<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d-3586845363492521829', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

sunnudagur, nóvember 28, 2004

20:37 -


Bjórleiði

Eins fáránlega og það hljómar þá er ég orðinn frekar leiður á bjór eftir að hafa verið í stöðugri veislu síðustu vikur við að sulla í alls kyns bjórum, bæði belgískum og hollenskum, ekki síst fjölmörgum héraðsbjórum Limburgh. Framan af voru bjórinnkaupin takmörkuð af flutningsgetu, þar sem gullnu veigarnar voru ferjaðar heim í bakpoka ásamt skóladótinu og matarinnkaupunum. Bjórnautnin komst því á nýtt stig eftir að ég lærði að hjóla með bjórkassa og gat því farið að safna birgðum. Úrvalið í búðunum er mjög glæsilegt og því hefur ennþá ekki verið gerð tæmandi skil, en fjölmargir ljúffengir pilsnerar eru í bragðminninu ásamt nokkrum dökkum bjórum og hveitibjórum sem ég hef algerlega fallið flatur fyrir. Þar fyrir utan er af nógu að taka, t.d. yfirgerjuðum bjór og mörgum þykkum og rótsterkum belgískum bjórum sem ég hef ekki komist upp á lagið með.

Þetta ástand gæti náttúrlega aldrei skapast í félagslegri forsjárhyggju Norðurlandanna þar sem regluleg bjórdrykkja er varla nema á færi auðmanna en hér í alræði frjálslyndisins þar sem hasshausar og vændisstarfsmenn stara á mann tómum, firrtum augum á torgum og strætóstoppum bæjarins geta svona hörmungar átt sér stað - þannig er einn af mínum elskuðu lífsförunautum fallin í valinn fyrir óvægnu frjálslyndinu. Ó grimma veröld af hverju hefurðu tekið frá mér þessa lífsnautn, sjálfa bjórástina.

Ég ætla að láta mér þetta að kenningu verða og ganga hægt um dyr frelsisins það sem eftir er. Vissara að láta ekki greiðan aðgang að kjöti og grænmeti á Evrópuverði eyðileggja fyrir sér matarástina. Þannig ætla að ég að blanda íslenskum stúdentaréttum saman við allsnægtirnar héðan af og elda alls kyns innihaldslaust sósusull sem er þykkt með hrísgrjónum eða pasta og borðað með ristuðu brauði.

Á meðfylgjandi mynd sést kassi af belgíska alþýðubjórnum Jupiler sem ég hjólaði með heim úr kjörbúðinni fyrir rúmri viku og stendur enn ósnertur - þannig er eins og sé búið að sjúga úr manni allan vilja og frumkvæði. Posted by Hello

|

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

21:15 -


Í þjónustu Dr. Phil

Eins og einhverjar kunna að muna fékk ég bókina Life Strategies eftir ameríska sjónvarpssálfræðinginn Dr. Phil í afmælisgjöf þegar ég varð 25 ára. Reyndar verður að viðurkennast að ég hef ekki lesið hana til fulls en þó gluggað í hana líkt og í nokkra fleiri sjálfshjálpartitla. Líklega er uppáhaldið mitt If Men Could Talk eftir New York gyðinginn Alon Gratch. Svei mér þá ef ætti ekki bara að útbúa leikgerð upp úr bókinni, slík er geðveikin. Þessari hugmynd er hér með vísað til Elínar - það væri gaman að fá eins og einn eða tvo sálarkrísumónóloka til að brjóta upp partýin um jólin. Reyndar finnst mér eins og ég hafi heyrt einhvern segja að það væri búið að blóðmjólka karlakrísur í leikhúsinu svo e.t.v. er þetta frekar hallærisleg hugmynd.

Auðvitað skiptir þetta engu máli nema að svo skemmtilega vill til að undanfarnar vikur hef ég staðið í afskaplega sjálfshjálparlegu prójekti sem er að læra hollensku. Þannig er að mér hefur aldrei tekist að læra þriðja tungumál, a.m.k. ekkert ákveðið þriðja tungumál, heldur tala bara þessa fínu íslensku og ensku og síðan ef það dugar ekki þá fer allt í bland þýska, danska og jafnvel nokkur spænsk orð. Í ljósi sögunnar er því tæpast við miklu að búast úr hollenskunáminu. Þannig hefur heldur ekki mikið gerst, ekki ennþá að minnsta kosti. Fyrstu tímarnir voru vægast sagt neyðarlegir þar sem ég mætti á staðinn fullur sannfæringar um að ég ætlaði að taka þetta með trompi en skildi síðan ekki neitt í neinu meðan allir (a.m.k. flestir) hinir sigldu í gegnum tímana með hægð.

