<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar.g?targetBlogID\x3d4016206\x26blogName\x3d%C3%81stin+mun+sl%C3%ADta+okkur+%C3%AD+sundur\x26publishMode\x3dPUBLISH_MODE_BLOGSPOT\x26navbarType\x3dSILVER\x26layoutType\x3dCLASSIC\x26searchRoot\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/search\x26blogLocale\x3dis_IS\x26v\x3d2\x26homepageUrl\x3dhttps://stinnihemm.blogspot.com/\x26vt\x3d-3586845363492521829', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

föstudagur, febrúar 20, 2009

23:46 -

Slímugra fólk finnst varla en í efstu lögum verkamannaflokksins. Í dag var ég ásamt fleirum að kynna rannsóknarverkefni Fraser-stofnunarinnar á sýningu á vegum Strathclyde. Þar mætti Jim Murphy, ráðherra Skotlandsmála, sem er þingmaður fyrir Glasgow og útskrifaður úr Strathclyde. Allt hans mál var á afskaplega ljúfum nótum þar til kom að pillunni til sjálfstæðissinna. Híð áður ríka Ísland orðið ölmusuþegi hjá AGS (hann notaði orðið "handout") og einungis fyrir samband Stóra Bretlands og Norður-Írlands að Skotland sé á floti.

Þvílíkur óheiðarleiki og lágkúra - sveiattan!

Í fyrsta lagi veitir AGS ekki styrki. 

Í öðru lagi er alls ekki útilokað að Skotlandi hefði vegnað betur sjálfstæðu undir peningamálastefnu Seðlabanka Evrópu.

Þetta er semsagt hin opinber lína New-Labour - þessi gæjar lesa beint upp af talpunktum.

En hvað, þeir verða ekki mikið lengur við völd.

Að léttara hjali: Á morgun er það Easyjet til Munchen og síðan lest áfram til Bad Hofgastein í Austurríki. Pabbi Nikolausar lánaði okkur íbúð þar svo við ætlum að skella okkur á skíði ásamt Helen, írskri vinkonu hans. Við sjálfstæðissinnarnir getum þá gert grín að bresku heimsveldiskomplexunum yfir súrkáli og vænum austurrískum bjúgum í okkar yndislegu Evrópu.

|

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

23:19 -

Úps! Í hita leiksins gleymdi mogginn að minnast á umsögn AGS um núgildandi lög um Seðlabanka.

Hér eru tveir góðir punktar sem þarf að laga:

|


21:21 -

Hvaða furðuplott er í gangi í sambandi við seðlabankafrumvarpið? Hæfiskilyrði of þröng! Master í hagfræði! Ansa ekki svona bulli. Höskuldur í Framsóknarflokknum heldur því fram að þessi skilgreining geti útilokað "þá sem eru með jafn góða menntun og kannski meistar- eða doktorspróf á sviði fjármála. Það geta verið aðrir en hagfræðingar."

Hvernig í ósköpunum ætla þeir að finna mann sem er þess umkominn að verða seðlabankastjóri en getur ekki staðist hæfiskilyrði til að taka upp starfsheitið hagfræðingur?

Seðlabanksastjóri þarf að hafa framúrskarandi feril í starfi sem hagfræðingur. Væntanlega einhver með sterkan akademískan feril á sviði þjóðhagfræði og peningamála eða feril í stjórnunarstöðum alþjóðastofnana - kannski helst einhver blanda af þessu. Ef að maður er seðlabankastjóraefni þá fer það ekkert á milli mála. M.a. þess vegna er gert ráð fyrir að þessir gaurar sitji lengi því það eru ekkert mjög margir af hverri kynslóð sem hafa þetta áhugasvið og kalíber.

Svo er þetta ekki svona lokað. Það var t.d. mjög öflugur prófessor í Maastricht sem var eðlisfræðingur í grunninn en stundaði hagfræðirannsóknir og hefði væntanlega getað sótt um til iðnaðarráðuneytisins að fá að taka upp starfsheitið enda með feril af ritrýndum útgáfum. Sömuleiðis hefur sálfræðingur hlotið nóbelsverðlaunin í hagfræði. Reyndar sinnti hvorugur þeirra peningamálum svo þeir líklega ekki haft erindi sem erfiði að sækja um stöðu seðlabankastjóra, en...

