<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d1201978586094407619', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe", messageHandlersFilter: gapi.iframes.CROSS_ORIGIN_IFRAMES_FILTER, messageHandlers: { 'blogger-ping': function() {} } }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

þriðjudagur, júlí 31, 2007

13:22 -

Byrjar þetta rugl í SUS um að ekki megi birta álagninarskrárnar. Borgar Þór flytur hjartnæma ræðu um að launakjör fólks séu þeirra einkamál á mbl.is. Mér er nær að halda að hér sé um hagsmunagæslu að ræða en umhyggju fyrir einstaklingsfrelsinu. Hluta af þeim tvískinnungi sem einkennir framkvæmd markaðshyggjunar og er oft nefndur pilsfaldakapítalismi. Þ.e. við fylgjum kenningum um frelsi og markaðshyggju eins langt og þær henta okkur strákunum.

Til að markaðir virki þarf að ríkja gagnsæi. Upplýsingar um verð og vöru þurfa að liggja fyrir á hverjum tíma. Þannig getur vinnumarkaður aldrei virkað vel, frekar en aðrir markaðir, ef ekki liggja fyrir upplýsingar um kaup og kjör. Þannig dregur launaleynd úr skilvirkni vinnumarkaðarins. Í skjóli ógagnsæis þrífast innherjaklúbbar og samtryggingarfélög.

E.t.v. er birting álagningarskrárinnar ekki gagnlegasta tækið til að tryggja gegnsæi á vinnumarkaði en þar hefur verið haslaður völlur í baráttu þeirra sem vilja opna vinnumarkaðinn upp á gátt og þeirra sem trúa á launaleynd.

Væri ekki nær fyrir SUS að berjast fyrir alvöru markaðsumbótum en að eyða orkunni í einhvern íhaldshégóma?

|

föstudagur, júlí 13, 2007

13:36 -

Einhver, örugglega Gummi eða Bóas, sagði mér að Shins væri súper-gott band. Ég fór að leita og fann bara eitt lag með þeim á plötu með tónlist úr brimbrettakvikmyndinni Sprouts. Sú plata er frábær: http://www.emusic.com/album/Various-Artists-Record-Collection-Sprout-Soundtrack-MP3-Download/10991109.html

|

fimmtudagur, júlí 12, 2007

10:35 -

Hvaða hundur er þetta í Dofra Hermannssyni að sveitarstjórnarmenn séu eitthvað minniháttar fyrir að skoða olíuhreinsunarstöðvar?

http://dofri.blog.is/blog/dofri/#entry-260269

Dofri hefur oft hitt naglann á höfuðið í baráttunni gegn ríkisstyrktu virkjanageðveikinni og þannig hef ég oft verið honum innilega sammála en þarna sýndi hann einmitt það andlit sem industrialistarnir vilja að umhverfisverndarsinnarnir sýni – ásjónu yfirlætisams besserwissers.

Það má bara ekki missa þessa umræðu í pólaríserað karp milli aðdáenda og andstæðinga hugsanlegrar olíuhreinsunarstöðvar. Við verðum að leita að rökunum og spara retóríkina – eða lærði fólk ekkert á Kárahnjúkadebatinu? Læt ekki draga mig út í svona heimamenn vs. 101 kjaftæði!

Að sjálfsögðu er öllum fullkomlega heimilt að vera á móti olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum á tilfinningagrundvelli einum saman. Og fólki er fullkomlega frjálst að finnast öll atburðarásin mjög hallærisleg. En menn sem standa þetta framarlega eiga ekki að vera með Erpískan skæting í opinberri umræðu. Það eru allir búnir að fá upp í kok af þessum endalausa skotgrafarhernaði sem helstu álitamál þjóðarinnar virðast alltaf rata í.