Loksins var sæst á að þetta væri ekki að ganga og farið heim í smiðju að kokka upp nýjar aðferðir til að tækla námið. Á endanum fannst hvorki tæknileg né snjöll aðferð heldur var ráðist í málið með handafli, og hverju einasta orði flett upp í orðabók (fokkings persónulega) og glósað í kennslubókina. Þannig var hægt að skilja leiðbeiningarnar og fá smá tilfinningu fyrir því hvernig þetta virkar. Nú er búið að tækla þrjá kafla með seinvirkri handaflstækninni og því e.t.v. hægt að segja að einhverskonar námsferli sé komið af stað. Kálið er þó ekki sopið (og súpan varla farin að ilma) og því liggur fyrir að ef eitthvað á að verða úr er eins gott að halda þessu áfram fram á vor. Þetta er óttalegt plokk, gengur hægt og reynir á þolinmæðina - að vissu leyti finnst mér fáránlegt að læra eitthvað sem er svona mikið vesen að læra. Þannig hefur mér dottið í hug að líklega væri hollenskan rétt formsatriði ef ég kynni eitthvað í dönsku og þýsku.

Hvatirnar að bakinu tungumálanáminu eru hvorki starfs- né námsframalegs eðlis heldur er frekar um nokkurskonar prinsipp mál að ræða. Núna er nefnilega komið í ljós að hefði ég nennt að standa í orðabókaflettingum í grunn- og menntaskóla þegar til þess var ætlast þá eru sæmilegar líkur til að maður hefði raunverulega skilið eitthvað í dönsku og þýsku en ekki bara harkað af sér þangað til kennslunni lauk eftir þriðja bekk í menntó.

Þannig hefur mér verið mikið hugsað til Dr. Phil þar sem ég reyni að bæta fyrir gamlar syndir með það að markmiði að takast að lokum að kveða niður gamla drauga, dönsku- og þýskuleysið. Ef þetta væri í beinni hjá doktornum þá myndi hann æsa sig svo glampaði á skallann og skamma mig með ameríska hreimnum sínum fyrir að hafa vanrækt sjálfan mig svo grimmdarlega.

?With your self indulgence you have denied yourself of opportunities to grow and have hurt yourself. You?ve got to show this man the respect he deserves and don?t deny him the attention he needs You need to love yourself before you can start to love others - and love is hard work.? Nú myndi salurinn klappa ákaft og ég myndi fara að gráta, hrista hausinn og taka undir með Dr. Phil ?yes sir, yes sir?. Síðan yrði líklega farið í auglýsingar og atriðið notað í tíserum næstu vikna.

Dr. Phil er náttúrlega í Ameríku og þetta er náttúrlega ekki stórt persónudrama, heldur meira svona spot on the record sem væri gaman að komast fyrir. Samkvæmt þarfahírarkíi Maslows þýðir þetta þó líklega að maður hafi það ansi gott efnislega og andlega fyrst maður er farinn að velta sér upp úr svona smáatriðum, einhverjir myndu jafnvel segja að maður hefði of mikinn tíma og of lítið af áhyggjum. E.t.v. er maður kominn í næsta stigið á undan stiginu þegar maður fer að ganga til heilara sem fer að ráðleggja manni að vinna út frá miðjunni. Samt finnst mér eins og þetta sé frekar þýðingarmikið. Eins og manni vanti ennþá almennilegt ?closure? á menntaskólann.

Örstutt að lokum, ég hef ekki getað varist reiðinni nú síðustu daga, þar sem ég hef verið að vinna úr gömlum menntaskólakomplexum, gagnvart öllu helvítis pakkinu sem tuggði sífellt á því íslenskt menntakerfi væri ónýtt og enginn lærði nóga stærðfræði og við værum svo ömurleg m.v. Singapúr og Danmörku og útskrifuðumst seint og ég veit ekki hvað og hvað. Með þessar úrtölur er maður búinn að rogast á bakinu síðan maður var unglingur, kengboginn af minnimáttarkennd yfir því að vera afurð ónýts skólakerfis - þetta er náttúrlega bara helvítis rugl, bull, vitleysa og uppspuni frá rótum. Því fleiri þjóða kvikindi sem ég spjalla við verð ég handvissari um að þrátt fyrir allt sé íslenska stúdentsprófið hrein snilld m.v. hvað fólk er að vesenast í öðrum löndum. T.d. sögukennslan (þó Björn Bjarna hafi svo skorið hana niður eftir að við útskrifuðumst). Mér finnst maður bara ferlega kosmó með söguna hans Björns Teitssonar upp á vasann - t.d. er ég búinn að fræða Rich félaga minn á ýmsu úr sögu Bretlands. Hann vissi t.d. ekki að Churchill hefði þurft að segja af sér sem varnarmálaráðherra eftir að Gallipoliinnrásin misheppnaðist árið 1915 (Siggi og Geiri þið leiðréttið ef ég er úti að skíta). Svo virðist fólk ekki gera neitt að viti þó það útskrifist fyrr, heldur hafa flestir Evrópubúarnir drepið tímann með endalausu skiptiprógrammahangsi.

