vinnustað er áminningum beitt oft, sjaldan eða í undantekningartilvikum? Kalla framangreind atvik, ef um brot er að ræða í reynd, á formlega áminningu eða eru þau þess eðlis að stjórnanda beri að taka þau upp við starfsmann undir fjögur augu?

Hvaða áhrif telur þú það hafa á starfsanda ef stjórnandi gerir starfsmönnum grein fyrir því að áminningum verði beitt? Telur þú eðli vinnustaðarins skipta máli, t.d. hvort um vinnuskóla er að ræða eða vinnustað sérmenntaðra fagmanna?

Telur þú það bestu aðferð að boða starfsmenn á fund stjórnanda til að svara ávirðingum um brot í starfi? Skiptir máli hvort það er gert í undantekningartilvikum eða hvort það er almenna reglan? Ef það er almenna reglan, hvaða áhrif telur þú það hafa á starfsanda ef stjórnandi beitir þeirri aðferð reglulega að boða starfsmenn á sinn fund til að svara ávirðingum? Hversu oft telurðu að hægt sé að boða starfsmann á fund til að svara ávirðingum um brot í starfi áður en hann upplifir það með sterkum og neikvæðum hætti? Eru slíkar aðferðir góðar til að halda uppi aga eða kunna þær draga úr frumkvæði og sköpunarkrafti á vinnustað?

Í fyrrgreindu tilviki eru um framhald langvinnra deilna að ræða. Í slíku tilviki, hver er ábyrgð stjórnar? Á stjórn að skerast í leikinn eða á hún að halda sig til hlés meðan stjórnandi leysir málið? Telur þú eðlilegt eða óeðlilegt að yfirvöld menntamála taki fram fyrir hendur stjórnar til að leysa deiluna? Skiptir máli í því samhengi hvort um langvinna eða skammvina deilu er að ræða?

***

Þá læt ég þessu lokið í bili. Ef einhverjir eru í stuði væri gaman að fá lasunir (að hluta eða heild), ummæli eða hugsanir á kommentakerfið.

Set með mynd af gamla skólanum mínum. Myndin er fengin að láni frá bb.is.

|

sunnudagur, nóvember 06, 2005

19:28 -


Á laugardag var haldið nokkurskonar alþjóðamatarboð hér á á stúdentagarðinum. Allir áttu að koma með rétt frá sínu landi og svo voru veittar viðurkenningar fyrir bestu réttina. Frakkarnir tóku eftirréttarverðlaunin með góðum en frekar tilþrifalausum pönnukökum. Mitt uppáhalds í sætmetinu var einskonar jólakaka sem ég komst því miður aldrei til botns í hver hefði bakað. Sennilega hefði maður betur reynt að sína töfra íslenskrar matargerðar í sætabrauðinu því kjötsúpan mín bliknaði í samanburði við alla indversku glæsiréttina. Indverjarnir tóku aðalverðlaunin með massíft góðum karrírétt - voru vel að því komnir. Mér skildist að innan indverska samfélagsins hafi verið gríðarlegur metnaður og samkeppni vegna matardagsins. Næst geri ég Dísudraum og rústa þessu! Mest langaði mig reyndar til að gera sígilda íslenska rækjubrauðtertu með miklu majónesi og skreytingum en það var ekki tími í það. Kannski næst. Það væri forvitnilegt að sjá hvernig svoleiðis félli í kramið.

Annars var þetta mjög skemmtilegt. Gaman að fá tækifæri til að blanda geði við fólkið sem býr hérna. Hitti meðal annars náunga frá Bhutan í Himalayafjöllum. Hef aldrei hitt nokkurn þaðan - það hlýtur að gefa nokkur fjölmenningarstig.

Á meðfylgjandi mynd sést formaður húsfélagsins óska sigurvegaranum til hamingju með glæsilegan árangur.

|

laugardagur, nóvember 05, 2005

12:53 -

Á vísi.is er viðskiptafrétt sem er sterk vísbending um að Decode mórallinn sé afturgenginn á Íslandi. Þar stendur að fyrir ári síðan hafi núverandi eigendur IcelandExpress keypt 90% hlut í félaginu fyrir 250 milljónir. Nú sé það talið 3-4 milljarða króna virði og KB-banki muni sjá um að skrá það á hlutabréfamarkaði. Semsagt tíföldun verðmætis á einu ári. Nú hef ég engar tölur fyrir framan mig um rekstur IE en með vísun í Markaðslögmálin má færa fyrir því rök að það verði seint stórgróðabissness og verðmætið eftir því. Mér finnst ótrúlegt að seljendurnir fyrir ári hafi verið svo vitlausir að allt að því gefa félagið m.v. það verðmæti sem nú er flaggað. Það hafa ekki orðið neinar byltingarkenndar nýjungar í viðskiptafræðinni síðan ég kláraði en hins vegar er svokölluð "bigger fool" kenning í fullu gildi á hlutabréfamörkuðunum. Í sem stystu máli segir hún að það sé lengi von á að finna einhvern vitlausari en þig til að kaupa hlutabréfin á hærra verði.

Verðmæti hlutabréfa á að jafngilda núvirði vænts framtíðarsjóðstreymis félagsins og tekur ávöxtunarkrafan sem er notuð til afvöxtunar mið af áhættu félagins. Út úr þessu fáum við óendanlega röð en með nokkrum einföldunum má fá út formúlu sem er þægilegri þumalputtaregla. Ef við gerum ráð fyrir að vöxtur félagsins sé fast hlutfall ár frá ári, ávöxtunarkrafan sé sú sama yfir allt vaxtarófið, hagnaður sé ágætis nálgun á frjálsu sjóðstreymi og vænt hagnaðarhlutfall sé fasti þá fáum við að verðmætið sé jafnt hagnaði deilt með ávöxtunarkröfu að frádregnum væntum vexti félagsins. Semsagt verðmæti=hagnaður/(ávöxtunarkrafa-vöxtur).

