<body><script type="text/javascript"> function setAttributeOnload(object, attribute, val) { if(window.addEventListener) { window.addEventListener('load', function(){ object[attribute] = val; }, false); } else { window.attachEvent('onload', function(){ object[attribute] = val; }); } } </script> <div id="navbar-iframe-container"></div> <script type="text/javascript" src="https://apis.google.com/js/platform.js"></script> <script type="text/javascript"> gapi.load("gapi.iframes:gapi.iframes.style.bubble", function() { if (gapi.iframes && gapi.iframes.getContext) { gapi.iframes.getContext().openChild({ url: 'https://www.blogger.com/navbar/4016206?origin\x3dhttp://stinnihemm.blogspot.com', where: document.getElementById("navbar-iframe-container"), id: "navbar-iframe" }); } }); </script>
Ástin mun slíta okkur í sundur

Rafrænt tilverustig Kristins Hermannssonar 

föstudagur, janúar 30, 2009

14:34 -

Það verður eitthvað gott fólk að taka sig til og setja vakningarsamkomu Sjálfstæðislflokksins á YouTube, svo við hin fáum að taka þátt í aumingjahrollinum.

Samkvæmt frásögn mbl.is hefur fundurinn verið óborganlegur: "Geir hafnaði því að það hefði verið mistök að opna hagkerfið. Hann benti á að það þyrfti að verða 10% samdráttur á ári í fjögur ár til að staða efnahagslífsins yrði komin á þann stað sem hún var áður en hagkerfið var opnað."

Eiga þá fótgönguliðarnir að gagnálykta af þessu að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki komist til valda 1991 þá hefði ekki verið neinn hagvöxtur til dagsins í dag? Pah-lís!!! Veit ekki betur en flest OECD ríki hafi vaxið vel á þessu tímabili og í sumum tilvikum betur. Og hefði þá opnun hagkerfisins ekki farið fram? Halló, veit ekki betur en EES samningurinn hafi verið langt kominn í fyrri ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn fór hins vegar illa með stofnanaumgjörð hagkerfisins með fúski, kredduhugsun og flokksdindlavæðingu svo loks var enginn á vaktinni til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Ábyrgðinni má að sjálfsögðu klína á marga fleiri og að lokum sjáum við að lýðræðið okkar er gallað - en það er lengra mál.

|

þriðjudagur, janúar 27, 2009

09:27 -

Ef satt reynist að þetta sé verkefnalisti nýrrar ríkisstjórnar, þá er það í sjálfu sér hið besta mál. Hitt er verra að þarna vantar erfiðasta og veigamesta verkefni næstu ríkisstjórnar, það er kokteil niðurskurðar, skattahækkana og launlækkana sem virðist óhjákvæmilegur, ekki af því AGS, segi það, heldur af því stöðug útgjaldaaukning hins opinber undanfarin ár byggðist á tekjum sem nú eru horfnar. Nú þarf að setjast niður og ræða hvernig eigi að dreifa skellinum og milda eins og hægt er. Íslenska hagkerfið þarf að venja sig af skyndibitahagstjórn og hætta að graðka í sig lánum (KFC og Lindubuffum) cold turkey. Ef vel tekst til með tiltektina á Íslandi gæti farið svo að lánakjör ríkisins skáni og hægt sé að dreifa þessum skelli á lengri tíma. Mér finnst ótrúlegt annað en að það markmið að ná jafnægi í ríkissfjármálum á 2-3 árum sé haft svo bratt í stjórnunarlegum tilgangi og enginn búist við að þannig takist til í reynd. Hins vegar finnst mér verulega ómerkilegt að enginn leiðtoga þjóðarinnar hafi manndóm í sér til að segja umbúðalaust hvað blasir við.

Annað sem ég skil ekki er hvernig Ögmundur Jónasson ætlar að gegna starfi formanns BSRB á sama tíma og hann er heilbrigðisráðherra. Ef menn gefa sig út fyrir að vera góðu gæjarnir og ætla að taka á óvandaðri stjórnsýslu þá verða þeir að byrja á sjálfum sér, ekki eins og Ingibjörg Sólrún sem skellti sér lóðbeint í veitingaspillinguna í utanríkisáðuneytinu (þó í minna mæli væri en yfirgengilegt sendiherraklám forvera hennar). Og bara á praktískum nótum, hvernig ætlar Ögmundur t.d. að færa það í tal við lækna (sem hljóta að vera augljós hópur að byrja á í niðurskurði vegna launafjárhæðanna þó þeir hafi sjálfsagt margt til þeirra unnið) að nú þurfi þeir að taka á sig kjaraskerðingu þegar hann er jafnframt formaður BSRB?