Og hvað háskólastigið varðar þá sakna ég afskaplega mikið allra kennarana í HR sem voru ekki ?alvöru prófessorar? heldur komu úr Kaupþingi og Seðlabankanum og tengdu efnið jafn óðum við það sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hagfræðideildin hér telst með þeim öflugustu í Evrópu (og HÍ er ekki einu sinni á blaði) en sumir prófessorarnir eru svo akademískir að þeir vita varla hvað þeir heita. En svona er þetta vestfirska komplexan í hnotskurn, það er búið að berja í okkur að allt sé réttara og betra í Reykjavík og í útlöndum. Ég vil nota tækifærið hér með og segja þessum aumingjum að fara í rassgat! Posted by Hello

|

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

22:16 -


Hammó ammó

Afmælisdagurinn var aldeilis fínn, í fyrsta skiptið á ævinni (eftir því sem ég best man) lenti ég surprise afmælishaldi (voða útlenskt). Reyndar kom það ekki algerlega á óvart því það var búið að tilkynna mér að ég ætti að mæta á tiltekinn stað í miðbænum kl. 20, svo e.t.v. væri nær að tala um óvissu afmælisveislu en fullvaxið surprise-party. Rich, Hann, Kati og Claudia tóku á móti mér á markaðstorginu og þaðan fórum við út að borða. Ég valdi pitsustaðinn Napólí sem er ansi sjoppulegur en skartar alvöru Ítölum, frábærum mat og lágum verðum. Þetta var auðvitað stórgaman, antipasti og rauðvín, pitsa með salami og gorgonsola, og kaffi og limochello á eftir - mmm smakt leuk. Þar að auki fékk ég allan pakkann, afmælissöng og þýska marsipantertu með stjörnuljósi. Það er óhætt að segja að kakan sé fyrir lengra komna, mestmegnis marsipan með örþunnum deighjúpi utanum.

Eftir intróspektívar rannsóknir er ég sannfærður um að oddatöluafmæli eru meiri streituvaldur en slétttöluafmæli, einhvernvegin hljóma oddatölurnar meira neikvætt, 19, 23, 25, 27, 29. Að því sögðu finnst mér þó alveg eins með 27 ára afmælið og 25 ára afmælið að það er afskaplega gott að hafa það frá. Einhvernvegin þarf maður að efast um allt og endurmeta í aðdragandanum en síðan fyllist maður æðruleysi og innri friði - a.m.k. relatívum því sama hvað þá kraumar undir sívirkur aldurskomplex sem hefur verið í gangi allar götur síðan ég fór að komast löglega í ríkið og er mesta lagi hægt að yfirgnæfa. Auðvitað er þetta fáránlegt, sú var tíðin að menn biðu óþreyjufullir eftir að veraldarstreðinu linnti svo þeir gætu sest að borðum með himnaföðurnum í eilífðarvistinni en samkvæmt samtímahugmyndum er þetta allt niður á við nema þú seljir sálu þína hégómaguðinum og verjir jarðvistinni í máttlausa hrörnunarbaráttu með sífelldri líkamsrækt, snauðu matarræði og lýtaaðgerðum. Þannig virðist ekkert kosmískt samhengi innan seilingar, ekki einu sinni samtímaharmónía og tæpast andóf - maður er meira svona mitt á milli. Posted by Hello

|

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

00:15 -


Hópur glaðra manna

Hópur manna gerði mér virkilega glaðan dag, síðdegis í gær. Ég skellti mér í kvöldmat í mötuneytinu og tók fljótlega eftir að sérkennilegir menn stóðu fyrir aftan mig í röðinni, það var eins og þeir hefðu orðið fyrir mjög slæmum tískutruflunum í æsku eða væru frá allt öðru tímabili. Spenntu magann út og rassinn inn, axlirnar í sundur og þöndu bringuna , sperrtu höfuðið og voru háreistir yfirlitum. Hárið háglansandi sleikt aftur eins og þeir væru nýkomnir frá Sikiley, vel snyrt puntskegg sem hefðu hæft Skyttunum þremur eða metrósexúal sjóræningjum. Einn var meira að segja með dökkt liðað hár allt, sleikt aftur og töluvert aftansítt. Allir skörtuðu þeir mörgum lögum af fötum, skyrta, jakki, frakki og fleira í þeim dúr, að auki áttu þeir sameiginlegt að vera allir með trefla og myndarlegar regnhlífar, ekki þessar litlu sem maður getur stungið í bakpokann þegar styttir upp heldur glæsilegar regnhlífar af stærstu gerð sem má líka nota eins og staf, enda studdu þeir sig allir við hlífarnar sem montprik væru. Þá skörtuðu þeir gljáfægðum leðurtöskum sem stungu verulega í stúf við Jansport og Eastpak bakpokana sem eru deildarnormið. Ætla má að glanstöskurnar séu tæpast praktískar til að hjóla með og allt of veigalitlar til að bera amerískar stjórnunarbókmenntir.

Sá síhærði með sjóræningjaskeggið var greinilega framsæknastur í expressíva klæðaburðinum en sem ysta lagi skartaði hann aðsniðnum gallajakka sem var útflúraður í mynstri sem gaf honum nokkurskonar Suðurameríkuyfirbragð. Flíkinni hneppti hann upp í háls eins hálsbólgan sæti um hann og kórónaði spjátrungsyfirbragðið með því að jakkinn var fullþröngur til að hneppa og bólgnaði sældarlega utan á honum.

Hingað til hefur ýmislegt ævintýralegt borið fyrir sjónir í herratísku götunnar hér í Maastricht og því ástæðulaust að tapa jafnvæginu vegna sérkennilegra manna sem að öllum líkindum væru suðrænir skiptinemar. Hinsvegar voru þessir ansi áberandi, og fasið og hópdínamíkin engu lík með allt að því kóreogröfuðu látbragði manna á milli í matarröðinni. Þeir virtust líka óvenju lífsglaðir og rauluðu lagstúfa.

