<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d-3586845363492521829', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

miðvikudagur, desember 17, 2008

21:44 -

Af hverju eru hlutirnir ekki kallaðir sínum réttu nöfnum? Það er verið að leggja niður 1,5 stöðugildi við MÍ. Niðurskurður upp á 8 milljónir þýðir ekkert annað. Svona stofnanir hafa ekki annan breytilegan kostnað að ganga á en laun. Nú er enn einu sinni runnin upp sá tími að þarf að halda úti lista yfir störf sem hið opinbera er að leggja niður á Vestfjörðum. Virðist vera auðveldast að skera niður þar.

Stjórnviskan er án takmarka. Þegar ríkið græddi á skattheimtu af erlendri lántöku jukust útgjöld hin opinbera um tugi milljarða á hverju ári. Nú kemur krampakenndur niðurskurður sem engin hugsun er á bakvið. Og það er byrjað á skólakerfinu sem á að taka á móti þeim sem eru að missa vinnuna!

Hvort er betra að skera niður tvo framhaldsskólakennara eða einn sendiherra?

Það hlýtur að vera betra að ein manneskja missi vinnuna en tvær.

En hvort er sársaukafyllra fyrir stjórnandann að segja upp einum starfsmanni eða tveimur. Svarið er því miður að það er auðveldara að segja upp tveimur ef þeir eru starfa út á landi og ganga ekki sömu tengslanetum og deildarstjórar hjá ríkinu. Sér í lagi hagstæð býtti ef valkosturinn er einn sendiherra sem er pólitískur gæðingur með þykka greiðabók.

Ríkið hefur bara tvær leiðir til að skera niður. Annað hvort að fækka fólki eða lækka það í launum. Hvort er nú betra á krepputímum? Ég hefði haldið að það væri forgangsatriði að halda sem flestum á launum meðan ástandið er svona, síðan mætti fara að skipuleggja framleiðniaukandi aðgerðir (hausafækkun) eftir 1-2 ár þegar við sjáum hvernig einkageirinn stendur.

Hvernig á svo að forgangsraða þegar er þjarmað að fólki að lækka í launum? Tjsa, Reykjavíkurborg hefur víst ákveðið að fella niður jólahlaðborð leikskólakennara. Það hlýtur að teljast bráðnauðsynlegur tíuþúsundkall á hvern leikskólakennara nú þegar heimili landsins eru undir gríðarmiklu álagi sem leiðir náttúrlega lóbeint inn í skólana.

Mér hefði fundist eðlilegast að byrja á þeim sem eru með yfir 1.750 þúsund á mánuði, eins og seðlabankastjóra, forseta Íslands og forstjóra Landsvirkjunar. Síðan fara í 1.500 plús hópinn, 1.250, kallana, 1.000 fólkið, 750 fólkið og 500 fólkið. 10% launaækkun á línuna og þá ættum við að sjá summu sem eitthvað telur.

En sannast sagna held ég að niðurskurðurinn snúist ekkert um peninga. Ég held einfaldlega að karlpúngar eins Árni Mathísen og ámóta snillingar í Sjálfstæðisflokknum (viss um að Jóni Gunnarssyni finnst þetta æði) fái miklu meira kikk út úr því að gera atlögðu að góðu slæðukellingamálefni eins og fræðasetrum HÍ á landsbyggðinni, sem ríkið leggur til um 6 milljónir á Vestfjörðum ef ég man rétt, heldur en að spara serious bucks með vel ígrunduðum aðgerðum.

|

þriðjudagur, desember 16, 2008

18:48 -

Þetta er nú meiri montniðurskurðurinn sem maður les um á netinu. Segir lítið í hítina en er ætlaður til að mótivera beisið í Sjálfstæðisflokknum: Helvíti er hann harður hann Árni! Ef hann þyrði bara að skera niður heima hjá sér. Stefnan er greinilega að skera niður í háskólageiranum og úti á landi - fólk sem kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn hvort eð er.

Hvernig væri nú að fara að taka aðeins til fyrir sunnan. Segja upp nokkrum samtryggðum deildarstjórum, t.d. Baldri Guðlaugssyni. Pressa niður ríkisstarfsmenn yfir hálfkúlu, eða bara milljón+ hópinn, það eru ansi margir þar. Man ekki betur en meðaltal lækna sé t.d. yfir milljón. Selja sendiherrabústaðina. Koma svo, skera niður rótarífélagana!

|

mánudagur, desember 01, 2008

13:55 -

Í ljósi umræðunnar þá fletti ég upp raunlandsframleiðslu á mann í dollurum, á Íslandi og í nokkrum nágrannalöndum síðan 1950 – eða eins langt og gagnasafnið nær aftur. Gögnin eru fengin úr svokallaðri Penn World Table sem hagfræðingarnir Alan Heston, Larry Summers (efnahagsráðgjafi Obama) og Betina Aten hafa tekið saman og uppfært í gegnum tíðina. Markmiðið er að halda úti gagnasafni á samræmdum grunni til að auðvelda samanburð milli landa. Þar má finna upplýsingar um mörg fleiri lönd og aðrar breytur. Gagnasafnið er öllum aðgengilegt á slóðinni:

http://pwt.econ.upenn.edu/php_site/pwt_index.php




Á fyrstu myndinni sést landsframleiðsla á mann frá 1950-2004. Lína Íslands er gul og má glögglega sjá að við höfum hangið í og við nágrannalöndin allt tímabilið. Áberandi er hversu mikill breytileiki er í íslenska ferlinum og má glögglega merkja góðæri þar sem við höfum sveiflast upp m.v. nágrannalöndin en fallið jafnharðan niður aftur í reglulegum hallærum. Sú hugmynd að Ísland hafi verið verr statt en aðrar þjóðir þangað til 1991 og síðan átt mikið framfaraskeið er þjóðsaga sem sér engin merki í gögnum. Nær lagi er að Ísland upplifði miklar framfarir á 20. öldinni og e.t.v má gera mikið úr þeim afrekum m.v. stöðuna í lok 19. aldar.







 










Athyglisverðari mynd er að skoða raunlandsframleiðslu á hvern vinnandi mann frá 1950-2003. Þarna kemur fram eins og t.d. Þorvaldur Gylfason hefur oft vakið athygli á að Íslendingar hafa fyrst og fremst sótt sér kjarabætur í gegnum aukna vinnu. Ef framleiðnin er tekin inn í myndina hefur hlutfallsleg staða okkar heldur versnað. Ef er öskubuska í Evrópu þá er það Írland þar sem landsframleiðsla á vinnandi mann hefur nær tvöfaldast frá árinu 1990. E.t.v. er Davíð að misskilja eitthvað og heldur að hann hafi verið forsætisráðherra þar.
 













Ef við tökum nærmynd af árunum frá 1990-2004 sést svipuð saga í raun landsframleiðslu hefur Ísland u.þ.b. haldið stöðu sinni m.v. nágrannaþjóðirnar.







Ef litið er til raunlandsframleiðslu á vinnandi mann frá 1990-2003 sést að Ísland hefur rétt tæplega haldið sínum hlut en Írland sem fyrr skotist framúr.

Svo langt sem það nær að nota landsframleiðslu sem árangursmælikvarða sést að Ísland hefur verið meðalskussi í hagstjórn á eftirstríðsárunum og ekki hægt með góðu móti að koma auga eitt tímabil sem hefur verið langvarandi verra eða betra en annað. Hins vegar er nóg af sveiflum – upp og niður. Gögnin renna stoðum undir þá skoðun að hagstjórn er langtímaverkefni þar sem árangur eins tímabils er mjög háður því sem gerðist um árabil á undan.

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.