Gott og vel, ef núverandi hagnaður IE er góður og vaxtarvæntingar miklar þá verður mönnum ekki skotaskuld úr því að reikna út mikið verðmæti.

Hins vegar ef er góður hagnaður af IE þá segir rekstrarhagfræðin og strategían að fleiri fyrirtæki muni fara inn á markaðinn og næla sér í bita af kökunni. Þess vegna verði hagnaður fyrirtækja á mörkuðum þar sem er fullkominn samkeppni til lengri tíma aldrei meiri en rétt nóg til að viðhalda bissnessnum. Til skemmri tíma geta svo allskonar hörmungar dunið yfir eins og að mörg fyrirtæki ákveði samtímis að fara inn á markað til að hirða umframhagnaðinn með þeim afleiðingum að öll fyrirtækin á markaðinum tapi þar til nógu margir hafi verið hristir út til að koma á jafnvægi að nýju. Nú eru markaðir oft langt frá því að vera fullkomnir og er nærtækt dæmi, vinur litla mannsins, Microsoft sem hefur í reynd einokun á margvíslegum hugbúnaði, en það verður ekki séð í fljótu bragði að neitt slíkt gildi um IE.

Hver sem er ætti að geta farið í rekstur í samkeppni við IE. Þeir úthýsa flugrekstrinum og fá önnur félög til að sjá um hann. Mér finnst ólíklegt að þeir fái einhver sérkjör á leigu á tveimur flugvélögum, aðrir ættu að geta náð í jafngóðan samning. Þar sem um svo lítið umfang er að ræða ættu engar hindranir að vera á framboðshliðinni, það er sitthvað hvort maður ætlar að leigja tvær flugvélar til að fara í samkeppni við IE og Icelandair eða hvort maður vill leigja 50 til að keppa við Ryanair. Salan fer fram í gegnum netið og tæplega er það nokkur samkeppnishindrun. Væntanlega eru netsölukerfi fyrir flugfélög orðin staðalbúnaður sem hægt er að kaupa frá mörgum aðilum. Varla er skortur á lendingarleyfum í Keflavík, flugvöllurinn er ónýttur mestallan sólarhringinn. Sama er að segja um Ryanair flugvellina í Evrópu, þau lendingarpláss eru væntanlega ekki takmörkuð. Þekking á ferðaþjónustu og flugrekstri verður reyndar ekki úr lausu lofti gripin en á Íslandi eru fleiri en einn og fleiri en tveir sem búa yfir slíkri þekkingu, fyrir utan alla útlendingana. Nærtækast væri að ráða fyrrum eigendur IE, þeir ættu að hafa reynsluna.

Þannig er dúbískt að í IE sé skyndilega orðin til viðskiptavild upp á 3-4 milljarða króna. Viðskiptavinir lággjaldaflugfélaga eru ekki tryggir viðskiptavinir, þeir fara til þess sem býður lægst. Vissulega hefur IE forskot á aðra, þeir eru orðnir þekktari, en a.m.k. hvað íslenska markaðinn varðar verður varla talinn of brattur hjalli að kynna landsmönnum þjónustu sína.

Þannig finn ég bara tvær hugsanlegar skýringar á þessari skyndilegu verðmætaaukningu. A: fólk er fífl og það á að kjafta félagið inn á landsmenn á uppsprengdu verði. Verðbólustemmningin semsagt. B. íslenski markaðurinn er mjög ófullkominn. Núverandi eigendur tilheyra klúbbi innvígðra í íslensku viðskiptalífi og eru í góðu sambandi við FL-group. Strákarnir hittust í Öskjuhlíðinni og tóku sig saman um að flugbransinn og bankarnir myndu ekki hleypa fleirum á jötuna.

Pálmi Haraldsson í IE er sagður einn af óvinum almennings úr grænmetisplottinu og ætti því að vera reynslunni ríkari í samráðsmálum.

Það má svosem vel vera að ítarlegri upplýsingar varpi nýju ljósi á þetta mál eða að fréttin sé sé tómt bull. En það þarf virkilega magnaða röksemdafærslu til að telja manni trú um að Iceland express sé einhver gullgerðarvél. Ef svo er þá lætur Markaðurinn það ekki afskiptalaust lengi.

|

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

21:51 -


Síðustu þrjár vikur er búið að vera klikkað að gera. Óttalegt nördalíf semsagt. Verkefnatörnin klárast samt að mestu í þessari viku svo fólk er farið að hafa uppi stór orð um að taka hressilega á því á næsta fimmtudagspöbb. Í kvöld er hindúahátíð sem heitir Diwali. Verð bara að viðurkenna að ég kann ekki frekari skil á henni, nema stofan hjá mér er þéttsetin af indverjum í sparifötunum. Soldil jólastemmning í gangi bara. Indversku strákarnir sem ég bý með eru báðir í mastersnámi við Konunglega skoska hótelskólann og ég græði aldeilis á því, áðan kom annar þeirra færandi hendi með smakk af Diwali kvöldmatnum. Þessar elskur! Ég held að heimurinn verði betri staður þegar Indland verður orðið fullburða stórveldi.

Mmmm, svaka gott grænmetiskörrí!

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.