Á endanum fór þó ekki á milli mála hvurslags menn voru hér á ferð, söngurinn ágerðist og ég greindi textabrotið ?Ombra ma fu? - þetta voru söngvarar. Þannig er að við hliðina á viðskipta- og hagfræðideildinni er Conservatorium Maastricht til húsa, tónlistarskóli fyrir lengra komna og því stemmdi þetta allt saman. Hápunktinum var svo náð þegar röðin kom að þeim og hópurinn siksakkaði um gólfið, að salatbarnum, servíettunum, hnífapörunum og loks inn í sjálfan matsalinn að sjálfsögðu syngjandi alla leiðina. Þeir voru örugglega að ímynda sér að þeir væru í óperu allan tíman. Þannig var kjúklingurinn og frönskurnar sem ég fékk í kvöldmat að ógleymanlegri sýningu þar sem ég gjóaði augunum á stórsöngvarana sem virtust frekar senda resetatív sín á milli, yfir borðið, en að standa í einhverjum dægursamræðum - slík voru tilþrifin, líkamsburðirnir, dramatísk svipbrigðin og ekki síst tímasett hlátrasköllin.

Þetta er náttúrlega stórkostlegur bransi og þarf magnað fólk til að standa í honum. Í þessari 4.000 manna deild ber aldrei á nokkrum manni eða nokkru óvenjulegu heldur flæðir fólk eftir göngunum í fyrirsjáanlegri skilvirkni. Þessum fjórum nágrönnum okkar tókst þó algerlega að brjóta upp hvunndagsyfirbragðið þar sem þeir dönsuðu um gólfið syngjandi sem í gamanóperu væru, flaksandi gljáandi hárinu og sjóræningjaskeggjunum. Þetta voru sko engir kontratenórar, heldur tenórar og barítónar af sjálfstyrkustu gerð. Einn var þó ansi tilkomulítill sköllóttur með gleraugu og klæddur jarðlitum - tæpast annað en raddlaus bassi.

Því miður var myndavélin heima og því engri mynd til að dreifa af þessum snillingum. Það er þó ekki nokkur spurning að maður mun hafa augun opin og gera sitt besta til að mynda þá seinna - þeir voru svo ánægðir með sig að maður örugglega beðið um eiginhandaráritun án þess að nokkrum þætti það skrýtið. Hafi mér einhverntíman tekist að vera tenórlegum í töktum þá myndi það ekki duga til að komast í kór með þessum mönnum, þvílíkir stórsöngvarataktar - Kristinn Sigmundsson minnir á uppþurrkaða skrifstofublók við hliðina á svona Carúsóum.

Á meðfylgjandi mynd sést Carúsó sjálfur á góðri stundu. Posted by Hello

|

mánudagur, nóvember 22, 2004

01:19 -


Jólastuð og skattalækkanir

Í ljósi einbeitingarskorts ákvað ég að reyna að koma öllum hugmyndunum og punktunum sem eru að trufla lesturinn í skikkanlegan farveg með von um að fá frið. Fyrst er það jólagjafalistinn, get ekki sagt að það séu margar hugmyndir í gangi en það kemur upp aftur og aftur að mig langar í rautt einlitt bindi, svona eins og stjórnmálaleiðtogar í útlöndum eiga. Þar fyrir utan eru bækur, geisladiskar, rakstursvörur og nærbuxur vel þegnar. Rétt til að útskýra þennan bráða jólaáhuga, þá er komið upp jólaland á aðaltorginu í bænum og búðirnar orðnar fullar af allskyns jólasprulli. Þannig er ekki farandi um miðbæinn nema í skjóli myrkurs ef maður vill ekki komast í bráðgert jólastuð.

Í anda einbeitingarskorts og eirðarleysis verður látið staðar numið við listagerðina að sinni og ráðist í næsta verkefni?

Annars vil ég taka undir með Stjána sax að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru mikið fagnaðarefni. Útfærslan er málamiðlun þ.s. flestir fá eitthvað fyrir sinn snúð og algerlega nauðsynlegt að fá inn góðan örvunarpakka til mótvægis þegar kemur að lokum stóriðjuframkvæmda. Langtímaáhrifin fyrir vinnumarkaðinn eru þó mikilvægust, a.m.k. út frá sjónarhóli námsmanna, en ýmis teikn hafa verið á lofti um að hann væri orðinn of dýr og við gætum verið að sigla inn í tímabil með viðvarandi atvinnuleysi að hætti gömlu Evrópu. Hvað oförvunarsjónarmið varðar velta þau á því hversu vel Geir Haarde og Einar Oddur halda um tékkheftið, ef þeir mæta tekjusamdrætti ríkisins með útgjaldasamdrætti þá stöndum við á sléttu.

