<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/4016206?origin\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

sunnudagur, febrúar 27, 2005

22:48 -


Sunnudagar eru snilldargóðir til að horfa á sjónvarp, þó svo að Húsið á sléttunni sé löngu hætt. Þökk sé allri þessari margmiðlun getur maður horft á Sunnudagsþáttinn og Silfur Egils á netinu. Og hlustað á Dóra Jóns í morgunsjónvarpinu á miðvikudögum.

Það eru nú margt í þessum stjórnmálaþáttum sem er ástæða til að æsa sig yfir en það sem gekk algerlega fram af mér voru væningar Helga Hjörvars um íslensku krónuna. Sú tíska skýtur upp kollinum annað slagið að tala um sveiflur á gengi krónunnar með fyrirlitningu. Þetta er alger della. Styrkur krónunnar og gagnsemi felst einmitt í því að hún sveiflast. Þannig er hún mjög mikilvægt tæki til að koma á ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Núna þegar er peningaflæðið í landinu er sem mest hefur hún styrkst og beinir þannig peningunum út úr landinu aftur, í formi fjárgestinga og neyslu á erlendis. Þegar slaknar á peningaflæðinu á hún eftir að veikjast svo bílarnir og ísskáparnir verða dýrari, viðskiptakjör útflutningsins batna og viðskiptahallinn snýst við.

Í fljótu bragði hugsa ég að krónan ásamt pundinu og evrunni séu einu gjaldmiðlarnir í Evrópu sem fljóta. Restin er öll meira og minna tengd við annan hvorn síðarnefndra gjaldmiðla. Sem betur fer eru ennþá til dæmi um íslenska pragmatík eins og flot krónunnar en það er eitthvað sálfræðilegt sem gerir það að verkum að mörgum finnst fastgengi hljóma ákjósanlegar heldur en flotgengi. Ef mönnum þykja sveiflurnar óþægilegar þá verður að taka á efnahagsstrúktúrnum sem býr þær til. Af hverju rjúka menn t.d. upp til handa og fóta og kaupa sér nýja bíla, bara af því það er hægt að taka lán fyrir þeim? Af hverju var verið að hækka íbúðalánin? Af hverju var ekki skorið niður hjá hinu opinber til mótvægis við álversframkvæmdir?

Krónan býr ekki til sveiflurnar en þær yrðu fyrst hættulegar ef hún væri föst. Lengi lifi íslenska krónan!!! Blessunarlega er Helgi Hjörvar ekki í ríkisstjórn. Posted by Hello

|


22:04 -


Halldór Ásgrímsson er orðinn sammála mér um stofnun háskóla á Vestfjörðum eftir að Albertína lagði fram tillögu á flokksþingi Framsóknar. Nú er bara vonandi að kallinn meini eitthvað með þessu og geri eitthvað í málinu. Hingað til hefur reyndin verið að stjórnmálamennirnir hafa getað spanderað í að byggja um væntingar en síðan vill niðurstaðan vera á aðra leið.

Velti því samt fyrir mér af hverju málið fær svona litla athygli. Mér finnst alveg stórfurðulegt að allra handa kverúlantar séu ekki búnir að finna hugsanlegri háskólastarfesmi á Vestfjörðum allt til foráttu. Vonandi er það þannig að flestum finnst háskóli á Vestfjörðum einfaldlega besta mál og skilja að sú framkvæmd mun gagnast öllum landslýð. Svarta útgáfan er sú að kverúlantarnir vita að það er eitt og annað sagt úti á landi sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Þannig er höfuðatriði að menn mæli árangurinn í þessu máli í stöðugildum, fermetrum og fjárveitingum en ekki í slagafjölda ummæla og glæsileika viljayfirlýsingaundirritana.

Með þessu vil ég ekki gera lítið úr ummælum Halldórs. Þau gera það ennþá augljósara hverjir hafa ekki tjáð sig um málið. Hvað segir Valhöll...

Set með þessa skemmtilegu mynd af Gaullískum módernisma nágrannaborgarinnar Liege. Posted by Hello

|

laugardagur, febrúar 26, 2005

15:51 -


Á sunnudag vorum við ekki alveg nógu hress til að skella okkur á skíði en ákváðum að fara á sleða í staðinn. Sambýlisfólk Bjarna á þessa líka snjöllu sleða, ferlega léttir og fínir, en vita gagnslausir nema á frekar stífu undirlagi. Þannig var að við gengum upp að sveitakrá sem er uppi í fjallinu fyrir ofan húsið þeirra (ferlega töff, bara eins og það væri krá uppi í Eyrarfjalli). Þar sáum við austurrískar kindur sem voru með eindæmum ófríðar, háfættar og mjóar með stórt nef - soldill Hapsborgarsvipur á þeim. Kráin klikkaði hins vegar ekki og bauð upp á þjóðlega rétti úr húsdýrunum. Ég smellti mér á lifur úr heimaslátruðum kálfi, Dáni fékk sér Knödel (bollur úr kartöflum, brauðmylsnu og einverju þannig, ekki mjög low-karb). Þessi gerðum við góð skil með rauðvínsglasi og vorum því í góðum gír þegar við renndum okkur aftur niður brekkuna í ljósaskiptunum. Posted by Hello

|


15:50 -


Leiðin liggur semsagt eftir skógarstígum (sem teldust líklega fullgildir vegir heima enda væntanlega nýttir til að hirða skóginn) og sleðarnir náðu ágætis fart en það var líka auðvelt að stýra með löppunum. Ég sé fyrir mér að Ísfirðingar tileinki sér þetta í framtíðinni enda nóg af hlíðum og svo þegar verður búið að leggja stíga í gegnum skóglendið sem er vaxið upp og er að vaxa upp þá verða aðstæðurnar tipp topp. Gaman að svona einföldu sporti, sérstaklega á þessum síðustu og dýrustu tímum þegar helst ekkert telst sportmennska nema sé búið að eyða hundruðum þúsunda í græjurnar. Posted by Hello

|


15:48 -


Mér skildist á Bjarna að það væri ennþá keppt á þessum sleðum í Austurríki en þeir eru víst nokkurs konar fyrirrennarar bobsleðanna.

