<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/4016206?origin\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

mánudagur, nóvember 27, 2006

22:31 -


Fór vestur um helgina og hafði það afskaplega náðugt. Gerði ekki neitt nema hanga með fjölskyldunni, borða og spjalla. Ætlaði að koma meiru í verk en datt svo bara alveg í slökunargírinn. Elduðum hreindýr og næs.

Við Hilmar fórum á Bond í kvöld, alger snilld!

Kiddý og Tóti, til hamingju með litla kút sem fæddist 25. nóvember. Nú er einum bogamanninum betra. Og koma svo með alveg dúndrandi þjóðlegt nafn, Egil Skallagrím eða álíka..

Og Eiríkur, til hamingju með nýju bókina. Síðasta var fín svo ég ætla að lesa þessa.

Hlóð niður Sufjan Stevens samkvæmt meðmælum Kristjáns Freys. Snilldarmúsík, ferskari en spínat.

Hitti Þórarinn Ólafsson í ríkinu fyrir vestan. Við tókum ekki fyrir umræðuna um innflytjendamálin en vorum staðráðnir í að gera það í góðu tómi.

Eiríkur var líka búinn að afgreiða þetta, í bili a.m.k, af sinni alkunnu snilld.

Eiki pantaði líka álit á frétt á bb.is um að Halldór Halldórsson hefði verið að opna skrifstofu Landssambands sveitarfélaga í Brussel.

Auðvitað er það þannig með hvers kyns utanríkisþjónustu að það orkar mjög tvímælis hvenær hún skilar einhverjum ávinningi og hvenær hún er bara spjall. Þannig verður það líka með þennan kontór, vafalítið mjög erfitt að festa hendur á því hvort þetta er að skila einhverju. Ég ímynda mér að þess eini starfsmaður eigi fyrst og fremst að safna upplýsingum og þekkingu á Evrópumálum. Og menn hafi fyrst og fremst áhuga ýmsum styrkjasjóðum sem við getum nýtt í dag og stuðningskerfinu sem við gætum fengið aðgang að. Svo er það líka sígilt bragð lobbíista er að segja að hitt og þetta sé á leiðinni í Evró-reglum og þess vegna þurfi að huga að upptöku þess. Þannig er þetta e.t.v. leikjafræðileg hugsun hjá sambandinu að auka trúverðugleika slíkra áróðursbrellna.

Þekkingin á kerfinu getur verið mjög gagnleg. T.d. ef sambandið getur útlistað hvernig er staðið á bakvið dreifbýlissveitarfélög í Evrópusambandinu meðan öll nema Akureyri og nokkrir smáhreppar eru í fjárþröng. Ef sá samanburður upplýsir fáránleika okkar kerfis þá getur hann gagnast við að afla breytingum fylgi.

Sjálfsagt mætti byggja þekkinguna upp í gegnum tölvu hvaðan sem er úr heiminum. En ég held það sé mikið öflugra að hanga í Brussel upp á að geta tekið lönsa með öðru Evrópuliði og farið á pöbbinn eftir vinnu til að fá fréttir frá öðrum Evrópukontóristum. Þannig fylgja því Marshallísk ytri áhrif að starfa að Evrópumálum í Brussel.

Hvað það varðar að Haddi sé þarna úti að vesenast í þessu en ekki stemma af viðskiptamannareikninga Ísafjarðarbæjar eða reka á eftir köllunum í áhaldahúsinu þá held ég að hann geri mikið meira gagn að afla tengsla og lobbía fyrir málstað bæjarins og sveitarfélaga á landsbyggðinni. Nýja djobbið sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir náttúrlega að verkum að það þarf að dreifa ábyrgð og völdum vegna daglegs reksturs á fleiri bæjarfulltrúa og starfsmenn en stóra málið fyrir Ísafjarðarbæ og önnur sveitarfélög utan vaxtarsvæða (landsbyggðin að frátöldu nágrenni höfuðborgar, Akureyri og mið-Austurlandi), er að fá í gegn nýskipan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Einhverjar krónur í rekstri til og frá eru minna málið. Ég held að reynslan úr sjálfstæðisbaráttunni hafi sýnt hversu miklu máli það skiptir að hafa á að skipa góðum málfylgjumönnum sem hafa aðgang að hjarta kerfisins. Þannig vil ég láta reka Hadda ef hann hættir að nenna að fara til Reykjavíkur og hangir bara á kontórnum á Ísafirði allt árið.