Þá er næsta djobb að lækka tolla á landbúnaðarvörum og fella niður sértækar viðskiptahindranir eins og osta- og kjúklingakvóta. Síðan væri náttúrlega brilljant að láta af samnorrænni sjálfspíningarhvöt og fella niður ofurskatta á áfengum drykkjum. Það er til skammar að Flokkurinn sé búinn að vera við völd frá því ég fermdist og ríkið sé ennþá að skipta sér af því hvað við borðum og drekkum. Allt þetta matarokur er viðhaft svo við getum borðað ÍSLENSKT svínakjöt og ÍSLENSKA kjúklinga. Ég skil ekkert í þessum snillingum að hafa ekki reynt að rækta epli og appelsínur, ávextirnir sem við borðum í dag hljóta að vera steindrepandi, ræktaðir í útlöndum með alls kyns eiturefnum. Tölum nú ekki um þegar líður á veturinn og við förum að fá grænfóðrið frá svörtustu Afríku.

Ég vil hér með leggja til að það verði tekinn tvöfaldur Björgólfur á þetta mál, svína- og kjúklingabúin verði keypt til niðurrifs og lögð saman í eitt sæmilegt bú í Rússlandi þar sem hægt er að fá vinnuafl á skikkanlegum prís til að sinna framleiðslunni. E.t.v. gætum við þá flutt inn billegt kjöt aftur frá Samband of Russia. Hinn sameiginlegi sjóður gæti svo sparað formúur sem í dag er varið til beingreiðslna og til að borga laun sérfræðinga í Bændahöllinni. Síðan gæti Hótel Saga lagt skrifstofurnar undir sig og leigt ferðafólki fleiri herbergi.

Á meðfylgjandi mynd sést John Kerry fyrrum forsetaframbjóðandi heilsa upp á stuðningsmann. Ef hann hefði haft betri hnút og meira afgerandi rautt bindi þá er ég viss um að hann hefði unnið. Posted by Hello

|

sunnudagur, nóvember 21, 2004

16:40 -


Vestfirska vorið

Vá þvílík vika, það er einhvernvegin allt að springa út, yfirlýsing Elínar um tilvonandi írska kærastann eru náttúrlega tíðindi vikunnar í vissu kreðsi a.m.k. og mál sem verður fylgst náið með næstu vikur. Síðan er E.Ö. Norðdahl að troða upp í Silfrinu hjá Agli Helgasyni í dag með nýju bókina sína Hugsjónadrusluna sem virðist ætla að fá góða athygli sem er vel enda Eiríkur líklega einn af síðustu mönnum okkar kynslóðar, eða þjóðarinnar jafnvel, sem hefur eitthvað við tíðarandann að athuga. Kerfisbundið félagsmiðstöðva- og íþróttafélagauppeldi er að strauja síðustu misfellurnar úr Íslendingum sem verða sífellt meðvirkari með öllu ruglinu og passasamari um að móðga örugglega engan sem gæti hjálpað þeim á framabrautinni eða plöggað einhverju í framtíðinni. Ég vil hér með nota tækifærið og hvetja til unglingadrykkju, lögleiðingu fíkniefna og að gerður verður listi yfir alla eigendur Volkswagen bifreiða.

Til hamingju Eiríkur, Ísfirðingar mega vera stoltir af því að eignast rithöfund, þér á vafalítið eftir að takast að jafna metin eftir niðurlægingu okkar þegar hinn uppskrúfaði Rúnar Helgi Vignisson reið um héruð og ruglaði. Hugsjónadruslan fer beint á jólagjafalistann, ég fékk að heyra smá kafla á upplestri yfir ölskrús í sumar og hann var stórskemmtilegur. Liggur við að maður bíði eftir hljóðbókinni því fjölkommufrasar Eiríkis ná hæstu hæðunum í flutningi höfundar.

Svo er Öddi popp víst að slá í gegn með nýju plötuna sína sem fær gríðarlega góða dóma. Þetta er víst mikið hæp sem hlýtur að setja heilmikla pressu á kallinn sem væntanlega verður farið að tala um sem næstan í meikröðinni. Það væri mikið fagnaðarefni ef nýja platan sigraði heiminn enda frábær músíkant og performer á ferð sem auk þess býr yfir persónutöfrum einlægni, látleysis og alþýðleika sem er uppbyggilegt og hollt mótvægi við sjálfumglaðan tilgerðarsirkus listamanna okkar kynslóðar - rúgbrauð með kæfu sem kemur jafnvægi á meltingarfærin eftir allan innhverfa húfumarengsinn. Posted by Hello

|


16:39 -


Hommapólitík

Hér fyrir austan er dægurstreðið í fullum gangi, verið að kaldstarta vikunni eftir léttúðugan laugardag. Eftir langan bókasafnsdag á föstudag var haldið á pöbbinn til að setja hlutina í samgengi. Síðan var efnt til samsætis hér á Kieselweg í gærkvöldi og elduð dýrindis kálfasteik í rjómasósu með áherslu á rjómann og smjörið enda markmiðið með matseldinni ekki að lifa lengur heldur betur.

