<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/4016206?origin\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

föstudagur, ágúst 26, 2005

10:13 -

Vúhú, þá er maður kominn með masterinn. Var að koma heim úr vörninni og er í algeru spennufalli. Þá er bara málið að pakka niður tannburstanum og koma sér heim í kvöld. Síðan mætir maður galvaskur í brullupið hjá Dána og Dóru Hlín á morgun. Á sunnudag er svo planið að halda út til Danmerkur með Sunnu systir og hjálpa henni við að græja málin þar áður en hún byrjar í skólanum. Í þarnæstu viku verður maður svo mættur hress á bb!

Viva Las Vegas!

|

sunnudagur, ágúst 14, 2005

23:34 -

Var að senda efnislega lokaútgáfu ritgerðarinnar. Og klukkan ekki einu sinni orðinn tvö - þetta hefði nú þótt merkilegt einhverntíman. Ef engar athugasemdir koma fram þá fer hún í vörn svona. Þegar græna ljósið kemur þá fer maður að dúlla við útprentun og innbindingu með tilheyrandi smámunasemisgeggjun.

Á morgun ætlum við Kati hinsvegar að fara á flakkið....hún er búinn að græja síðustustundar tilboð til Ibiza í viku á 25 þúsund kall - algjört snäpchen! Mér finnst eins og ég eigi að vera með móral yfir því að nota ekki tíman hér á meginlandinu í einhverjar menningarreisur, en ef Ibiza er ekki Akrópólis sólarstrandanna þá veit ég ekki hvað! Þetta verður mjög forvitnilegt, allt samkvæmt þýsku hefðinni, í hálfu fæði á hótelherbergi.

Nú væri ég til í að eiga Holiday með Madonnu í MP3 safninu....

|

laugardagur, ágúst 13, 2005

21:20 -


Jæja, þá er maður kominn aftur út til Maastricht að reka smiðshöggið á skólavistina. Núna liggur fyrir að klára ritgerðina fyrir mánudagsmorgun svo yfirlesararnir hafi nógan tíma til að melta þetta en síðan verður vörn kl. 11 að morgni föstudags, 26. ágúst. Núna er maður í góðum fíling með sterkt kaffi og nóg að kolvetnum að koma þessu heim og saman. Ritgerðarstússið orðið skemmtilegt aftur svona á lokasprettinum. Síðan er planið að taka frí í næstu viku áður en maður byrjar að undirbúa vörnina og pakka saman. Við Kati höfum ákveðið að líta í kringum okkur og halda jafnvel suður á bóginn en ég er líka afskaplega ginkeyptur fyrir lestartúr til Berlínar. Hún hélt til Kölnar á föstudag þar sem hún ætlar að verja helginni og skanna síðustustundartilboð hjá þýskum ferðaskrifstofum. Kannski endum við á Mæjorka með þýskum ellilífeyrisþegum. Það væri nú forvitnilegt, að gera sér nesti fyrir allan daginn úr morgunverðinum. Veit ekki alveg hvort ég hef taugar í það.

En síðasta helgi var nú aldeilis skemmtileg, svaka stuð á gay pride, og strákarnir tóku sig aldeilis vel út í hommahnjúkavirkjuninni. Bjó í góðu yfirlæti hjá Sigga Gunnars á Njarðargötunni og skemmti mér við að mala kaffið í Pavonivélina góðu ? molto bene! Fór í stórtostlegt matarboð hjá matarklúbbi Huldu og Herberts, kíkti í heimsókn til Kiddýjar og Tóta, og Jóhönnu litlu, hitti Björk og Árna yfir rauðsprettu á Jómfrúnni, samplaði kaffihlaðborðið hjá Sveinu frænku og Geir á Þúfubarðinu og var svo boðinn í dúndurgóðan þorsk með Miðjarðarhafstvisti hjá Skúla bróður, Siggu og strákunum, svo fátt eitt sé nefnt. Ég gerði örugglega meira, a.m.k. fannst mér ég alveg á fullu allan tíman.

