
Var að ljúka við afanginn af dádýrakjöti með rótargrænmeti sem ég eldaði á föstudagskvöld. Er ekki frá því að það hafi verið betra núna, eins og orðið örlítið grafið í kryddinu af grænmetinu. Annars er þetta kjöt alveg magnað. Keypti það á bændamarkaðinum. Öðruvísi en íslenska villibráðarbragðið, enda aðeins öðruvísi aðstæður. Þarf að smakka aftur til að kveikja almennilega á því. En lyktin þegar kjötið var tekið úr umbúðunum, algjör útilykt, bara köld og blaut heiði. Stórkostlegt! Enda verður mitt fyrsta verk þegar kjötfrelsi kemst á (í boði Evrópusambandsins (þegar Framsóknarmenn allra flokka gefast upp á að draga lappirnar og innleiða evrópsku matvælalöggjöfina til fulls)) að skella dádýri í töskuna og hafa með í jólamatinn. Mun syngja Óðinn til gleðinnar hástöfum þegar ég geng framhjá tanndregnu skinkueftirlitinu í Leifsstöð.
Annars skellti ég mér aftur á markaðinn á laugardag og ætlaði að kaupa exótískar kartöflutegundir (sem eru víst aðalmálið hjá sælkera- og heilsuliðinu nú um stundir) en karftöflumaðurinn mætti ekki í þetta skiptið. E.t.v. af því að markaðurinn var núna í Queens Park sem er svona venjulegt „middle class“ hverfi en á síðustu helgi var hann í West End þar sem býr svolítið sjálfsmeðvitaður og uppskrúfaður „middle class“. Sennilega auðveldara að selja fjólubláar kartöflur þar.
1 comment:
Sigga said...
hahahaha! Það er eitthvað svo náttúrulegt að kjósa með maganum. en ummmmm... nammi nammi möndlukartöflur, þær eru sko góðar! Verð að prófa þessar bláu við tækifæri.
Gleðilega páska!