Eftir uppvask og meltingu var haldið í bæinn og kíkt á barinn Take5 sem er svona temmilega artí fartí, soldið eins og Skuggabarinn var en engir fótboltabankaplebbar - uppstrílingarstressið háir fólki ekki eins mikið hér í sveitinni og í Reykjavík. Þegar leið á skellti ég mér á hommaklúbb sem ég bara man ekki hvað heitir en það er eitthvað æðislega fyrirsjáanlegt Heaven eða e-d solls. Þetta er frekar fyndinn klúbbur því dags daglega er ekki nokkur leið að sjá að þarna sé rekinn skemmtistaður - heldur eru þarna tröppur niður í kjallara og seint á föstudags- og laugardagskvöldum er hengd út jólasería og svo gengur maður niður og dinglar bjöllu. Þannig minnti þetta lókal ótrúlega mikið á gamla kunningja, allar slísí búllurnar sem Derrik og Harry Klein heimsóttu á sínum farsæla ferli í Ríkissjónvarpinu. Þó arkitektúrinn innandyra vekti síst vonbrigði, skemmtistaðableikir veggir og mikill reykur, er tæpast hægt að segja að menningin hafi verið upp á marga fiska. Engar Freddy Mercury týpur með þykk yfirvaraskegg eins og vænta hefði mátt af umbúnaðinum - heldur var mórallinn heimóttarlegri en á verstu stundum Spotlight. Slatti af hommum í hækjufylgd sem allir virtust þekkja hvern annan og nojað andrúmsloft - hver stelur hvaða drátti frá hverjum? Einn viðmælandi minn ráðlagði mér sterklega að fara til Kölnar, þar væri sko eina gay senan sem eitthvað vit væri í.

Furðulegt að enginn virðist skemmta sér á svona stöðum, heldur eru allir þungbrýndir af sligast undan pressunni við að sýna sig vel og sjá aðra. Enn eitt dæmið um tvöfeldni hommaheimsins sem annars vegar gefur af sér ímynd lífsgleði með pride-göngum, Abba-drottningum og söngleikjadýrkun en í alvörunni eru allir að fara á taugum, dæmdir til að tapa í fegurðarkapphlaupi þar sem allt skemmtistaðahangsið getur bara flýtt fyrir hrukkunum og baugunum. Þannig fara hinir fimm dagarnir í vonlausu baráttuna, endalaus líkamsrækt og gúrkumaskar, þess á milli sem er grenjað í vinkonum og sálfræðingum, eða gripið til róttækra ráðstafana, gleðipilluáts og fegrunaraðgerða. Og það sem er furðulegast af öllu að ef maður vill ekki kóa með þessu rugli þá er maður bara komplexaður og í vanda með ídentítetið.

Til skamms tíma var það stolt Vestfirðinga að standa upp og láta í sér heyra þegar keisarinn var nakinn og þá hefð verður að virða vilji menn halda sjálfsvirðingunni. En auðvitað stendur maður með flokknum í gegnum þykkt og þunnt, það er ekkert annað að fara, og kýs að ganga með bros á vör niður Laugarveginn. Þannig er búið að afmarka völlinn og leitin heldur áfram að samherjum í hommaskap og í pólitík en ég mun alltaf standa með mínum mönnum gegn Gunnari í Krossinum og Ingibjörgu Sólrúnu sama hversu heimskulega þeir láta á köflum.

Meðfylgjandi mynd var tekin út um gluggann á Higlander pub á föstudagskvöld - takið eftir reiðhjólaskaranum fyrir utan. Posted by Hello

|

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

23:42 -


Alþjóða(hádegis)kvöldverður

Um síðustu helgi var haldinn international student dinner fyrir mastersnemana í deildinni, voða næs, smakkaði svebískt kartöflusalat og pólskar kartöflur. Ég var samt hálf sjoppulegur eftir útréttingar á hjólinu fyrr um daginn, samtals um 17 kílómetra og þar af um 12 með þvottinn á bakinu.

Planið er víst að halda svona aftur eftir áramót, svo ég verð að gera einhverjar ráðstafanir um jólin með að útvega selshreifa og þannig. E.t.v. er það fulllangt gengið, spurning frekar um að gera hvalstroganoff og mæta með selslaufuna sem Dóri Jóns gaf mér. Það væri gaman að sjá hvernig múslíæturnar tækju á því (mueslifressen er víst þýskt háðsyrði yfir svona meðvitað lið) annars er þetta viðskipta- og hagfræðideild svo það eru allir svo veraldlegir og sýnískir að maður gerir sér ekki neinar væntingar fyrirfram.

Eftir smjattið skelltum við okkur írskan bar sem virtist vera nokkuð dönnuð útgáfa af Dubliners í Tryggvagötu, þarna voru engar fullar konur að detta niður stiga og vantaði alveg Rut Reginalds til að hrista upp í liðinu. Annars sýndist mér vera nóg að lífi á dansgólfinu, svona miðaldra stemmning, minnti á Kringlukrána og lýsingar Svavars þýskukennara frá leigubílstjóraárunum þegar hann þjónustaði mikið viðskiptavini Glæsibæjar.

Mathieu skellti sér á koffísjop meðan við tókum til við drykkjuna og við Rich smökkuðum kerfisbundið alla bresku bjórana sem voru í boði. Eftir þetta hefur maður einhverja hugmyndin um muninn á bitter og ale en þetta er víst frekar samfellt bjórróf en aðgreindir heimar. Eftir japl, jaml og fuður fengu allir sér tyggjó og hjóluðu heim. Bjórablöndunin olli töluverðum höfuðverk næsta dag.

Síðan varð mikið spennufall í gær þegar við fengum út úr prófunum, við stóðum öll nema Mathieu sem féll í hagsálfræðinni og þarf að fara í munnlegt endurtektarpróf í janúar - hann massar það með franska málæðinu og handahreyfingunum.