Kommon, ef einhver er á annað borð efni í seðlabankastjóra mun hann ekki falla á smáa letrinu. Fjölbreytinin næst svo í peningastefnunefndinni. Þar er tilvalið að hafa bland af vinnumarkaðshagfræðingum, jafnvel 1-2 úr bakageiranum, á Íslandi væri vel við hæfi að vera með sérfræðing í sjávarútvegi (en það verða líka að vera menn sem eru vandir að virðingu sinni: ekki Hannes Hólmsteinn). Peningastefnunefnd Englandsbanka er t.d. oft ósammála af því fólk kemur úr ólíkum áttum og þar eru niðurstöður atkvæðagreiðslna birtar í fundargerðum.

Hvað gengur frömmurunum til? Á að setja inn einhvern með MBA próf? Kannski Magnús Stefánsson eða Jóhannes Sigurgeirsson. Nei andskotinn, ég geti ekki ætlað neinum svona rugl. Þetta hlýtur að vera til að þóknast einhverjum karlpúngabesservisserum með minnimáttarkennd sem finnst asnalegt að þeir hafi ekki séns.

Við verðum að fara að hætta þessari tryggð við amatörismann.

|

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

12:19 -

Hvernig væri nú að þingmenn (aðallega Sjálfstæðisflokksins) hættu að fjöldaframleiða staðlaðan flokkshestaáróður eftir talpunktum frá flokkunum og færu að gera eitthvað gagn og endurreisa virðingu og áhrif Alþingis.

T.d. gætu þeir farið að dæmi breskra kollega sinn og kalla viðskiptajöfranna fyrir þingnefnd og yfirheyrt um hvernig standi á því að þeir hafi tapað þúsundum milljarða sem Íslendingar og útlendingar hafi treyst þeim fyrir. Hversu miklu þeir hafi stassað á Tortóla, o.sv.frv.
Það gefur auga leið að menn eins og Árni Matthísen og Pétur Blöndal myndu aldrei gúddera svona virkni á Alþingi þar sem þeir voru sjálfir á kafi í sparisjóðaránum (sjá t.d. hér). En er ekki bara kominn tími til að félagar þeirra segi þeim að éta það sem úti frýs?

Frumkvæði breskra þingmanna gerir ríkisstjórnina sífellt vandræðalegri. Gordon Brown og hans kónar voru og eru á kafi uppi í rassgatinu á bankamönnunum og reyna nú leynt og ljóst að leyfa vinum sínum að halda bónusakláminu þrátt fyrir að hafa þegið massífa ríkisaðstoð. Þetta hefur m.a. rekið kanónuna John Prescott í uppreisn, þar sem hann hefur stofnað Facebook grúppu um að stoppa sjálftökuna.

|

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

20:34 -

Hvað er að stjórnmálamönnum sem veður á í Morfís-leikjum og útúrsnúningum þegar við blasa brýnustu úrlausnarefnin síðan síldin hvarf? Hafa þessir menn enga sjálfsvirðingu? Eða er þetta það sem bolurinn vill? Fá þeir SMS frá stuðningsmönnum sínum: “Góður!!!! Grilla í kvöld?” Endalaust er fólki boðið upp á niðurheimskun og útúrsnúninga.

Fólk sem heldur að skattahækkanir / ekki skattahækkanir sé víddin sem fangar helstu álitamál um ríkisfjármál er annað hvort heimskt, latt eða veruleikafirrt.

Hvaða hrakvalslögmál er í gangi þegar við missum Guðfinnu Bjarnadóttur út af þingi en sitjum uppi með Sigga Kára?

Ég skil það svosem mjög vel - þeir sem njóta ekki stjórnmálanna sjálfra sem íþróttar hljóta að kveljast á Alþingi.

Þurfa að kyngja sjálfstæðum skoðunum og vera þægur árum saman til að eiga einhverja von um ráðherraembætti. Kaupa íþróttafélög til að styðja þig í prófkjöri. Díla við daglega útúrsnúninga Björns Bjarnasonar sem eru teknir upp jafnharðan á mbl. Andríki dreifir út talpunktum, Þjóðmál birta hálfsannleiksgreinar skrifaðar af nötturum. Skrímsladeildin heldur skrá um allt sem þú hefur látið út úr þér frá fermingu og dreifir gömlum málsgreinum úr samhengi í tölvupóstkeðjum. Fyrir utan gamaldags skipulagðar hvíslherferðir náttúrlega, atvinnu(ó)öryggið, lánafyrirgreiðslurnar og allt hitt sem er í gangi til að umbuna og refsa. 