Af fleiri matarsögum frá Innsbruck má nefna að ég sveigði áramótaheitið örlítið og skellti í mér bæði Saker tertu og epla-strüdel - algjört æði. En af því Kiddý var að biðja um uppskrift af Svartaskógs kirsuberjatertunni þá fann ég þess á netinu. Hef ekki prufað hana en er viss um að hún er stórgóð. Posted by Hello

|

föstudagur, febrúar 25, 2005

09:24 -


Skíðastíllinn reyndist nú ekki upp á mjög marga fiska í Innsbruck enda hefur skíðaiðkunin meira verið til málamynda síðustu ár vegna beinbrots og snjóleysis. Svo var maður líka á leigugræjum það er varla að marka. En ferlega var nú gaman að komast í brekkurnar (og þessar líka flottu brekkur) í góðum félagsskap þeirra Dána, Dóru og Bjarna.

Rútuferðin gekk ágætlega eftir að rútan kom loksins eftir klukkutíma bið í slyddu á stoppistöðinni í Liege - heillandi menning í þessum frönskumælandi löndum! Kom mér eiginlega á óvart hvað maður gat sofið á leiðinni, en þökk sé vinnutímatilskipun Evrópusambandsins vaknaði maður við reglulegar tuttugu mínútna kaffipásur bílstjórans. Á suður þýskri vegasjoppu fékk ég mér svo bratwurst í morgunmat og lenti loksins í Munchen kl. 11 - klukkutíma á eftir áætlun. Ítalska lestin Leonardo da Vinci klikkaði hins vegar ekki og Dáni og Dóra sóttu mig á brautarstöðina í Innsbruck um þrjúleytið. Ferðin í gegnum Alpana byrjaði sem rómantískur útsýnistúr. Svæðið er náttúrlega gullfallegt og birtan skær eins og á sólríkum vetrardögum á Ísafirði, svo litir verða skarpir og andstæður sterkar - ólíkt misturlegu skímunni sem litar rigningarbarða flatneskju meginlandsins norðan Alpa. Posted by Hello

|


09:23 -


Um miðja leið kom ítalskt skólaferðalag um borð og fyllti lestina. Þvílíkur hávaði og gauragangur þegar fulltrúar þessarar menningarþjóðar mættu um borð. Einhvernvegin tókst þeim að stífla alla vagna svo enginn gat fært sig, og áttu greinilega í mestu vandræðum með að ákveða hver ætti að sitja hvar, í hvaða röð þau ættu að setjast og þannig. Þetta show var náttúrlega óborganlegt. Amerískur snjóbrettagaur festist inni í þvögunni og reyndi að bjarga sér út kurteisislega þar til hann gjörsamlega sprakk á limminu og gargaði að hann þyrfti að komast út úr lestinni á næstu stöð - hann rétt marði það eftir miklar forfæringar á töskum og fólki. Posted by Hello

|


09:21 -


Bjarni býr ásamt Tínu spúsu sinni í flottu húsi sem þau samleigja ásamt fleira fólki. D&D fengu þá hugmynd að launa gistinguna með því að slá upp góðri matarveislu á laugardagskvöld og var úr vöndu að ráða að setja saman matseðil fyrir 12 manns sem þyrfti að vera hægt að framkvæma í frekar litlu eldhúsi. Þannig mættum við í stórmarkað til að tækla málið kl. 16:55. Starfsfólkið var í óða önn að tæma kjötborðið enda reyndist markaðurinn loka kl. 17. Eina sem við gátum fundið í snarheitum í hrakvali kjötborðsins var snitsel sem við skelltum í innkaupavagn ásamt bjórkassa og slatta af léttvíni. Þegar á hólminn var komið þótti okkur það heldur bratt að koma í heimsókn frá Íslandi og elda Vínarsnitsel oní heimamenn en þeir tóku framtakinu vel og sögðu snitselið ekki oft á borðum í seinni tíð. Þannig féll uppskriftin hans Sigurðar L. Hall vel í kramið, Dijon sinnep, pipar og salt í eggjahræruna, vel af raspi, steikt upp úr miklu smjöri, skreytt með sítrónusneiðum og kapers og borið fram með grænum baunum og kartöflumús. Fyrsta flokks retrófæði!!! Posted by Hello

|


09:19 -


Við hress að spá í færinu á Axamer Lizum skíðasvæðinu en þar var keppt á ólympíuleikum 64 og 76. Þennan dag flugu ýmsir góðir frasar eins og t.d.:”Er’ekki allir með?”, “Muniði eftir Kitsbühel ’89?” og “hvar eru Tryggvi og Addi Geir?” Posted by Hello

|

föstudagur, febrúar 18, 2005

16:41 -


Nú er aldeilis spennandi helgi framundan. Ég ætla að skella mér til Alpaborgarinnar Innsbruck í Austurríki þar sem Bjarni Valdimars Hreiðarssonar býr, en Hálfdán Bjarki, fréttastjóri bb.is, og Dóra Hlín, framkvæmdastjóri Agar, (gjarnan nefnd fréttastjórinn og framkvæmdastjórinn) eru þar fyrir í heimsókn svo það má búast við miklu húllumhæi.