Hugmyndin um olíuhreinsunarstöð undirstrikar einmitt að byggðastefna er umhverfisvernd. Trúi ekki öðru en við getum virkjað umhverfisverndarsinnana í að þrýsta á uppbyggingu háskólastigsins á Vestfjörðum með okkur. Tóti Tarfur bendir einmitt á það í Blaðinu í dag að upplögð mótvægisaðgerð gegn niðurskurði aflaheimilda séu rannsóknir á þorskeldi. Það væri einmitt dæmi um háskólastarfsemi sem væri líkleg til að hafa mikil jákvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1279728

|

þriðjudagur, júlí 10, 2007

16:31 -

Við heimkomuna síðasta haust tók ég ekki inn sjónvarp. Reynslan af því hefur góð. Þó ekki hafi ennþá verið lokið við Ódysseif (né byrjað) þá tókst að lesa nokkrar bækur og hlusta á meiri og fjölbreittari tónlist en oft áður. Tókst m.a.s. að læra fáein orð í frönsku og brjótast þau iðulega upp á yfirborðið á vissu drykkjustigi. Ókosturinn við sjónvarpsleysið er svo að maður missir af merkilegu efni.

Gísli bróðir var t.d. í fréttum Ríkissjónvarpsins á fimmtudagskvöldi af því einn af bátunum hans hafði verið staðinn að meintum ólöglegum veiðum og hann var ekki sáttur við aðferðir gæslunnar.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338118/5

Eftir ábendingu um þetta horfði ég á hann í vefvarpinu og fannst hann taka sig mjög vel út. Flutti mál sitt mjög yfirvegað og virkaði mjög afslappaður á skjánum. Þetta verður kannski second carreer hjá honum: Á tali hjá Gísla Hemm!

En án gríns þá hljóta menn að hlusta á þessa gagnrýni um að gæslan sé að nota staðsetningarbúnaðinn sem er til öryggiseftirlits til einhverskonar fjarveiðieftirlits. Hér er um algjört prinsippmál að ræða. Ef á að taka upp slíkt eftirlit þarf til þess lagaheimild og hún er ekki veitt nema að gengnu mörkuðu ferli. Áhugasamar löggur eiga ekki að búa til reglurnar jöfnum höndum við löggslustörfin. Það hlýtur hver maður að sjá hvernig það myndi enda. Svo hafði lokunin ekki verið tilkynnt með fullnægjandi hætti svo það voru ýmsir gallar á þessu hjá þeim. Þeir ættu kannski að venja sig við að fylgja lögum Alþingis og halda sig innan fjárheimilda áður en þeir fara að segja öðrum fyrir verkum.

|

mánudagur, júlí 09, 2007

20:32 -

Við vinirnir héldum grillveislu í garðinum hjá Geira og Leu um daginn. (Uhhh, reyndar fyrir mánuði síðan.) Finnst tilvalið að deila myndunum með þjóðinni. Þarna var svo mikið af fallegu fólki saman komið í góðum fíling með börn og hunda að halda mætti að myndirnar væru úr kynningarbæklingi sænska utanríkisráðuneytisins um yfirburði hins norræna lífsstíls.























Vesen á þessu Blogger kerfi, var búinn að setja inn margar fleiri myndir en svo týndust þær allar. Glatað!

|

föstudagur, júlí 06, 2007

11:07 -

Ríkisstjórnin gaf afskaplega loðin fyrirheit um mótvægisaðgerðir. Þau segjast ætla að efla innviði með fjárfesetingu í vegum og fjarskiptakerfi, fjölga opinberum störfum, flýta viðhaldi á opinberum byggingum, styrkja Atvinnuþróunarfélög og Byggðastofnun, stuðla að endurmenntun og huga sérstaklega að atvinnumálum kvenna. Síðan er kveðið á um að unnið verði eftir tillögum Vestfjarðanefndar. Engar tíma- né tölusetningar.

Sönnunarbyrðin hvílir á ríkisstjórninni að sýna fram á að hún hafi einhvern áhuga á sjávarbyggðunum. F.o.f. snýr þetta þó að Vestfjörðum enda sjávarútvegur tæplega tvöfalt mikilvægari þar en á þeim svæðum sem eru næst mest háð útveginum. E.t.v. á maður ekki að vera svona dómharður. Kannski situr stjórnin einfaldlega uppi með það að geta ekki sagt byggðastefna upphátt því þá trompist meðlimir hverfafélaga mið- og vesturbæjar eða Hóla og Seljahverfa.

