Ótrúlegt að engin orka sé sett í að svara þessari spurningu: Hvað borgar álið fyrir rafmagnið?
Og af hverju viljum við vita álverðið? Af hverjum treystum við því ekki eins og staf á bók að strákarnir okkar í Landsvirkjun hafi samið svo svakalega vel fyrir okkar hönd að forstjóri Alcoa hafi ekki getað sest í viku hann hafi verið svo aumur á eftir? Margt má telja til að tortryggja leyniáráttuna en almenn fræðileg rök og söguleg reynsla eru á þann veg að hringja ætti í öllum viðvörunarbjöllum.
Samvæmt hagfræði 101 (í mesta lagi 201) verður alltaf tilhneiging til að beita bolabrögðum til að komast í sameiginlegar auðlindir sem ódýrast, s.k. rentusókn. Sagan er full af dæmum þar sem gróðamakarar hafa arðrænt nýlendur og fyrrverandi nýlendur. Mörg ríki hafa verið í fátæktargildru árum saman vegna auðlinda sinna, þar sem samtrygging hefur myndast milli þeirra sem nýta auðlindarnar fyrir slikk og spilltu stjórnvaldanna sem svo reiða sig aftur á stuðning rentusóknarmannanna til að halda völdum. Stundum er þetta kallað auðlindabölvun.
Á Íslandi þarf varla bolabrögð. Sveitavargurinn auglýsti sérstaklega eftir rentusóknarmönnum í hinum alræmda bæklingi Lowest Energy Prices og lofaði minimum environmental red tape, eins og frægt er. Óvanalega góð þjónusta. Framsóknarmenn allra flokka voru svo impóneraðir að það þurfti varla að tala þá til, hvað þá meira. Nóg að bjóða sveitavarginum út til New York að hringja kauphallarbjöllu.
Sjálfskipaðir varðmenn leyniorkusamninga og ríkisvirkjana slá svo öll met í aumingjahrolli með því að fylla bloggheima af villtum fullyrðingum um að án álvera væri engin hagsæld á Íslandi og án þeirra séu við að tapa gríðarlegum útblásturssparnaði á koltvíildi.
Þetta er byggt á þeirri forsendu að það séu bara tveir möguleikar í stöðunni. Gera ekkert eða virkja fyrir álver (selja orkuna fyrir leyniprís og gefa svo losunarkvótann sem fæst fyrir orkusparnaðinn, auk þess að rukka ekkert fyrir náttúruspjöllinn). Það fer ekki á milli mála að þessir varðmenn velsældar á Íslandi sem allt vita best eru harðir í horn að taka þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir hönd lands og þjóðar.
Grundvallaratriði í hagfræði er fórnarkostnaður: það sem við þurfum að láta af hendi, til að fá eitthvað annað. Viss einföldun er að halda því fram að orkan sem renni óseld til sjávar í óvirkjuðum fallvötnum sé hreint tap því óspillt náttúra hefur eitthvað virði í sjálfu sér, þó það sé afar erfitt að festa niður. Að auki hefur sá valmöguleiki að geta virkjað seinna eitthvað virði, sem er reyndar líka afar erfitt að meta og byggir á væntinum um mögulega nýtingu seinna meir. En gott og vel. Setjum það þannig niður til einföldunar að orkan renni óseld til sjávar og það sé enginn fórnarkostnaður vegna náttúrúspjallanna. Búum okkur í hugarlund fræðilega náttúruperlu sem er svo fjarri byggð að sárafáir ef nokkrir munu nokkru sinni virða hana fyrir sér, en sökum sérstakra hæfileika íslenskra verkfræðinga er hagkvæmt að leiða orkuna til álvers. Er þá hægt að tapa á dílnum? Jafnvel þótt orkuverðið sé lágt... við erum jú alltaf að fá einhvern aur og svo er náttúrlega útblásturssparnaður af því að nota endurnýtanlegar auðlindir til raforkuframleiðslu!
Jafnvel þó við látum liggja á milli hluta ruðningsáhrifin af niðurgreiddri atvinnuuppbyggingu, ókeypis losunarkvóta og reiknum náttúruvirðið á núlli er samt hægt að tapa á dílnum. Við gleymdum nefnilega að taka inn í dæmið fórnarkostnaðinn sem felst í því, að til skamms tíma er ekki hægt að nota orkuna í annað.
Hvaða tilboð hefðu t.d. borist ef orkugetan hefði verið sett í alþjóðlegt útboð í stað leynisamninga? T.d. væri hægt að nota orkuna til að knýja bílaflota landsmanna, nú þegar tvinnubílar sem hægt er að stinga í samband eru að ryðja sér til rúms. Innflutningssparnaðurinn sem fælist í minni olíukaupum myndi nú aldeilis koma sér vel fyrir þjóðarbúið. Og væri það ekki líka útblásturssparnaður? M.v. bensínverðið held ég að ökumenn væru tilbúnir að seilast langt í sína vasa til að greiða fyrir hleðsluna á bílnum.
Svona heimalausn fyrir íslenskan almenning hefur reyndar þá leiðinlegu aukaverkun að Valgerður Sverrisdóttir, Friðrik Sóphusson og Páll Magnússon hefðu aldrei fengið að gera sér glaðan daga með vinum Georgs W hjá Alcoa í New York. Þannig verður maður að viðurkenna að nyt þeirra hefðu verið rýrð ef ekki hefði verið farin hin hefðbundna ál-leið, því vissulega er upphefð í því að blanda geði við valdamikla iðnjöfra í heimsborgum og sérstök sálræn nyt sem felast í því. En ég vill vera sanngjarn hagfræðingur og væri því meira en til í að bæta þeim skaðann, svo hægt væri að bjóða upp á paretó-skilvirka lausn. T.d. mætti nota hluta af mismun heildarnytja verkefnanna til að kaupa Julio Iglesias til landsins í sérstaka veislu fyrir varðhunda stóriðjustefnunnar, þar sem allir fengju að brún-nefjast að vild og yrðu síðan leystir út með áritaðri mynd af sjálfum sér og goðinu. Það hlýtur að vera miklu betri saga að segja barnabörnunum....