Íslenska feðraveldið yrði samt ekki ánægt með staðinn, ummerkjum menningar er haldið í lágmarki og mannvirkin felld vel að landslaginu. Engar bergskeringar þar. Að sama skapi finnst okkur post-industrialistunum þetta algjör snilld.
Lífið virðist þó ekki vera stanslaus gjörningur. Þar voru kindur til fjalla og dádýr í vegkantinum. Þá heimsóttum við nýjasta viskí brugghús Skotlands, byggt árið 1995, og rakar víst inn verðlaununum. Staðurinn var valinn vegna loft- og vatnsgæða var okkur sagt, eftir umfangsmikla könnun. Held að Arran maltið sé bara það besta sem ég hef smakkað. A.m.k. uppáhalds í augnablikinu.
Því er oft haldið fram að breskur matur og þar með talið skoskur sé afleitur. Þetta er náttúrlega sagt að gefnu tilefni, en málið er ekki alveg svona einfalt og mig grunar að þeir sem hafi fylgst lengur með geti lýst miklum breytingum til batnaðar. Hefðbundinn breskur matur er stórgóður ef vandað er til verks. Dæmi um þetta er steikar og öl -bakan sem ég fékk í Arran. Nautakjöt í soði með smjördeigshatti borið fram með gufusoðnu spergilkáli, gulrótum og kartöflum með hýði. Með köldum Guinnes, sem gaurinn hellti samkvæmt bókinni, var þetta mjög eftirminnilegt. Þess má geta að pöbbinn var að sjálfsögðu teppalagður – hin fullkomna andstæða Rutar Kára. Eftir mat og afslöppun var farið niður á veg að húkka rútuna niður á höfn samkvæmt leiðbeiningum kráarhaldara. Í svartamyrkri og með engin götuljós fannst mér hálf óþægilegt að standa í vegbrúninni ef einhver kæmi á öðru hundraðinu svo ég ákvað að stíga eitt skref aftur fyrir kantsteininn sem afmarkaði veginn. Þar var hins vegar ekkert nema u.þ.b. 1,5 metra djúpur skurður sem ég lenti ofan í á hægri síðu. Þannig finn ég nú fyrir léttri tognun sem ég vona að réni fyrir vikulokin. Sem betur fer missti ég ekki pokann með viskíinu og hafrakökunum úr vinstri hendinni og er allt góðgætið óskemmt. Það ræðst svo af farangursþyngdinni hvort verður komið með bokkuna heim um jólin eða hvort ég kippi einhverju fríhafnargóssi með í staðinn.
said...
hahaha.. en gott að þú slasaðist ekki meira! hlakka til að hitta þig um jólin, ætla að laga eina blöndu af jólaglöggi.. súni drekkur ekki glögg svo einhver verður að hjálpa mér!
kv árný rós.