Um tíma hafði ég hug á að skella mér til Lundúna þessa helgi og fylgjast með hljómsveitinni Reykjavík en ódýru fargjöldin með Ryanair frá Eindhoven eru alltaf uppbókuð með löngum fyrirvara svo ferðamöguleikar voru ekki hagstæðir. Þar að auki eru tónleikarnir sjálfir á mánudags- eða þriðjudagskvöld svo ég hefði í öllu falli misst af þeim. Þannig óska ég strákunum í Reykjavík góðs gengis í spileríinu og bíð spenntur eftir að lesa um málið í næstu viku hjá stórbloggurunum Lellu og Kriss

Innsbruck er frábær borg, örlítið fjölmennari en Reykjavík og niðurkominn á frímerki sem er álíka stórt og mið- og vesturbær Reykjavíkur, með alþjóðaflugvelli og öllu saman. Ef fólkið sem ber ábyrgð á skipulagshörmungum höfuðborgarsvæðisins skellti sér nú í kynnisferð til Innsbruck, og lærði að byggja þétt, kæmist það að raun um að klúðrið mætti leysa farsællega með því að skipuleggja nýja miðborg í kringum gömlu höfnina - þá þyrfti ekki að eyðileggja margra milljarða mannvirki ríkisins og sniðganga hagsmuni byggðakjarnanna á landsbyggðinni.

Til Innsbruck er um 600 km loftlína en aksturinn þangað er ekki nema um 840 km. Það er töluvert dýrt að spanna þetta með lestum eða flugi, a.m.k. 15-20 þúsund krónur skv. lauslegum athugunum og því leit út fyrir að ekkert yrði úr ferðinni. Fyrir hvatningarorð Dána var haldið áfram að leita möguleika og úr varð að ég tek rútu frá Liege í Vallóníu til Munchen og þaðan er eins og hálfs tíma skreppa með lest til Innsbruck. Þetta ætti að sleppa fyrir 10-12 þúsund, svipað og flugfarið fram og til baka milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Rútan leggur af stað á miðnætti og því er plottið að fólk geti sofið á leiðinni. Þetta er drjúg rútuferð eða um tíu tímar (væntanlega með stoppum) og því á ég von á að koma til Innsbruck um hádegi á morgun. Þar er planið að skella sér á skíði og kynnast Austurrískri menningu. Að sjálfsögðu verður farið í gegnum helstu lög Falkó og hittarana úr Söngvaseiði. Semsagt lederhosen og apfelstrüdel þessa helgi, að ógleymdum öllum steiktu pylsunum sem glansa af eigin feiti. Posted by Hello

|

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

17:44 -


Hér á eftir fara "Rektorsgreinarnar", eins og Kristján Jónsson vinur minn nefndi þær á síðu sinni, sem ég skrifaði um málefni háskóla á Vestfjörðum og birtust á bb.is. Hér eru greinarnar birtar í myndskreyttri útgáfu eins og upphaflega var hugmyndin en ég taldi vera fullangan snúning upp á handleggi félaga minna á bb og féll því frá svoleiðis veseni.

Háskólablús eða -búgí á Vestfjörðum
Ég man svo vel eftir síðustu þingkosningum, vorið 2003. Veðrið var gott og stemmningin var góð þegar nýliðin uppskeruhátíð lýðræðisins fór fram (og HM okkar stjórnmálaáhugamanna). Fjölmargir fundir voru haldnir í faðmi stjórnmálasögunnar á Ísafirði og það voru ekki bara frambjóðendur kjördæmisins og flokksleiðtogar úr röðum heimamanna sem stigu í pontu, heldur líka fjölmargir úr landsliðshópnum, m.a. fyrirliðinn Davíð Oddsson. Það var ekki bara veðrið sem gerði þetta vor eftirminnilegt heldur var hægt að skynja að það var eins og vitundarvakning hefði orðið meðal ráðamanna þjóðarinnar. Þá var nýbúið að ákveða að verja auknu fé til vegamála í fjórðungnum og var ekki annað að heyra á ráðamönnum en þeir hefðu mikinn skilning á málefnum Vestfjarða, væru sannfærðir um ágæti tillagna heimamanna um uppbyggingu í fjórðungnum og vildu beita sér fyrir framgangi þeirra. Ég er viss um að ég var ekki sá eini sem sveif yfir jörðinni þetta sumarið því það var eins og loksins, eftir allar hörmungarnar, hefðu Vestfirðingar náð samhljómi við leiðtoga þjóðarinnar og komist að samkomulagi um að fjórðungurinn væri mikilvægur hluti landsins og þar ætti að vera blómlegt um að litast - þannig legðum við best af mörkum til heildarinnar.

Síðan hefur hver atburðurinn rekið annan sem bendir til þess að umræðurnar þessa vordaga hafi verið helst til innistæðulitlar, m.a. niðurlagning Rf, fjarstýring ratsjárstöðva, og nú síðast hækkun húshitunarkostnaðar, svo dæmi séu nefnd. En hvað um það, baráttan heldur áfram og enn eru rúm tvö ár eftir af þessu kjörtímabili til að rifja upp rómantíkina frá vorinu 2003.

Eru ráðherra og þingmenn með?
Mikilvægasta málið sem hefur komið upp í pólitík fjórðungsins í mörg ár er stofnun háskóla á Vestfjörðum. Fyrir tæpum 19 mánuðum síðan virtist vera svo mikill meðbyr með þessari hugmynd að maður beið bara eftir því að þingmenn, sveitarstjórnarmenn og ráðherrar myndu einhenda sér í málið og vaða yfir formsatriðafljótið. Öðru nær. Síðan geta leikmenn tæpast túlkað atburðarrásina öðruvísi en bírókratíska krossferð til að drepa málinu á dreif. Í marga mánuði hefur allt snúist um ægilegt nefndarvesen og tæknimál sem enginn skilur. Það hefur komið í ljós að meðbyrinn var lítil hviða. Við hefðum öll getað sagt okkur það fyrirfram að kerfinu myndi ekki finnast það par fínt að stofna til vitsmunastarfsemi á Vestfjörðum en núna gengur það fjöllum hærra að málið sæti andstöðu innan stjórnarflokkanna, hvað sem er til í því hafa stjórnarliðar a.m.k. ekki borið sakirnar til baka.