Ég flaug síðan út á þriðjudag, sem átti eftir að verða dramadagurinn mikli. Byrjaði semsagt á því að ég stíg hálfsofandi út úr rútunni á Keflavíkurflugvelli kl. tíu mínútur yfir fimm. Ég er ekki góður að troðast og síst af öllu snemma morguns og því ákvað ég að yfirfæra þekkta bílaleitartækni Kristjáns frá Garðsstöðum á að finna töskurnar mínar ? bíða þar til allir hinir væru farnir og taka rest. Þannig fékk ég aðra töskuna mína og síðan tösku konu úr Kópavoginum sem fyrir slysni ætlaði með hina töskuna mína til Frankfurt. Þökk sé jarðliði Icelandair var greitt úr öllu saman á u.þ.b. klukkutíma. Þeim fannst ég greinilega hálftættur eftir þetta og skelltu mér í business klass sæti þar sem ég lagði mig eftir fremsta megni á leiðinni til Amsterdam. Síðan reyndi ég líka að lúra í tæplega þriggja tíma lestarferðinni til Maastricht. Allan tíman var hugsað um það eitt að komast heim í rúm til að leggja sig fyrir boðaðan kvöldmat hjá Kati og Claudi.

Þegar ég var loks kominn til Veldwezelt var allt dótið mitt frammi á gangi og miði frá leigusalanum um að hann hafi þurft að hleypa einhverjum öðrum í herbergið mitt! Síðan fór heilmikið aksjón í að ræða málin við leigusalann, á þýsku (sem er skásta málið til að nota í samskiptum okkar og því ekki von á góðu). Til að gera langa sögu stutta var þetta allt einn stór misskilningur og leigan mín rann út 31. júlí. Leigusalinn blíðkaðist samt allur þegar hann hafði sannfærst um að þetta væri allt saman einlægur misskilningur af minni hálfu en ekki véluð útsjónarsemi til að láta hann pakka dótinu mínu saman, svo ég fékk að sofa áfram í húsinu. Þýsku stelpurnar komu með sterka lausn á málinu þar sem Claudia er kominn með nýja íbúð en leigir ennþá gömlu íbúðina út ágúst. Þannig er maður fluttur á Statensingel 152a nálgægt miðbæ Maastricht (nokkurskonar Snorrabraut), sem er hið besta mál því þegar er búið að grisja draslið aðeins við einn flutning. Við leigusalinn kvöddumst svo mestu mátar, enda gaf ég honum leifarnar af (líklega einnota) IKEA rúminu mínu í skiptum fyrir Chiquita bananakassana sem hann hafði sett dótið mitt í.

Sem betur fer er ég með afslappaðan ritgerðarleiðbeinanda sem seinkaði löngu bókuðum fundi okkar í tvígang svo það varð tími til að græja flutninginn. Við hittumst svo seinnipartinn á fimmtudag og fórum yfir stöðuna. Hann var búinn að útkrota uppkastið mitt og kom með fullt af góðum punktum en sem betur fer engar grundvallarbreytingar svona á lokasprettinum. Hinsvegar reynast innansleikjurnar drjúgar eins og alltaf og því vissara að halda sér að verki...

Á meðfylgjandi mynd sést Jón Þór, verkstjóri í Hommahnjúkavirkjun, en vinstra megin við hann glittir í Flexa Popp og síðan sést í Gumma með sleggjuna hægra megin. Afar glöggir lesendur geta greint Hilmar í áhorfendaskaranum vinstra megin á myndinni. Posted by Picasa

|

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

15:10 -


Nú er maður loksins búinn að skila inn uppkasti að mastersritgerðinni og fer út eftir helgina til að spjalla við leiðbeinandann og fá punkta um hvað megi betur fara. Endanlegri útgáfu verður skilað fljótlega og síðan verður haldin vörn 26. ágúst þar sem ég kynni ritgerðina og svara spurningum ritgerðarleiðbeinandans og annars prófessors. Þannig verða nokkrar ritgerðir teknar fyrir þann föstudagseftirmiðaginn en síðan eru haldnar ræður og öllum boðið upp á bjór.

Ritgerðarstússið er semsagt búið að standa yfir í allt sumar þó mesta trukkið hafi verið á manni síðustu vikurnar. Þannig hefur ekki heyrst píp í manni á netinu enda afskaplega lélegur í margmiðlun, ólíkt Vigdísi forseta.