Ekki þar fyrir að allir hljóta að anda léttar að Guðlaugi Þór verði komið sem lengst frá opinberum fjárveitingum.

|

þriðjudagur, janúar 20, 2009

18:57 -

Mér finnst mogginn njóta sín sérstaklega vel sem fjölmiðill án hirðis. Horfði á þessa frétt rétt í þessu og fannstu engu líkara en frjálslynd fréttastofa á borð við bresku Channel 4 væri mætt á svæðið. Góð tilbreyting frá hinum háborgaralegu stórfyrirtækjafjölmiðlum sem Íslendingar eiga að venjast.

Löggan gasaði Sigga Gunnars þar sem hann var við störf sín sem ljósmyndari. Ég hef þekkt hann lengi og get vottað að hann er stæk ógn við þjóðaröryggi.

Nú verða bara allir að mæta næsta laugardag. Því fleiri sem mæta á mótmælasamkomurnar því minni líkur á að enn verði brotið á þjóðinni. E.t.v. getur nógu öflug mæting komið í veg fyrir að mogginn verði matreiddur oní náhirðina og skuldir LÍÚ verði felldar niður o.sv.frv. Þegar mótmælin kalla á bílastæðavandamál í miðbænum þá verða íslensku einokunarkaupmennirnir og stjórnmálamenn þeirra hræddir.

Sérstaklega líst mér vel á mótmælin á Ísafirði. Það er eins og með annað í litlum samfélögum, þar skiptir hver einasti haus máli. Í nándarsamfélaginu er þátttaka í mótmælum ennþá áhrifaríkari því þar er fólk ekki bara þátttakandi í tölfræði heldur persóna. Það verður fylgst vel með því hverjir mæta næst og síðan mæta enn fleiri þar næst því fólk sér að ef Jón og Gunna geta staðið úti á torgi og sagt hingað og ekki lengra þá getur það líka.

Því fleiri sem mæta því erfiðara er fyrir stjórnmálamennina að láta undan klíkubræðrunum og prófkjörskosturunum. Að mæta er það besta sem fólk getur gert fyrir börnin og barnabörnin. Um hverja helgi hafa verið varðar þjóðareignir fyrir marga milljarða sem annars væru komnar í að endurreisa hina fjárhagslega særðu old boys.

Ég mætti tvisvar á mótmæli á leiðinni í gegnum Reykjavík fyrir og eftir jól og þetta voru reglulega upplífgandi stundir. Gott að finna að eftir öll áföllin eru Íslendingar að vakna til meðvitundar. Kom mér á óvart að í báðum tilvikum var meginþorri þátttakenda ríflega miðaldra og settlegur - ég hef sennilega togað meðalaldurinn vel niður. Þannig er öllum óhætt.

|

miðvikudagur, janúar 14, 2009

00:39 -

Er einhver á leiðinni til Skotlands á næstu vikum? Mig vantar hangikjöt...

|

sunnudagur, janúar 11, 2009

21:15 -

Sálin sem mætti í Silfur Egils í dag fór algjörlega á kostum og færði rök fyrir því að hvernig til tækist með það sem má kalla pólitíska úrvinnslu kreppunnar hefði rekstrarhagfræðileg áhrif. Þess ber auðvitað að geta að mjög spennandi hlutir hafa verið að gerast á mörkum félagsvísinda og hagfræði síðustu 20-25 árin. Sá bræðingur hlaut náð Nóbelsnefndarinnar þegar sálfræðingurinn Kahnemann tók hagfræðiverðlaunin 2002.

|

fimmtudagur, janúar 01, 2009

15:38 -

Ari Edvald rekur raunir sínar yfir skemmdum á búnaði og “röskun á tekjuöflun” vegna mótmælanna á Hótel Borg. Aumingja Stöð 2.

Ríkisbankinn sem átti skuldir 365 hefði átt að selja Stöð 2 hæstbjóðanda í gegnsæu ferli til að hámarka virði eigna almennings. Í staðinn var græjað kennitöluflakk fyrir Jón Ásgeir svo hann missti ekki fjölmiðlana. Sígild íslensk spilling.

Stöð 2 hefur alltaf verið beitt í þágu sinna manna, hvort sem það var á tímum Jóns Ólafssonar eða Jóns Ásgeirs. 

Þar að auki nær einokunarrentan sem hlýst bara af mínum prívat viðskiptum við Bónus örugglega langt með að borga eins og eina myndavél.

Svo bítur höfuðið af skömminni að þeir fá lögregluna á launum frá almenningi til að sinna fyrir sig öryggisgæslu.

Ef einhver getur bent mér á einhverja þá aðferð sem ég get notað til að spilla fyrir Jóni Ásgeiri, Björgúlfunum, Grænmetissamráðspálma eða öðru samviskulausu hyski þá eru allar ábendingar vel þegnar. 

Sveltum svínin!

|

© Kristinn 2005 - Powered for Blogger by Blogger Templates hits.