Hættan er nefnilega sú að sannfæring ráðherranna sem fara við og við út í kjördæmin, hrífast af umhverfi og mannlífi, og líst vel á djarfar hugmyndir heimamanna, reynist fljótt uppurin í daglegu samneyti við ráðuneytisstjóra og kerfiskarla, „sérfræðinga” sem bera á borð „fagleg sjónarmið” og úrtölumenn innan háskólageirans. Það þarf kraftmikinn og hugrakkann ráðherra til að berjast fyrir málinu og ýta úr vör frá skrifstofu sem er umflotin andófsræðurum. Og af hverju ætti ráðherrann, sem kemur ekki einu sinni úr kjördæminu, að standa í stafni og láta pusið ganga yfir sig þegar sumir þingmanna kjördæmisins virðast varla nema hálfvolgir?

Grasrótina í málið
Eins og staðan er í dag verða Vestfirðingar sjálfir að taka málið í sínar hendur og blása í glæðurnar. Grasrótin þarf að vinna málinu stuðning, við þurfum að sannfæra hvort annað um að verkefnið sé gott og gerlegt, sannfæra vini, vandamenn, viðskipta- og vinnufélaga og að lokum allan landslýð. Við þurfum að taka málið upp á fundum og mannfögnuðum, í fermingar- og brúðkaupsveislum, í símtölum og á ströndinni á Spáni í sumar.

Eins og staðan er í dag virðast ráðamenn ekki ætla að taka það að sér að sannfæra þjóðina um ágæti verkefnisins og því þurfum við að sannfæra hana sjálf og fá með í lið.

Hvað verður sagt vorið 2007?
Það eru rúm tvö ár í kosningar og mikilvægt að gera þingmönnunum okkar grein fyrir því að við erum þegar farin að hugsa um hvernig við ætlum að endurnýja umboðið og að þeir hafa ennþá tækifæri til að bregðast við. Eru rúm tvö ár ekki nægur tími til að klára málið? Það er hægt að ala barn á níu mánuðum! Ég vona að það þurfi meira en viðhafnarundirritun á viljayfirlýsingum til að fá Vestfirðinga á kjörstað vorið 2007.

Hvar er pólitíska innistæðan?
Hvernig væri að hætta að snúast í hringi og byrja bara? Kæri ráðherra, ég er viss um að það myndi hnussa í mörgum kerfiskarlinum en þau andvörp myndu gleymast fljótt. Árið 2007 eru tuttugu ár liðin síðan Háskólinn á Akureyri var stofnaður, væri ekki vel við hæfi á þeim tímamótum að Háskóli Vestfjarða yrði stofnaður. Hvernig er það, með bestu útkomu Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni, eigum við ekki pólitíska innistæðu?

Einar K. Guðfinnsson og Davíð Oddsson á kosningaferðalagi 2003. Ljósmyndari bb.is smellti þessari mynd af þeim í beitningarskúrunum í Bolungarvík. Posted by Hello

|


17:42 -


Háskölaföndur eða háskólabylting?
Sitt sýnist hverjum um hvernig eigi að haga starfsemi og uppbyggingu háskóla á Vestfjörðum, og ekki hægt að segja annað en það opna viðhorf sem heimamenn hafa sýnt til ýmissa forma og gerða, og þær margvíslegu hugmyndir sem hafa skotið upp kollinum í umræðunni séu í sjálfu sér meðmæli með því að setja á stofn háskóla á Vestfjörðum. Það er ekki hægt að saka Vestfirðinga um að hafa sýnt kreddufestu í umræðum um málið, en hins vegar virðist málið mæta töluverðri kreddufestu. Það er rótgróin kredda að vitsmunastarfsemi geti ekki, og eigi ekki, að þrífast utan höfuðborgarsvæðisins (og tæpast nokkur samneysla ef út í það er farið). Ef menn ætla hins vegar að taka það nærri sér að hugmyndum um háskóla á Vestfjörðum sé ekki tekið með lófaklappi og að með þeim séu menn að setja sig upp á kant við alls kyns menningarelítur og kreðsur, þá er eins gott að hætta bara strax.

Engin Reykjavíkurandúð
Í nýlegum pistli Egils Helgasonar blaðamanns, sem birtist í DV og á heimasíðu hans, segir hann um stöðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannsslagnum í Samfylkingunni að hún geti varla átt upp á pallborðið á landsbyggðinni. „Þar er búið að ala á slíkri tortryggni í garð Reykjavíkur að fyrrverandi borgarstjóri þykir ósjálfrátt vafasöm persóna.” Þetta er misskilningur, a.m.k. verður þessa viðhorfs ekki vart meðal Vestfirðinga, sem mennta sig í Reykjavík, búa þar um lengri og skemmri tíma, og byggja tilveru sína á því að geta nýtt sér margvíslega þjónustu í Reykjavík. Hins vegar eru menn ákaflega tortryggnir á kerfið sem skammtar mönnum skít úr hnefa og virðist eiga erfitt með að styðja hugmyndir um uppbyggingu á Vestfjörðum, nema þá málamyndagjörninga. Eins manns stofnanir sem engu breytu, nema að sjá heimamönnum fyrir kosningafóðri og hinum einverju til að kjamsa á um að alltaf sé verið að mylja undir landsbyggðina.

Víglínan í háskólamálinu virðist soldið snúast um þetta í dag, menn eru jafnvel til í að eftirláta Vestfirðingum málamyndastofnun en helst ekki gera neitt sem gæti haft veruleg áhrif og breytt stöðu fjórðungsins varanlega til batnaðar. Það sem verra er að nú finnst mér eins og meðvirknisraddirnar séu farnar að hvíslast á meðal heimamanna, „betra að spila með og þiggja molana, okkur hefur nefnilega verið gefið undir fótinn með það að síðan verði kannski hægt að gera eitthvað heilmikið meira í framtíðinni - ef við erum stillt”. Þessi gildra hefur verið margspennt á síðustu árum og alltaf virkað, Ísafjarðarbær er minnisvarði um frægasta dæmið þegar sveitarstjórnarmönnum voru gefin óformleg loforð um margvíslegan stuðning í framtíðinni ef aðeins bara þeir myndu drífa í sameiningu, og síðan kannaðist enginn við neitt þegar átti að fara innheimta velgjörðirnar.