Erlendar skuldir, Icesave, ónýtir bankar, kreppa og atvinnuleysi eru yfirstíganleg vandamál - tæknileg úrlausnarefni sem má bæta úr með tímanum. Miklu miklu erfiðara viðfangs er það samfélagslega krabbamein sem íslensk stjórnmálamenning er. Óheiðarleikinn, klíkuskapurinn, samtryggingin og veitingaspillingin. Dramadrottningarnar, hvort sem er á Bessastöðum eða Svörtuloftum og jámennirnir sem sleikja rassgatið á þessu liði.

|


00:35 -

Gylfi Zoega í Kastljósinu er algjört skylduefni að horfa á. 

Svei mér þá ef maðurinn er ekki bara eins manns sannleiks- og sáttanefnd. 

Hlakka til að lesa skýrsluna þeirra Jóns Daníelssonar með morgunkaffinu. Legg ekki í það fyrir háttinn, veit að ég gæti ekki sofið eftir svoleiðis.

Annars var ég að renna í gegnum bókina hans J.K. Galbraiths heitins frá 1954 um hrunið 1929 og líkindin með Íslandi eru sláandi. Hann lýsir aðdraganda hlutabréfabólunnar, niðurtúrnum og eftirmálunum frá andartaki til andartaks eins og um fótboltaleik væri að ræða. Í fullmiklum smáatriðum en bókin er náttúrlega skrifuð mun nær hruninu bæði í tíma og rúmi. En fyrir vikið nær hann stemmningunni mjög vel og þætti persóna og leikenda. Oft væri hægt að heimfæra atburðarásina beint upp á Ísland samtímans að breyttu breytanda. T.d. hvernig eitt vogað eignarhaldsfélag keypti í öðru sem átti hlutabréf í rekstrarfélagi og hvernig menn urðu síðan sífelld frakkari við að lengja í eignarhaldsfélagakeðjunni og keyra vogunina þannig upp úr öllu valdi en viðhalda samt bókhaldsblekkingu um að hvert félaganna hefði traust eiginfjárhlutfall, eignir væru á móti skuldum. Síðan kemur nokkurra mánaða tímabil þar sem leiðtogar stjórnmála og efnahagslífs keppast við að æla út úr sér sífellt torlesnari prósa um að allt sé í lagi og grunnstoðir efnahagslífsins séu traustar. Gagnrýnendur eru frystir úti og stimplaðir niðurrifsseggir. Ástandið versnar sífellt, en alltaf eru dregnar lappirnar í aðgerðum. Ekkert mátti gera sem gæti komið kuski á hvítflibbann. Í þá daga hafði Wall Street líka frjálsar hendur og markaðssamráð var viðtekið. Ég er forvitinn um hvort hún hafi verið gefin út á Íslandi - í öllu falli ætti það vel við í dag. Mætti e.t.v. sjóða hana niður í svona 50 síðna kver. Nógu stutt til að fólk geti lesið í flugvélinni til Osló.

|

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

10:10 -

Skipta á um seðlabankastjórana af því að á hverjum tíma skiptir það máli að eins sé vandað til hagstjórnar og hugsast getur. Akkúrat í dag hefur það sérstaka þýðingu þar sem Ísland þarf að endurheimta trúverðugleika og því mikilvægt að sýna að fagleg sjónarmið séu klíkubræðum yfirsterkari. Hver punktur sem vaxtaálagið lækkar skilar miklu í þjóðarbúið. Brottrekstur Davíðs hlýtur líka að standa ríkisstjórninni næst: Ef er ekki hægt að reka hann opinberann starfsmanninn þá er ekki hægt að hreyfa við neinu og fólk getur byrjað að pakka saman strax – þetta er prófraun.