Jebbs, þá er bara að setja allt í botn næstu sex vikurnar og mæta galvaskur í jólafríið - á pantað heim á þorláksmessu og er orðinn þrælspenntur. Samt fáránlegt að hugsa um það núna en búðirnar hérna eru byrjaðar á jólaskrautinu og rugla í manni líkamsklukkuna. Þannig hefur t.d. afmælið mitt færst frá seinnihluta nóvember inn í miðja aðventu.

Meðfylgjandi mynd var tekin á írska barnum, f.v. Rich, Hanna, Katí og Mathieu, að auki sést í skallana á Claudiu og Stefan. Posted by Hello

|

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

23:57 -


Gunna Bruxelles

Fékk aldeilis skemmtilegt, og óvænt símtal fyrir skömmu, frá Gunnu vinkonu minni og skólasystur úr HR. Hún flutti til Brussel í Október. Ég hafði ekki séð Gunnu lengi þegar ég hitti hana í ástandsleysu síðla á menningarnótt. Það voru fagnaðarfundir. Síðan upplýsti hún í símtalinu að eftir hún kvaddi mig hafi hún lent í slagtogi við mannskap sem m.a. innihélt starfsmann EFTA sem var heima í sumarleyfi - þau reyndust m.a. hafa skátana sem sameiginlegt áhugamál og tóku til óspilltra málanna með þeim afleiðingum að Gunna er farin að bylta skipulaginu í piparsveinaíbúðinni hans í Brussel. Þetta er sko þjóðleg íslensk ástarsaga! Posted by Hello

|


23:53 -


Ég smellti mér í heimsókn um síðustu helgi og hitti þau Kristbjörn (Bjössa). Mér lýst vel á ráðahaginn og þó Brussel hafi e.t.v. ekki ímynd borgar ástarinnar þá eru innanum og saman við stofnanirnar art-nouveau strætóskýli sem gefa svona skemmtilega ástar-stemmningu. Posted by Hello

|


23:52 -


Brussel, sem Neil Kinnock kallar the dogshit capital of the world, kom mér verulega á óvart og reyndist mun fjölbreyttari og smartari en ég hefði getað ímyndað mér. Við nutum þess að Bjössi er á heimavelli og lóðsaði okkur um. Þannig smelltum við okkur á bjórkvöld hjá Íslendingafélaginu og hittum ekta íslenskt jakkafatalið auk þess sem ég lenti á agalega góðri útsölu. Posted by Hello

|


23:51 -


Á gönguför milli síðdegisbaranna var stoppað hjá EFTA til að fara á klósettið - mjög þjóðlegt svo ekki sé meira sagt (enn þjóðlegra hefði náttúrlega verið að pissa á götuna). Fullt af sniðugum börum og mikil stemmning í kringum bjórinn í Brussel. Það er nú líka aldeilis áfangi að fara á klóstið hjá svona alþjóðastofnun, það fer á CV ið ásamt salernum Alþingis og Reykjavíkurborgar. Kannski mana ég mig upp í að fá að taka Moggann með í næstu ferð...Posted by Hello

|


23:48 -


Næsta dag smelltum við okkur á risastóran markað þar sem var hægt að kaupa allt milli himins og jarðar, m.a. þessu expressívu textíla. Mér var nú hugsað til Kiddýar, hún gæti nú dílað við arabana og fengið rósótt glansefni í næstu línu!. Þaðan var farið í krækling og hvítvín en sjávarfang virðist vera frekar ?big thing? í veitingahúsasenunni. Eftir ýmiskonar rólegheit var síðan komið að hápunkti ferðarinnar sem var leiðangur í franska verslunarveldið Carrefour - stærsti markaður sem ég hef komið, í hingað til! Stærðin var gríðarleg en að sama skapi fannst mér inntakið ekki standa undir væntingum. Hollensku markaðirnir eru þróaðri þó auðvitað hafi verið fullt af spennandi stöffi, t.d. ýmsum torkennilegum smáfuglum í kjötborðinu (ímyndið ykkur hnefastóran, brúnan kjúkling). Posted by Hello

|

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

13:47 -


Köln

Á laugardag slóst ég í för með þeim Claudiu og Kati til Kölnar, sem reyndist einungis í rúmlega klukkustundar fjarlægð með ofsafengnum (að mér fannst) akstri Kati, en hún ber einmitt ættarnafnið Geschwind sem þýðir hratt eða eitthvað í þá veruna. Við fengum m.a.s. að krassa hjá Kati og nutum gestrisni foreldra hennar, Harri og Deliu - mikið hæglætisfólk en færðust þó öll í aukana þegar talið barst að hollenskri ónákvæmni og skipulagsleysi. Þó heilmikil innistæða sé fyrir margtuggðum staðalmyndum Evrópuþjóða virðist vitund álfubúa svo gegnumbleikt af pólitískri rétthugsun að hvers kyns milliþjóðaskop er litið hornauga - m.a.s. miklu hornauga eins og Trausti veðurstofustjóri segir um hæpin hitamet. Þannig fannst mér bráðfyndið að segja á bakaleiðinni þar sem við brunuðum í gegnum þýskar iðnaðarlendur sem ilmuðu af brennisteini að ég hefði fundið ójöfnu í veginum og því hlytum við að vera að nálgast Holland, til að kóróna dónaskapinn sagðist ég skömmu áður en þær skutluðu mér heim finna fyrir enn tíðari ójöfnum og því hlyti Belgía að vera á næsta leiti. Þetta fékk nett hornauga - sem er náttúrlega tóm hræsni því eins og í öllum góðum kompaníum elska álfubúarnir að tala illa hver um annan en virðast reyna að dulbúa það sem uppbyggilega og umhyggjusama gagnrýni. Mest langar mig að vita hvernig þeir láta þegar engir útlendingar eru nálægt - hvernig skyldu fimm Þjóðverjar tala saman?