Háskóli á Vestfjörðum kostar ekki neitt
Hvað með háskólaúrtölurnar, er ekki fíflalegt að byggja háskóla sem verður aðgengilegur fimm þúsund hræðum á norðanverðum Vestfjörðum? Í fyrsta lagi er sýnt að eftirspurn eftir háskólanámi mun halda áfram að aukast hér á landi, og háskóli á Vestfjörðum mun þjóna öllu landinu. Rannsóknarstarfsemi sem fer fram á Vestfjörðum leggur jafn mikið til hagsældar í landinu og rannsóknir annars staðar á landinu. Þannig má jafnvel segja að háskóli á Vestfjörðum kosti ekki neitt því það liggur fyrir að við þurfum að auka háskólakennslu- og rannsóknir á næstu árum. Af hverju ekki að láta hluta af þeim vexti koma fram í háskóla á Vestfjörðum? Ég á svo sem ekki von á að skólinn verði umfangsmikil stofnun í fyrstu en víst er að eftir því sem háskólasamfélaginu vex ásmegin mun aðdráttarafl þess aukast og hróður þess spyrjast út. Á endanum mun stofnunin svo öðlast viðurkenningu og enginn skilja í því að nokkur hafi efast um ákvörðunina á sínum tíma - svipað og nú er með Háskólann á Akureyri.

Útlendingar á okkar bandi?
Líklegast þykir mér þó að útlendingar eigi eftir að heillast af vestfirskum háskóla sem verður frá náttúrunnar hendi sér á parti í evrópsku háskólasamfélagi, í faðmi fjalla blárra rétt sunnan við heimskautsbaug. Það er nóg til af keimlíkum háskólaborgum og -bæjum um allan heim en við getum spilað á sérstöðuna, óspillt land allt í kring, bærinn lokast frá umheiminum í vondum veðrum o.sv.frv. Svosem má segja að það séu til milljónir manna sem finnist ekkert merkilegt við þá sérstöðu, vilji frekar setja upp bindi og fara í viðskiptaháskóla, helst þar sem er hægt að „namedroppa” borginni, London, New York og þannig. En það eru líka fjölmargir sem hafa ást á hinu norræna, vanþróaða, óspillta og náttúrulega. Múslíæturnar, eins og náttúruunnendurnir eru stundum kallaðir í Þýskalandi, hafa sjálfar þefað Ísafjörð uppi án þess að nokkur hafi auglýst eftir þeim. Þannig hafa fjölmargir þýskir háskólanemar stundað starfsnám undir handleiðslu ferðamálafulltrúa Vestfjarða síðustu ár - e.t.v. má segja að í gegnum þær óformlegu leiðir sé kominn vísir að skiptinemaprógrammi. Ég spái því, að eins og oft áður í Íslandssögunni, verði það lofsamleg ummæli útlendinga sem kalli á viðurkenningu landsmanna á Háskóla Vestfjarða. Síðan eigum við auðvitað að horfa lengra en til Evrópu því mesti vöxturinn í fjölda háskólanema er í Asíu, þar verður stærsti markaðurinn.

15.000 manns og Suðurtangan undir
Hver er líka að tala um að íbúafjöldinn eigi að standa í stað um aldur og ævi? Háskóli Vestfjarða á að vera afl breytinga. Í fyrstu atrennu, á næstu 20 til 30 árum, eigum við að setja okkur það markmið að byggðin í norðanverðum fjórðungnum vaxi um tíu þúsund, í fimmtán þúsund íbúa, auk áhrifa annars staðar í fjórðungnum sem byggja á samgöngubótum og samþættingu svæðanna.

Ég heyrði þá hugmynd að réttast væri að taka Suðurtangann undir aðalstöðvar Háskóla Vestfjarða og finnst hún ansi góð. Þar ætti að skipuleggja þétta og háreista byggð þar sem íbúarnir ættu kost á bíllausum lífsstíl. Fyrir þá sem kjósa hús og bíl ættu síðan að vera nægir kostir í botni Skutulsfjarðar og Öndunarfjarðar. Til að auka slagkraftinn þyrfti svo að styrkja það almenningssamgangnanet sem þegar er fyrir hendi, enda vel þekkt í háskólabæjum að húsaleigan þýtur upp næst háskólasvæðinu og er því gjarnan leitað að hagstæðara húsnæði í úthverfum og nærliggjandi bæjum.

Finnist einhverjum þetta galið er rétt að benda á, að á þrjátíu árum jafngildir tíu þúsund manna fjölgun 3,73% árlegum vexti eða sem samsvarar 186 íbúum á fyrsta árinu. Íslendingum er enn að fjölga hratt og sér sem betur fer ekki fyrir endann á því.

3.000 nemendur og 1.164 starfsmenn
Í Háskóla Íslands voru skráðir 8.785 nemendur þann 20. október. Árið 2003 þáðu 3.410 laun frá skólanum, þar af 801 fastur starfsmaður, 381 annar starfsmaður, 1.800 stundakennarar í 223 ársverkum, og 420 fastir kennarar. Þannig finnst mér hóflegt markmið að Háskóli Vestfjarða hýsi um 3.000 nemendur að 20-30 árum liðnum. Í þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins við Háskólann í Reykjavík fyrir árin 2000 til og með 2003 var gert ráð fyrir fjölgun nemenda úr 500 í 900 eða um 80% á tímabilinu. Skólinn fagnar 20 ára afmæli árið 2018 og þyrfti því að vaxa um 333% frá árinu 2003 til að verða 3.000 nemenda skóli á tímamótunum eða um 8,36% á hverju ári.