Þannig er ég frekar jákvæður gagnvart þessum sveitarfélagakontór sérstaklega og sé marga möguleika í stöðunni. En tortryggi náttúrlega utanríkisþjónustur, sem aðrar stofnanir, almennt.

|

mánudagur, nóvember 20, 2006

00:17 -

Mér finnst manni nú skylt að vísa sérstaklega í bloggið hans Eiríks Arnar(http://www.fjallabaksleidin.blogspot.com/) sem hefur staðið í ströngu að undanförnu við að halda uppi vörnum gegn ömurlegu lýðskrumi þeirra sem ætla að sækja sér fylgi með því að ala á tortryggni í garð útlendinga. Dáist af eljusemi Eiríks og finnst ég hálf lélegur að hafa ekki lagt neitt til þessa mikilvæga máls.

Furða mig líkt og Eiríkur á þessari æðisgengnu múslimafælni sem virðist grassera.

Þessi endemisvitleysa um að útlendingar séu að grafa undan vinnumarkaðinum stenst ekki skoðun. Hún er hins vegar lítill angi af mjög hættulegum viðhorfum sem geta komið efnahag heimsins á kaldan klaka. Einangrunarhyggja hvers kyns mun alltaf skaða heildarhagsmuni mannkyns. Og ekki síður hagsmuni þeirra sem ætlunin er að "vernda" en þeirra sem standa utan múranna.

|

sunnudagur, nóvember 19, 2006

23:24 -

Fór á Mýrina í kvöld í góðum félagsskap þeirra Elínar og Hilmars. Gaman að fara á íslenska mynd sem er alvöru bíómynd með hljóði og vel leikin. Meira að segja um eitthvað, ekki bara art of landscape. Og gerist líka í samtímanum. Músíkin er alveg frábær og gaman að lesa að Mugison hafi fengið Edduna fyrir - á hana vel skilda.

Á laugardagskvöld sá ég frumflutning á nýrri íslenskri óperu eftir Karólínu Eiríksdóttur og Sjón. Margt mjög flott og forvitnilegt í þeirri sýningu, en bara pínu leiðinleg á köflum. Hefði þurft að spá aðeins meira í því. Er samt vel tilbúinn að þola það fyrir að menn séu að búa til nýjar óperur á Íslandi. Það er náttúrlega magnað! Vonandi bara að menn læri af reynslunni og geti gert betur næst. Söngurinn var aftur á móti mjög flottur og aðdáunarvert hvað söngvararnir héldu þessu vel gangandi. Sérstkalega magnað hvað þeir náðu að skila textanum vel og fór ekki á milli mála að dæmið hafði verið hugsað á íslensku frá upphafi.

Í gegnum tíðina hefur mér virst sem u.þ.b. annað hvert skipti sem maður fer í leikhús sé skemmtilegt. Þess vegna gerir maður það mjög oft upp á upplyftingargildið, þ.e. að klæða sig upp, mæta í fína leikhúsið og fá sér einn gráan í hléi. Þess vegna fer ótrúlega í taugarnar á mér hvað sumt fólk er druslulegt til fara. Sér í lagi er það fáránlegt í óperunni, ekki bara á frumsýningu heldur frumflutningi! Hvað er að þessu flauels og rúllukragaliði? Hefur það ekki vott af respekt fyrir tilefninu og forminu? Er þetta e.t.v. form tilgerðar, að menn séu svo merkilegir með sig að þeir séu hættir að dressa sig upp fyrir mannamót? Hvort eð er á gestalista. Sumpart er þetta vafalítið gamalt 68 lið sem telur sig vera í uppreisn gegn íhaldinu og borgarastéttinni. Ekki get ég skilið það. Tæpast að maður sjái nokkurn mann með einglyrni nokkurs staðar - hvað þá í ýmsum menningarstofnunum miðbæjarins. Þetta er bara lúðalegt!

Líklega passar þetta með tíðni góðra sýninga því áður fór ég á Patrek 1,5, um tvo homma sem ættleiða, og það var alveg ágætt.

Þetta varð sannkölluð menningarhelgi því á föstudagskvöld var farið á Sykurmolana. Fantafínir tónleikar og ekki spillti fyrir mannlífsflóran á svæðinu. Alveg 5.000 króna virði bara að fylgjast með fólkinu. T.d. ótrúlegum fjölda nörda sem virðast harðir Sykurmolaaðdáendur. Hefði maður viljað komast í AD&D spil var þetta rétti vettvangurinn til að kynnast fólki. Svo voru FL-grúppíurnar náttúrlega sjów út af fyrir sig. Fullorðið fólk á rassgatinu og bankamenn í unglingagallabuxum. Grunar reyndar að mikið af þessu bissnessfólki hafi bara verið í Hollí þegar Sykurmolarnir voru að ryðja sér til rúms og ekki spáð mikið í indí-senunni. Skil það á vissan hátt vel. Það væri nú eitthvað að fá ljós upp úr dansgólfinu í staðinn fyrir reykfylltar þunglyndisbúllurnar í miðbænum.