Á meðfylgjandi mynd sjáumst við Kati og Claudia allt að því skiptinemalega hamingjusöm fyrir framan dómkirkjuna í Köln. Posted by Hello

|

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

17:41 -

Spennufall dauðans

Núna er hafin hörð barátt við að koma sér aftur að verki á nýrri önn. Seinna prófið var á fimmtudag og þaðan var farið beint á barinn þar sem komist var að ÍsAnglóGermönskum konsensus þess efnis að áfengisþolið hafði látið verulega á sjá í bókasafnslífsstíl síðustu vikna. Mér fannst bara eins og heil verslunarmannahelgi hefði liðið hjá þegar ég tók strætóinn heim kl. hálf ellefu - fylliríið kostaði 18 evrur, með mat. Það væri gaman að útskýra þetta fyrir okursvínunum á Sólon, Kaffibrennslunni og Vegamótum.

Á föstudagskvöld var sest að sumbli hjá Ulli, sem er þýsk en bjó um tíma í Bandaríkjunum. Kærastinn hennar, hann Bruce, er frá New Jersey, og gæti svei mér þá verið klipptur úr Sopranos. Alltaf hressandi að hitta ekta Kana. Bruce er harður andrepúplikani, eins og flestir í NJ að hans sögn, enda segir hann fólkið í ?the square states? bera ábyrgð á Bush, ?man you got some backwards people there? - Iowa mun vera með því allra versta. Plottið er semsagt að meðan þetta religious right lið fær að halda byssunum sínum og banni við fóstureyðingum þá fær forsetinn blankó tékka á allt annað, og getur leyft vinum sínum að raða sér á spenana.

Sjitt það verður erfitt að fara að sofa í kvöld (nótt) þegar tölurnar byrja að detta inn frá USA. Hingað til hef ég 90% viss um að GW muni taka þetta en síðustu daga hef ég orðið vonbetri um að Kerry setjist í Vesturálmuna. Samkvæmt Repúplikanaspeki er það ígildi heimsendis ef ?Massachusetts liberal? verður forseti (enda þurftu þeir að drepa Kennedy) svo það verður gaman að sjá hvað verður. Þó maður voni innilega að GW verði sendur aftur til Texas svo opinberunarbókin hætti að vera heimild við mótun utanríkisstefnu voldugasta ríkis veraldar þá finnst mér pólitík Kerrys ekki merkilegur pappír, þó maðurinn sjálfur sé töff. Myndirnar af því þegar hann bara vitni fyrir framan þingnefndinni um Víetnamstríðið eru algerlega heillandi - að fylgjast með þessum manni, 27 ára gömlum (jafngömlum mér/okkur) bera vitni um hörmungar stríðsins og svara fyrir sína kynslóð er alveg magnað. Mælskan og dramatíkin er ótrúleg.

Auðvitað er þessi pólitík alls ekki trúverðug, kosningarnar eru plútókratískar og spurning hvor kandídatinn er studdur af verri sérhagsmunahópum. Að lesa stefnuskrárnar er eins og góður dagur á the postmodern generator (fann þetta á Silfri Egils - Egill virðist ætla að elta póstmódernistana eins og Símon Wiesenthal og minna þá á fortíðina) - samhengislaust bull sem enginn skilur.

Úff þá er málið að fara að setja kraft í nýja önn - tveir þræláhugaverðir (og þrælstrembnir við fyrstu sín) kúrsar framundan. Mér fannst ég samt algerlega á heimavelli í þjóðhagsfræði opinna hagkerfa þegar franski prófessorinn (sem virðist vera alger ofviti) fór að tala um gengi gjaldmiðla. Stórþjóðafólkið sem hefur aldrei þurft að hafa áhyggjur af svoleiðis var alveg að fara á límingunum en ég hugsaði hlýlega til allra hádegismatartímanna þegar pabbi fjargviðraðist yfir því að gengið væri alltof hátt skráð. Posted by Hello

|


17:40 -


Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd voru Ulli og Bruce hress - og það er alltaf hressandi að hitta Ameríkana. Posted by Hello

|


17:39 -


Rétt til að gefa gera amerísku stemmninguna skemmtilegri var Brian vinur Bruce með í Evróputúrnum. Ólíkt Bruce sem er evangelísk kjötæta er Brian grænmetisæta og drekkur ekki, ?just pure herbs man?. Hann semsagt drakk te og fékk sér í haus. Þegar átan gekk yfir slafraði hann í sig mangói. Hér eru Ulli og Brian í góðum gír. Posted by Hello

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.