Miðað við sama hlutfall starfsmanna og í HÍ myndi 3.000 nemenda háskóli á Vestfjörðum hafa á launaskrá 1.164 starfsmenn, þar af 272 fasta starfsmenn, 130 aðra starfsmenn, 612 stundakennara í 76 ársverkum, og 143 fasta kennara. Við það hefur íbúunum því fjölgað um 4.164 sem þurfa fæði, klæði, húsaskjól og afþreyingu. Sá fjöldi myndi því hafa í för með sér mikla beina innspýtingu inn í samfélagið fyrir utan ytri áhrif sem háskólastarfsemin myndi hafa á þær atvinnugreinar sem fyrir eru í fjórðungnum, gegnum þekkingarsmit, bætt búsetuumhverfi og margt fleira.

Fleiri búsetukostir
Stofnun af slíku kaliberi myndi marka vatnaskil í sögu Vestfjarða. Fólk er tilbúið til að fjárfesta í vexti og stórhug en engum hefur tekist að græða á stöðnun. Háskólakot myndi litlu breyta en Háskóli Vestfjarða gæti gert Vestfirði að öflugum valkosti í búsetu. Ekki til að sporna við vexti höfuðborgarsvæðisins eða sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið heldur einfaldlega til að fólk hafi um fleiri fýsilega kosti að ræða - vegna þess að fjölbreytni og valkostir eru gæði í sjálfu sér.

Af hverju skyldu menn vilja hafa Vestfirði ládeyðulega þegar hægt er að hafa fjórðunginn blómlegan og í bullandi sókn? Við erum komin með lausnina og hún kostar ekkert - það þarf hvort eð er að byggja upp í háskólakerfi landsins. Ég óska hér með eftir því að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson taki höndum saman með Vestfirðingum og stofni Háskóla Vestfjarða. Þannig myndu þeir skilja eftir varanleg spor í sögu fjórðungsins og í stjórnmálasögunni.

Horft yfir Eyrina á Ísafirði. Takið eftir græna blettinum á Suðurtanga, háskólakampusinn myndi nú sóma sér vel þarna. Mynd: Mats. Posted by Hello

|


17:41 -


Háskóli sem byggðatæki
Sumir segja að háskóla eigi eingöngu að reka þekkingarstarfseminnar vegna og ekki spá í neinum byggðasjónarmiðum í því tilliti - það sé síðasta sort. Gott og vel, auðvitað á ekki að stofna háskóla út af einhverjum annarlegum hvötum, það er hárrétt. En þekkingarstarfsemin er ekkert ómerkilegri á 66° breiddargráðu en 64°. Staðreyndin er einfaldlega sú að háskólar hafa áhrif langt umfram það eitt að kenna og rannsaka, þeir smita út frá sér. Nálægð við rannsóknar- og þekkingarbanka er einfaldlega lykillinn að nútímalegu atvinnulífi. Og þegar markmiðið er (og hefur verið) að setja hefðbundinn lágþekkingariðnað á öskuhauga sögunnar er nema von að menn óski eftir því að fá að taka þátt í framtíðinni?

Í löndunum í kringum okkur hefur krafan þótt afskaplega eðlileg og uppbygging háskólastarfsemi verið notuð sem öflug aðferð til að umbreyta stöðnuðum iðnaðarsvæðum og um leið styrkja þekkingarinnviði landsins. Það geta allir verið sammála um að refabúavæðingin á sínum tíma var tóm steypa en einnig ættu flestir að geta fallist á að aukin rannsóknarstarfsemi skilar öllum landsmönnum ábata.

Farsælt hjónaband byggðarsjónarmiða og akademíu
Um þessar mundir er ég einmitt við nám í slíkum háskóla sem var stofnaður sem byggðalegt umbreytingartæki, í Maastricht, syðst í Hollandi. Hér í Hollandi telst svæðið vera útkjálki, skagi sem stendur suðaustur úr landinu og rekur sig inn í Belgíu og Þýskaland. Höfuðborgarsvæðið, sem markast af Amsterdam, Rotterdam og Utrecht, er náttúrlega aðalmálið, efnahagsleg þungamiðja landsins. Þar ægir öllu saman, ferðamönnum stjórnsýslu, öflugum háskólum, sumum af flottustu listasöfnum í heiminum, viðamikilli flutningastarfsemi og risavaxinni olíuhreinsunarstöð Shell, svo nokkrar að þeim aðsópsmiklu stofnunum sem þar eru vistaðar séu nefndar. Hinsvegar virðist mönnum ekki þykja neinn akkur í því að flytja alla íbúa landsins þangað og þess vegna hefur verið staðið myndarlega að uppbyggingu héraðshöfuðborga, þó hvert svæði fyrir sig hafi e.t.v. ekki úrslitaþýðingu fyrir veg landsins, samanborið við slagkraftinn á höfuðborgarsvæðinu.

Háskólinn í Maastricht var stofnaður í byrjun áttunda áratugarins, um líkt leyti og Menntaskólinn á Ísafirði. Margvíslegur iðnaður lagði upp laupana í Hollandi á sjöunda áratugnum, m.a. öflug námustarfsemi í kringum Maastricht. Til mótvægis var ráðist í stofnun háskóla, sem var víst mjög umdeild á sínum tíma, en að lokum tókst að fóðra málið á því að skólinn skyldi byggja á framúrstefnulegum kennsluaðferðum sem enginn annar skóli í landinu beitti. Þannig náðist á endanum sátt um að ráðast í þessa nýsköpun. Skólinn hefur síðan vaxið og dafnað, og hreiðrað um sig víðsvegar um bæinn, í mörgum gömlum húsum sem hafa verið endurbætt, en oft er um aflagt atvinnuhúsnæði að ræða. Skólinn hefur raðað sér meðal bestu háskóla Hollands, og telst til þeirra fremstu í Evrópu.