Menningunni allri var svo rennt niður með alveg meiriháttar fínu innflutningspartíi hjá Valda og Ernu. Tóm gleði og glæsilegar veitingar sem mér var afskaplega ljúft að rétta Valda hönd við að útbúa ásamt fleirum (m.a. Bóasi Halllgrímssyni sem verður að fá lof fyrir að taka mörgum glósum um framvarðastöðu sína í íslenskri hómó-erótík (Skyr-drengurinn) af stakri karlmennsku). Sá dagur var reyndar hálfgert ævintýri (nett menntó flassbakk) þar sem við æddum um bæinn, í bullandi tímahraki, undir styrkri leiðsögn Guðmundar Birgis þar til Lada Sport bíll þeirra Jóns Þórs dó utan við Nóatún. Geiri kom og bjargaði okkur þannig frá barmi veitingaklúðurs.

Tók engar myndir um helgina og hef ekki framkallað filmurnar síðan um daginn.

|

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

21:48 -

Hef notið þess að vera heima í rólegheitunum (æfing fyrir jólin) eftir stuðhelgi. Hélt loksins innflutningspartí á laugardag. Til að koma til móts við sjónarmið fjölskyldufólks var byrjað kl. 5 síðdegis. Gestir voru uppundir 30, þar af telst mér að hafi verið 7 börn og 4 óléttar konur. Af sem áður var mætti kannski segja. En mér finnst ekki. Frekar breyting á formi en inntaki. Ég á mjög skemmtilega vini og þeir eiga náttúrlega mjög skemmtileg börn. Svo er líka ekki það mikið af dóti í íbúðinni að púkarnir geta alveg hlaupið í hringi án þess að neitt alvarlegt gerist. Rauðvín og róandi músik kemur sjaldan í betri þarfir en einmitt undir þeim kringumstæðum. Þannig var þetta svaka stuð. Og leystist náttúrlega upp í hefðbundið partí áður en yfir lauk. Enda er mjög forvitnilegt að telja upp eftirlegumunina sem hafa verið að koma fram vikunni. Poki með bleyjum og þurrkum, flaska af bacardi, viskíflaska, kerra, gulur bangsi, a.m.k. 2 eða 3 bílar og ýmislegt fleira sem kemur í ljós undir húsgögnum.

Vikuna áður fékk ég flensu sem var frekar glatað. Sérstaklega af því ég veiktist í árshátíðarferð með vinnunni til Ljubljana í Slóveníu. Verð bara að fara þangað aftur, enda flottur staður og bæði gott og ódýrt að borða og drekka þar. Til Ljubljana kom ég frá Glasgow þar sem ég var að útskrifast frá Stratchlyde. Að sjálfsögðu var það tóm gleði. Bæði var ég mjög montinn yfir að útskrifast með láði, eða distinction eins og Bretarnir segja, og svo eru skosku skólafélagarnir algjörir snillingar. Útskriftin var afar pompmikil svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mikið búningadrama og skrautleg ceremónía. Skilst að skosku skólarnir séu jafnvel meira fyrir pompið en þeir ensku. Svo bætir víst enn í að Strathclyde er háskóli samkvæmt tilnefningu krúnunnar en ekki ákvörðun borgaralegra yfirvalda. Þetta var ægilega dramatískt, rektor sat á hásæti fyrir aftan veldissprota skólans og svo var hver kallaður upp til að krjúpa fyrir framan hann áður en skírteinið var afhent. Pottþétt svona had to be there moment. Lifði mig alveg inn í stemmninguna þá en finnst mjög furðulegt að hugsa um þetta frá viðhafnarlausa Íslandi.

Strákanir í bekknum græjuðu sig allir með skotapils fyrir útskriftina sem reyndist snilldarlega. Mjög þægileg spariföt. Kæmi sér nú vel hérlendis ef fólk klæddi sig upp með því að vefja utan um sig ullarteppi. Alger snilld í leigubílaröðinni!

Ég á hins vegar eftir að græja myndir af þessum dæmum því ég fann ekki stafrænu vélina til að taka með út og svo var hún óhlaðin um síðustu helgi. Þess vegna fór myndataka fram á einnota myndavél sem á enn eftir að framkalla. Það kemur að því...

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.