Held að forsætisráðherra sjálfur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann kvað upp úr með að mey skuli að morgni lofa.

Síðan hrópaði á mann að ekki orði var eytt í eflingu háskólastigsins á landsbyggðinni. Áhugi minn á þeirri leið í byggðaþróun byggist ekki á því að mér sé uppsigað við feðraveldið eða hafi hlustað of mikið á Sigurrós. Niðurstöður fræðimanna hníga einfaldlega að því að uppbygging héraðsháskóla sé virkasta leiðin í byggðaþróun og sú sem fari lang best með almannafé. Fagna innilega ef farið verður í samgöngu- og fjarskiptabætur og eins ef hugað verður að opinberum störfum því það eru leiðir sem virka. Set hins vegar stórt spurningamerki við eflingu lánastarfsemi byggðastofnunar. Hvaða rugl er það, ætla menn að fara dreifa bitlingum? Ætla stjórnmálamenn að fara að handbjarga einstaka sjávarútvegsfyrirtækjum? Er ekki búið að þrautreyna þá leið?

|


10:18 -

Borðaði lax og drakk hvítvín með Elínu, Gumma og Evu í gærkvöldi, það var ljúft.

Núna sit ég með hnút í maganum, eins og sjálfsagt margir fleiri, og bíð eftir beinni útsendingu frá blaðamannafundi um niðurskurð á þorskveiðum og mótvægisaðgerðum. Býst við hinu versta, engri endurskoðun á umhverfi hafrannsókna og málamynda aðgerðum í byggðamálum. Vona samt það besta, hafrannsóknir verði auknar og vísindamönnum gert mögulegt að keppa um fjárveitingar, að farið verði í alvöru byggðaþróun með fjárfestingu í samgöngum, uppbyggingu rannsóknastarfsemi, endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eflingu fjarskipta, aðgengi að opinberum störfum, svæðisbundinni gagnsöfnun, endurskoðun hagstjórnar m.t.t. svæðisbundinna sjónarmiða og niðurfellingu fyrirgreiðslu vegna stóriðju svo veigamestu póstarnir í fjölbyggðastefnu séu nefndir.

Mikið svakalega er ég samt feginn að Einar K. er sjávarútvegsráðherra en ekki Árni Matt. Sá hefði bara afgreitt málið án nokkurar umhugsnunar og slökkt á símanum. Ég held að Einar taki málið mjög til sín.

|

þriðjudagur, júlí 03, 2007

09:30 -

Hægri pólitíkin á Íslandi virðist ekki sérstaklega hægri sinnuð núorðið. Frekar en að fylgja rökum hagfræðinnar eins og Blair og Brown hafa gert í Bretlandi, t.d. með innleiðingu fjárlagareglu, eflingu sjálfstæðis og fagvitundar seðlabanka og innleiðingu á einkaframkvæmd í heilbrigðis- og menntageirunum virðist mottóið vera: Það sem er gott fyrir verktaka, gröfukarla og peningamenn er gott fyrir Ísland.

Þannig er t.d. í gangi einkavæðing á hitaveitu Suðurnesja sem er langt frá því að fylgja aðferðafræðilegum kröfum sem gerðar eru til slíkra verka. Í staðinn fyrir að um vandað útboð sé að ræða, eins og í tilviki Landsímans, þá situr Árni frændi minn Sigfússon í heita pottinum með einhverjum einkaþotumönnum og vílar um eignir sveitarfélaganna og auðlindir þjóðarinnar.

Harðlínuvinstrimaðurinn Jón Bjarnason skrifar stórgóða grein um nýtingu orkuauðlindanna á Vísi.is í dag. Alveg eins og Berlínarmúrinn féll hefur maður nú upplifað að skynsamlegasta pólitíkin getur stundum komið frá vinstrimönnum. Það þýðir ekki að vera með flokkshund, maður verður bara að viðurkenna það.

http://www.visir.is/article/20070703/SKODANIR03/107030083/1222/SKODANIR

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.