Hliðstæðurnar við Ísafjörð
Síðan ég fór að sækja nám hérna í haust og heyra af sögu skólans, hef ég ekki getað varist tilhugsuninni um hliðstæðurnar við Ísafjörð. Sögufrægur staður sem gengur í gegnum erfitt tímabil afiðnvæðingar en gengur loks í endurnýjun lífdaganna með uppbyggingu háskóla- og þekkingarstarfsemi. Við höfum söguna og afiðnvæðinguna, það væri gaman að fylgja fordæmi Maastrichtingana alla leið.

Svæðið hér þykir hafa upp á aðra eiginleika að bjóða en t.d. höfuðborgarsvæðið í kringum Amsterdam, hér er ekki sami hraðinn og lætin, og e.t.v. ekki sami sprengikrafturinn í efnahagslífinu, en það er vaxandi og byggir á traustum grunni. Lífsgæðin þykja að mörgu leyti betri en annars staðar og því er fasteignaverð, sérstaklega í gömlu miðborginni, svimandi hátt. Á móti kemur að bílar eru víðast hvar alveg óþarfir og auðvelt að fara sinna ferða gangandi eða á hjóli. Þetta stuðlar líka að því að um helgar er miðbærinn stútfullur af fólki á öllum aldri sem hefur klætt sig í betri fötin til að fara út og fá sér bjórkrús. Eftir því sem andúð nútímamannsins á ofurstresslífstílnum breiðist út, verða borgir eins og Maastricht, eftirsóttari íverustaðir. Svo vel hefur tekist til að á síðasta ári var borgarstjórnin útnefnd sveitarstjórn ársins í Hollandi. Hér eru menn lausir við hraðbrautir og eimyrjuspúandi stóriðnað en samt virðast allir vera að "meika" það.

Nú óska ég eftir því að sveitastjórnarmenn og Alþingismenn kjördæmisins setji allan sinn slagkraft í að sigrast á kerfisljónunum og stofna Háskóla Vestfjarða fyrir lok kjörtímabilsins. Það eru rúmir 27 mánuðir til stefnu, við erum farin að telja niður!

Viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Maastricht er hýst í þessu gamla klaustri. Posted by Hello

|

mánudagur, febrúar 14, 2005

20:50 -


Rétt í þessu var alveg stórfurðuleg Volvó-auglýsing í belgíska sjónvarpinu, sem var tekin á Íslandi. Ég ætlaði að hoppa af þjóðarstolti en varð fyrir vonbrigðum því það eru engar dramatískar landslagssenur eða íslenski hesturinn. Bara tveir Ameríkanar sem keyra frá Geysi að Bláa lóninu og tala um hvað landið er líkt Mars. Hveragerði og Reykjavík bregður fyrir.

Áhugasömum er bent á http://nl.volvocars.be/_campaigns/LifeOnBoard/default.htm

Þetta er ofurflækt flash síða og notendavæn eftir því.

Í þessum anda er sjálfsagt að minnast á að fyrr í vetur gekk Phillips rakvélaauglýsing í sjónvarpinu. Sú er tekin við Dynjanda í Arnarfirði og sýnir einhverja svona Charles Atlas týpu raka sig í fossinum undir slagorðinu: Shave wherever you shower. Það gerist varla töffaralegra en það. Posted by Hello

|

laugardagur, febrúar 12, 2005

22:36 -


Í síðustu viku var frí í skólanum vegna karnivals sem setur lífið úr skorðum, a.m.k. í kaþólsku hlutum Hollands og Þýskalands, og Ríó náttúrlega og e.t.v. víðar. Tíminn nýttist vel því Siggi Gunnars kom í heimsókn til að kynna sér hollenskt frjálslyndi. Þannig nutum við helgarinnar í Maastricht innan um fullar lúðrasveitir og aðra innfædda sem skörtuðu grímubúningum í tilefni hátíðarhaldanna. Þessu fylgdi að sjálfsögðu rífandi stuð sem við vorum jafnframt sammála um að væri algerlega yfirþyrmandi. Drykkjan hófst á hádegi og barir bæjarins röðuðu upp borðum utandyra. Um þrjúleytið var svo orðin nokkurskonar fyrir utan ball stemmning, eins og hún gerðist best við Sjallann. Fullur Hollendingur er á við þrjá Íslendinga í hávaða og látum (það er engin tilviljun að þeir voru fyrstir í Evrópu til að lögleiða kannabis) svo menningarnótt varð eins og bindindismótið í Galtalæk í samanburði. Posted by Hello

|


22:35 -


Á mánudag klofuðum við svo yfir ælur, konfettí og tóm plastglös til að taka lestina til Hamborgar. Siggi tók þessa mynd af mér á leiðinni, hún yrði svo góð höfundarmynd að ég sé mig tilneyddan til að skrifa bók. Kannski maður fari bara út í vignetturnar eins og Ármann í Hávöxtun. Posted by Hello

|


22:34 -


Í Hamborg býr Súsanna Thams, kærasta Sigga, og var auðsótt að gista hjá henni. Eins og kunnugt er bjó Siggi um tíma í Hamborg og fór því á kostum við leiðsögnina. Við þræddum höfnina og Rheperbahnen þar sem vændiskonur rússnesku mafíunnar þrábuðu okkur þjónustu sína. Hápunkturinn í leiðsögn Sigga um rauðljósahverfið var Herbertstrasse þar sem dömurnar sitja úti í glugga, til í tusk. Síðan tók ég krók á móti bragði og dró Sigga að skoða gay senuna í St. George. Posted by Hello

|


22:33 -


Að auki kíktum við á safn, skoðuðum háskóla bæjarins þar sem enn má reykja innandyra og litum inn í glæsilega barokkkirkju þar sem Telemann, Brahms og einn af Böchunum voru organistar. Á meðfylgjandi mynd má sjá Sigga og Súsönnu á einni af kaffistofum háskólans en í baksýn sjá þeir Waldorf og Stanley úr Prúðuleikurunum. Posted by Hello