Mest áríðandi er að segja frá stórbrúðkaupi Smára Karlssonar og Sigríðar Gísladóttur sem haldið var í skíðaskálanum í Tungudal 9. júlí, fyrir tæpum mánuði. Þetta var ekki bara góð brúðkaupsveisla heldur stórkostlegt brúðkaupsferli. Smári fékk mig til að vera veislustjóra og við drukkum töluvert út á skipulagninguna. Umræður um skipulag og útfærslu veislunnar voru yfirleitt leiddar mjög fljótt til lykta og sagði Smári þá oft eitthvað á þessa leið: ?Má kannski bjóða þér rauðvín?? Þannig höndluðu þau brúðjón allan undirbúning, af stökustu yfirvegun.

Steggjaveislan, á föstudegi fyrir brúðkaup, var svo með ólíkindum skemmtileg. Söplæsið tókst kannski ekki nógu vel en við gerðum okkar besta. Um tvöleytið hélt Þorsteinn Másson með hópinn út á Djúp á skemmtibátnum Nökkva þar sem var grillað og drukkið. Síðan sá brúðguminn um að vaska upp með haglabyssu þar sem við köstuðum diskunum á loft sem leirdúfur væru og Smári sá um að plaffa þær niður. Þegar við komum í land var haldið á opnun myndlistarsýningar og einhverjir komu við í ríkinu til að fylla á. Síðan var tekið á móti okkur með kvöldmat í Tjöruhúsinu, plokkfisk og fiskisúpu, sem Magnús Hauksson og Ragnheiður Halldórsdóttir reiddu fram af alkunnri snilld. Eftir matinn var glímt á grasinu fyrir framan húsið og tekist á við aflraunasteina. Síðan var farið á Langa Manga þar sem færðist sífellt meiri móða yfir kvöldið eftir því sem á leið. Þó voru ýmsir sem greinilega áttu nóg inni. Þannig fréttist af Geira og Valda á balli í Sjallanum og Hálfdáni Bjarka og Kristjáni Frey yfir á Suðureyri. Kristján var meira að segja svo öflugur að skella sér á æfingu með KG & sonum, hljómsveit föður brúðgumans og bræðra.

Morgundagurinn kom á morgun, og því miður þá en ekki seinna. Valdi hafði tekið sig til og samið lag fyrir brúðhjónin, nokkurs konar Live aid lag, þar sem hver átti sína lína og beitt var öllum mögulegum poppbrögðum. Að sjálfsögðu var bryddað upp á hækkun og síðan klykkt út með rappkafla, til að höfða til unga fólksins. ?Ástin er analog? reyndist allt að því óbærilega katsí, sannkallaður hittari, sem allir fengu á heilann um leið. ?Það er minni í þessu?, eins og höfundur komst að orði. Söngæfing um þrjúleytið snarbjargaði þynnkunni, merkilegt hvað það getur verið hressandi að syngja. Vinaborðið í brúðkaupinu var samt kallað þunna borðið. Þetta var samt allt gert til að undirbyggja góða drykkjukúrfu því í þessu ástandi varð hægur og sígandi uppgangur í veislunni þar til allt ætlaði um kolla að keyra um þrjúleytið. Það var vitað að Smári og Sigga ættu samkvæmisglaða vini en maður verður að taka ofan fyrir ættingjum þeirra sem voru í góðu stuði og dönsuðu á fullu þegar kántríhljómsveitin Unaðsdalur tók við völdum. Síðan endaði þetta allt í góðu stuði, allir komnir með bindin á höfuðið og haldið heim í eftirpartí þar sem var dansað frameftir. Þannig var ekki mikill sprengikraftur í manni vikuna á eftir.

Á meðfylgjandi mynd sést Smári vaska upp með haglaranum. Posted by Picasa

|


15:09 -


Jötnarnir Þorsteinn Jónínuson og Þórarinn Ólafsson eigast við í sögulegri glímu. Valdimar Jóhannsson, Hálfdán Bjarki Hálfdánsson og Pétur Magnússon fylgjast með. Posted by Picasa

|


15:08 -


Nökkvi dró brúðguman síðustu metrana inn í Sundahöfn. Posted by Picasa

|


15:07 -


Brúðkaupsveislan komin á flug, og fyrstu bindin upp á haus. Posted by Picasa

|


15:07 -


Brúðhjónin í sveiflu Posted by Picasa

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.