Heimsótti eyjuna Arran í Clydefirði á laugardag. Gullfallegur og heillandi staður. Einskonar töfraraunsæisútgáfa af Vestfjörðum, örstutt frá fjöru til fjalls en allt miklu mýkra. Þegar ég kom til baka var ég ekki viss um að þetta hefði í alvörunni verið svona flott, kannski hefði ég bara verið að ímynda mér.
Íslenska feðraveldið yrði samt ekki ánægt með staðinn, ummerkjum menningar er haldið í lágmarki og mannvirkin felld vel að landslaginu. Engar bergskeringar þar. Að sama skapi finnst okkur post-industrialistunum þetta algjör snilld.
Lífið virðist þó ekki vera stanslaus gjörningur. Þar voru kindur til fjalla og dádýr í vegkantinum. Þá heimsóttum við nýjasta viskí brugghús Skotlands, byggt árið 1995, og rakar víst inn verðlaununum. Staðurinn var valinn vegna loft- og vatnsgæða var okkur sagt, eftir umfangsmikla könnun. Held að Arran maltið sé bara það besta sem ég hef smakkað. A.m.k. uppáhalds í augnablikinu.
Því er oft haldið fram að breskur matur og þar með talið skoskur sé afleitur. Þetta er náttúrlega sagt að gefnu tilefni, en málið er ekki alveg svona einfalt og mig grunar að þeir sem hafi fylgst lengur með geti lýst miklum breytingum til batnaðar. Hefðbundinn breskur matur er stórgóður ef vandað er til verks. Dæmi um þetta er steikar og öl -bakan sem ég fékk í Arran. Nautakjöt í soði með smjördeigshatti borið fram með gufusoðnu spergilkáli, gulrótum og kartöflum með hýði. Með köldum Guinnes, sem gaurinn hellti samkvæmt bókinni, var þetta mjög eftirminnilegt. Þess má geta að pöbbinn var að sjálfsögðu teppalagður – hin fullkomna andstæða Rutar Kára. Eftir mat og afslöppun var farið niður á veg að húkka rútuna niður á höfn samkvæmt leiðbeiningum kráarhaldara. Í svartamyrkri og með engin götuljós fannst mér hálf óþægilegt að standa í vegbrúninni ef einhver kæmi á öðru hundraðinu svo ég ákvað að stíga eitt skref aftur fyrir kantsteininn sem afmarkaði veginn. Þar var hins vegar ekkert nema u.þ.b. 1,5 metra djúpur skurður sem ég lenti ofan í á hægri síðu. Þannig finn ég nú fyrir léttri tognun sem ég vona að réni fyrir vikulokin. Sem betur fer missti ég ekki pokann með viskíinu og hafrakökunum úr vinstri hendinni og er allt góðgætið óskemmt. Það ræðst svo af farangursþyngdinni hvort verður komið með bokkuna heim um jólin eða hvort ég kippi einhverju fríhafnargóssi með í staðinn.
miðvikudagur, desember 19, 2007
00:01 -
mánudagur, desember 10, 2007
21:24 -
Mmmm, fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um allan góða matinn sem við Elín, Kiddý og Sunna borðuðum um helgina. Algjör míta að það sé ekkert nema vondur matur í Skotlandi, þó ég mæli ekki með djúpsteiktu marsi. Stelpurnar komu semsagt í helgarferð með tómar töskur og þannig var ástæða til að afar vel við sig. Borðuðum afar heðfbundinn skoskan mat, indverskan, ítalskan og nútímalegt skoskt ferskmeti.
Ef einhver er á leiðinni til Glasgow er óhætt að mæla með:
Hefðbundni skoski maturinn var ákaflega hefðbundinn. Passaði samt vel á sveitasetri við Loch Lomond. Næst ætlum við að taka allan pakkann og mæta á setrið þegar samkvæmistímabilinu er lokið og njóta okkar í krikketpeysum og vaxjökkum.
Set með mynd af Ross Priory setrinu.
miðvikudagur, desember 05, 2007
17:35 -
Eins og margir eru forvitnir um Ísland eru vissir hlutir sem er bara ekki hægt að segja útlendingum. Þeir halda bara að maður sé að bulla í þeim og sé ótrúlega ruglaður. T.d. er ekki hægt að segja fólki að maður hafi hætt afskiptum af stjórnmálum fyrir tæpum áratug eða neina sögu sem byrja á „vinur minn var að spila á alþjóðlegri rokkhátíð í Japan“, ennþá verra þegar maður þarf að leiðrétta „nei ekki hann, ég er að tala um annað band núna.“ Maður virkar ótrúlega hallærislegur svo ekki sé meira sagt.
Nýjasta sagan sem ég ætla ekki að segja í útlöndum er: „My classmate from Reykjavik Uni just took over as president of an investment fund with 1.4 billion pounds in equity.“ Síðan gæti maður bætt við þegar viðmælandinnn segir really. „Yeah, it’s quite a big operation, apparently they got a controlling stake in American Airlines.“
Það þýðir bara ekki að reyna að skýra þetta út, en mikið er ég ánægður með Jón Sig dúxinn okkar úr HR sem er nýtekinn við sem forstjóri FL-Group. Ótrúlega skjótur frami, en ég held það sé líka vandfundinn metnaðargjarnari og duglegri náungi. Þegar slíkur árangur fer saman við yfirvegun og drenglyndi er sérstaklega ljúft að samgleðjast. Áfram Jón!
Nýjasta sagan sem ég ætla ekki að segja í útlöndum er: „My classmate from Reykjavik Uni just took over as president of an investment fund with 1.4 billion pounds in equity.“ Síðan gæti maður bætt við þegar viðmælandinnn segir really. „Yeah, it’s quite a big operation, apparently they got a controlling stake in American Airlines.“
Það þýðir bara ekki að reyna að skýra þetta út, en mikið er ég ánægður með Jón Sig dúxinn okkar úr HR sem er nýtekinn við sem forstjóri FL-Group. Ótrúlega skjótur frami, en ég held það sé líka vandfundinn metnaðargjarnari og duglegri náungi. Þegar slíkur árangur fer saman við yfirvegun og drenglyndi er sérstaklega ljúft að samgleðjast. Áfram Jón!
sunnudagur, desember 02, 2007
20:24 -
© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.