|


22:33 -


Þar sem við erum báðir miklir matarunnendur voru helstu undur svæðisins smökkuð. Þar eru náttúrlega á listanum nokkrar stórgóðar bjórtegundir, þó við höfum verið á því að úrvalið og breiddin í Norður-Þýskalandi kæmist ekki tærnar þar sem belgíska bjórmenningin hefur hælana. Af hefðbundnum þýskum mat skelltum við okkur á labskaus, sem er kássa úr rauðrófum, nautakjöti, svínakjöti og síld, borin fram með spældu eggi, og lifur með lauk, brúnni sósu og kartöflumús - semsagt Helga Sigurðar á góðum degi. Þá urðu fjölmargar hágæða kebabbúllur á vegi okkar auk þess sem við skelltum okkur á vel útilátið hlaðborð afganska veitingastaðarins Kabúl. Semsagt stórgóð reisa. Posted by Hello

|

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

04:28 -


Úff nú er allt komið á hvolf. Það helltist í mig flensa sem ég ætlaði að skriðtækla með því að fara í rúmið upp úr sjö en síðan vaknaði ég alltof snemma, hálfsofinn og ennþá með pestina. Jæja, það er víst ekkert við því að gera nema bryðja C-vítamín og drekka te.

Mig grunar að þetta séu eftirköst eftir Berlínarferðina, það var tekið heldur hressilega á því. Sem segir manni enn og aftur að það er mildi að þriðja bekkjar ferðirnar eru farnar í þriðja bekk - í dag hefði maður ekkert að gera í þriggja vikna úthald á Benidorm.

Af ferðinni er það að segja að mér fannst stemmningin í bænum alveg frábær. Ótrúlega hrátt og tilgerðarlaust - soldið eins og djammið var í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Bara allir í snjáðum gallabuxum og second handi, brennivínið ódýrt og barirnir sjúskaðir. Síðan er reyndar slatti af svona minimalískum marmarabörum sem spila djassbræðing með bíti - en maður þarf nú ekki að fara til útlanda til að sækja svoleiðis staði. Posted by Hello

|


04:26 -


Við skelltum okkur á pöbbinn þegar við komum með Deutsche bahn á föstudagskvöld og síðan var dagurinn tekinn með trompi í skoðunarferðum. Stefan, sem er einn fárra Þjóðverja af hans kynslóð sem sakna gamla austursins, lóðsaði okkur um bæinn og bunaði upp úr sér sögunni. Afi Stefans var fyrirmyndarverkamaður í kolanámu sem var síðar gerður að dómara, þess vegna naut fjölskyldan fríðinda og fékk m.a. að fara í sumarfrí til Lýbíu. Þarna erum við fyrir fram Reichsdag, Kati, Sebastian(vinur Stefans), Stefan, Claudia og ég. Posted by Hello

|


04:23 -


Múrinn er flottur, þarna eru Breshnev og Honekker í sleik. Síðan sáum við líka Reichsdag og alls kyns flottar byggingar. Þjóðverjarnir komu mér gersamlega á óvart sem algerar diskódrottningar, héldu fyrirpartí (mjög heimilislegt) og voru í svaka stuði með blöndur og standarda. Posted by Hello

|


04:21 -


Síðan farið í partý hjá tilgerðarlegum Svíum, gat skeð að það það þyrfti Norðulandabúa til að skrúfa stemmninguna upp. Posted by Hello

|


04:20 -


Síðan var farið í annað partý, sem urðu reyndar tvö því það var sitt hvort partýið í gangi í stigaganginum. Hið fyrra var afmælisveisla hjá Thomas, berlínskum erkihomma sem veitti vel. Hann var búinn að standa sveittur í marga daga við að útbúa smárétti sem svo enginn snerti á því náttúrlega voru allir hommagestirnir meira og minna í megrun - þetta lið! Ég náttúrlega gat ekki setið á mér og úðaði í mig þessum fína pinnamat. Að ekki sé minnst á uppljómunina þegar ég smakkaði Svartaskógstertu í fyrsta sinn, þvílíkt dúndur, súkkulaðibotnar, rjómi og líkjörlegin kirsuber, algjör snilld! South Beach var nú sett á klaka fyrir þetta og Kebab seinna um nóttina. Næsta partý var svo nokkurskonar Dúfnahólar 10, ég hefði ekki viljað taka til eftir það:/

Siggi Gunnars kemur í heimsókn á föstudaginn. Þá einhendum við okkur í mannúðarverkefni á vegum Sagnfræðinga án landamæra. Posted by Hello

|

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

17:22 -


Berlínarstuð og hugmyndaaftöppun

Það var æðislega gaman að heimsækja Berlín, fullt af stuði sem ég verð að segja ykkur frá seinna. Ég ætla sko örugglega að fara þangað aftur (og þá get ég sett mig í samband við Andrés og frú, ég var bara ekki með númerið núna).

Berlínarsögur verða að bíða því ég er búinn að verja deginum í að skrifa þrjár greinar um uppbyggingu Háskóla Vestfjarða. Sinnuleysið gagnvart þessu máli er farið að leggjast svo á sálina á mér að ég gat varla sofið í nótt, mig dreymdi hávaðarifrildi við þingmenn fjórðungsins, og hreinlega vaknaði með vissa framtíðarsýn í kollinum sem ég setti niður á blað í dag, ásamt því sem hefur verið að gerjast í vetur.

En núna þarf ég að drífa mig á stað, því ég þarf að fara á bókasafnið og prenta út greinar, sem þarf síðan að lesa fyrir morgundaginn og versla í matinn.

En rosalega líður mér vel, ég er bara allur léttari eftir að hafa komið þessu út úr kerfinu. Nú er bara að láta greinarnar hanga aðeins og lesa svo aftur yfir þær, síðan ætla ég að setja mig í samband við Sigurjón og sjá hvort hann birtir þær ekki fyrir mig í BB.

Hér er komið gott veður, og ég hlakka ekkert smá til að sigla í bæinn á hjólinu. The hills are alive....


Á meðfylgjandi mynd sést byggingarlistarsnilldin á Karl Marx alle. Posted by Hello

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.