Sú túlkun að Davíð eigi rétt á launum út skipunartíma stenst e.t.v samkvæmt orðanna hljóðan en ekki samkvæmt eðli máls. Þó hann hafi e.t.v. ekki brotið af sér í hefðbundnum skilningi laga um opinbera starfsmenn þá var hann vanhæfur frá upphafi, skipaður í pólitískri ráðningu, og þannig hlýtur skipunin að vera gölluð frá upphafi. Maðurinn hefði allt eins getað skipað sig lækni á lansanum eða flugmann hjá gæslunni. Vill ég eindregið hvetja þá forhertu sjálfstæðismenn sem telja Davíð slíkan afburðamann að hann sé sjálfkrafa hæfur í Seðlabankann til að skella sér undir hnífinn hjá honum á lansanum og sjá hvort það er ekki hressandi.

|

sunnudagur, febrúar 01, 2009

01:09 -

Á málþingi í Belfast í síðustu viku hitti ég ítalskan kollega sem beitti sínum þjóðlega tjáningarkrafti til að flytja áhyggjur af hvalveiðum Íslendinga. Til andsvars benti ég á að hvalir lifa villtir alla ævi, kjötið er hollt - ríkt af omega fitusýrum og snautt af lyfjum. Semsagt u.þ.b. 100% andstæða flestra fjöldaframleiddra kjúklinga sem hafa lifað í búrum, fá lyf, jafnvel vaxtarbætandi efni og eru mjög skertir að næringargildi. Til að bæta gráu ofan á svart er kjötið svo útsprautað af vatni, sykri og alls kyns efnum til að þyngja það. Þá spurði hún hvort þetta væri ekki bara allt drifið áfram af stórfyrirtækjum sem væru skeytingarlaus um umhverfi og samfélag. Þvert á móti: Hvalveiðar eru stundaðar af fámennum hópi gamalla sérvitra karla, ýmist á trébátum eða hálfrar aldar gömlum gufuskipum. Hvalastofnar við Ísland eru ekki í útrýmingarhættu þó þeir hafi verið það fyrir mörgum árum - veiðum er stýrt og stofninn er rannsakaður. Gömlu karlarnir á trébátunum gerðu útslagið því eftir það steinlá hún fyrir þessu íslenska hægmeti og skyldi ekkert í okkur að leggjast ekki á Brussel til að fá þetta viðurkennt alla leið, með upprunaverndun á verkunaraðferðum og svo framvegis.

Hvalveiðar hafa lengi verið ódýrasta leiðin fyrir stjórnmálamenn til slá umhverfiskeilur - í reynd alveg ókeypis. Engin störf tapast heimafyrir, engin framlög í kosningasjóði dregin til baka og enginn öflugur þrýstihópur leggst á bakið á þér. Þannig var það lengi álitið að hvalveiðar væru efnahagslegt glapræði þar sem tekjutapið af t.d. fiskútflutningi og ferðaþjónustu yrði svo mikið. Ef draga má ályktanir af stemmningunni hér í Bretlandi þá hafa viðhorf breyst. Umhverfisumræðan hefur þroskast og fólk er betur upplýst. Almennt má segja að það sé orðið viðurkennt að til að borða kjöt þurfi að drepa. Það sé hluti af hollu matarræði en neytendur beri ábyrgð á því að velja kjöt sem hefur verið mannúðlega höndlað - helst villt eða alið lausgangandi.

Á bakvið þessa viðhorfsbreytingu stendur fyrstur og fremstur sjónvarpskokkurinn Hugh Fernley Whittingsstall sem hefur predikað vissa back to basics byltingu í sínum þáttum þar sem er reglulega veitt og slátrað. Um daginn fór Gordon Ramsay með tíu ára son sinn á héraveiðar þar sem hann linnti ekki látum fyrr en púkinn hafði vegið og kúttað dýrið. Í kvöld var Jamie Oliver að slátra grís í sjónvarpinu - í samfelldu skoti frá því hnífurinn fór inn og blóðfatan fylltist.

Þannig grunar mig að ef vandað væri til þess að undirbúa arðveginn í Evrópu mætti stunda hvalveiðar með glans. Staðan er einfaldlega þannig að meðal hinna Guardian lesandi stétta fer sprautusöltun að verða miklu alvarlegri glæpur en hvalveiðar.

Hingað til hefur stjórnsýslan í kringum hvalveiðarnar hins vegar verið ákaflega slöpp og útspil fráfarandi sjávarútvegsráðherra líklega fremur fallið til þess að skora stig í prófkjöri en flytja málstað hvalveiða. Svo eru náttúrlega gríðarlega sterk Eiríks-Bergmanns-áhrif sem vinna gegn veiðunum. Þó færa megi góð rök fyrir málinu vill maður eiginlega ekki skipa sér í hóp með áköfustu talsmönnum þess - feðraveldinu í D og B.

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.